RM 2017

Gærdagurinn var geggjaður. Ég tók þátt í hálfu maraþonhlaupi og undi hag mínum vel, bætti tímann minn (sem á að heita auðvelt þar sem hann var ekki til að hrópa húrra fyrir en hver og einn keppir við sjálfan sig) og sleikti svo sólina í vönduðum félagsskap það sem eftir lifði dags.

En ég ætla að nóta hér fyrir sjálfa mig og minnið að ég hef tvær athugasemdir við skipulag hlaupsins. Í fyrra lagi er það sem hefur verið galið lengi, kannski alltaf, það að tíminn sem líður frá því að ræst er og þangað til maður stígur á rásmottuna í lok hlaups ræður röðinni. Þegar ég hleyp af stað í hlaupinu eru liðnar 3 mínútur frá ræsingu og þá á að draga þessar 3 mínútur frá til að fá út rauntíma minn, flögutímann. Það er auðvelt að reikna þetta rétt og flögutíminn er birtur sem aukaupplýsingar í lokatölum hlaupsins. Fyrir fremstu menn skiptir þetta engu máli, þeir hlaupa yfir mottuna um leið og ræst er. Og upp á röðina er mér skítsama, ég lenti í sæti 1717, en í gær bætti ég tíma minn um 2 mínútur og maður er alltaf í smákeppni við sjálfan sig og hækkandi aldur. Þegar ég hljóp í Kaupmannahöfn í maí leið korter frá ræsingu og þangað til ég komst af stað og það korter var dregið frá enda kemur þannig út réttur flögutími, eiginlegur hlaupatími.

Hitt gagnrýnisatriðið er brekkan upp Kalkofnsveginn, meðfram Seðlabankanum, í blálokin. Maður á að kynna sér brautina fyrirfram en þegar maður horfir á kortið áttar maður sig ekki endilega á þessari litlu hlykkju sem hefur ekki verið undanfarin ár. Ég geri ráð fyrir að breytingin sé einstök vegna framkvæmdanna í Lækjargötu en skipuleggjendum hefði verið í lófa lagið að taka þetta fram í einum af fjölmörgum tölvupóstum síðustu dagana fyrir hlaup.

Í síðasta póstinum stendur þetta:

Hlaupaleiðir í skemmtiskokki og hálfu maraþoni eru örlítið breyttar milli ára. Skemmtiskokkið er styttra en áður og er nú 2,1 km. Í hálfu maraþoni er farið um Skúlagötu, Ingólfsstræti og Hverfisgötu áður en beygt er inn í Lækjargötu en ekki um Kalkofnsveg eins og áður.

Samt geggjaður gærdagur ... og auðvitað hefði verið best að hlaupa leiðina í æfingaskyni í byrjun ágúst ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband