Að missa foreldri

Þetta verður persónulegasta bloggfærslan mín fyrr og síðar.

Mamma mín dó fyrir mánuði. 

Hún var níræð og búin að eiga langa og stranga ævi en hún var mamma mín og mér þótti og þykir ósköp vænt um hana. Hún fékk blóðtappa í hálsinn í október 2014 og átti síðan erfitt með að kyngja. Ég var ekki alveg með á nótunum, ekki heldur þegar hún kom ekki niður kjötinu á jólunum. Hún rýrnaði og léttist sem henni fannst fyrst alveg fyrirtak en svo dró smátt og smátt af henni.

Já, hún var fædd 1927 og auðvitað vissum við að lífið styttist en pabbi minn er fæddur 1921, er sem sagt á 97. aldursári, og ágætlega bragglegur. Síðasta sumar datt engum í hug að mamma væri á förum þar sem hún hljóp um allt, eldaði, bakaði, blaðraði í símann og fór í vettvangsferðir með mér.

En í ágúst hringdi mamma í mig og sagði: „Berglind mín, ég ætla að biðja þig að fara með mig á bráðamóttökuna. Ef ég á að tóra eitthvað lengur verð ég að nærast eitthvað.“ Þá hafði hún ekki nærst í einn og hálfan sólarhring. Hún ældi þessu litla sem hún kom niður. Við systkinin, og pabbi reyndar líka, vorum þá alveg orðin meðvituð um að hún yrði að vera á næstum fljótandi fæði og hún borðaði ab-mjólk og hafragraut í flest mál. Og gat reyndar borðað sætt sem leystist upp í munninum, kökur, súkkulaði og ís.

Ég fór með hana á bráðmóttökuna og hún var lögð inn. Á meðan var pabbi einn heima og datt einhvern tímann um nóttina. Við vitum ekki hvenær, hann ekki heldur, en þegar systir mín kom um kl. 11 lá hann á svefnherbergisgólfinu með þunna blóðtauma um allt gólf. Þrátt fyrir hálserfiðleikana hafði mamma verið hálfgildins sjúkraliði með pabba sem braggast ágætlega, eins og ég sagði, en þurfti samt að fara varlega til að detta ekki á leið á klósettið og datt stundum samt og þá kom mamma skokkandi og dró hann á fætur.

Ég gæti haft millikaflann langtum lengri en ætla að vinda mér í endinn. Pabbi fór á spítala þarna í ágúst og hefur síðan ekki gist heima. Mamma fór daglega til hans og sat eins og hæna á priki á spítalastólum. Já, pabbi bað hana og hún gerði honum til geðs en starfsfólk horfði upp á hana verða rýrari og meira veikburða. Á kjördag 2017 fór ég með hana að kjósa og hún datt kylliflöt á hnakkann, orðin lúin af mikilli yfirsetu á Landakoti. Eitthvert starfsfólk bauð henni stundum kaffi og köku en almennt sat hún þurrbrjósta í allt að fjóra klukkutíma.

Já, sannarlega horfi ég nú í eigin barm og hugsa mitt. Hefði ég ekki átt að átta mig? Hefði ég ekki átt að banna þetta? Hefði ég ekki átt að taka af skarið? Jú, og þess vegna er ég að hugleiða þetta upphátt.

Jólin voru erfið. Bróðir minn flutti inn til mömmu en pabbi var þá kominn á Hrafnistu. Bróðir minn studdi hana og gaf henni að borða. Ég kom líka mikið og reyndi að létta undir. Mamma notaði göngugrind þegar hún gekk um en datt samt, datt af klósettinu, datt af eldhússtólnum þótt við sætum beggja vegna við hana. Hún skall á höfuðið. Ítrekað. Hún lá mikið fyrir en við reyndum að koma ofan í hana næringu.

Fréttir bárust ítrekað af því að Landspítalinn væri undirmannaður og fengi ekki nægt rekstrarfé. Við ætluðum að hlífa heilbrigðiskerfinu en þegar ég hringdi loks á sjúkrabíl 5. janúar leið mér eins og ég hefði vanrækt mömmu mína og bæri ábyrgð á veikindum hennar.

Hún fór á Borgarspítalann með sjúkrabíl föstudaginn 5. janúar af því að hún nærðist illa og af því að hún var búin að detta á höfuðið. Eftir 2,5 klukkustundir á spítalanum kom læknir og leit á hana. Hún var búin að suða í mér að fara heim og ég fór heim kl. 18:30. Vá, hvað ég sé eftir því. Þegar ég kom í hádeginu næsta dag var hún rænulítil og hafði enga næringu fengið. Um kvöldið var hún flutt á kvennadeildina við Hringbraut vegna plássleysis í Fossvoginum. Það hentaði mér prýðilega því að þá var styttra fyrir mig að fara til hennar og það reyndi aldeilis á það næstu vikuna. Mánudaginn 8. janúar var hún í dái eða meðvitundarlaus, ég veit ekki hvernig best er að orða það. Við bróðir minn hittum tvo lækna sem sögðu alveg umbúðalaust að þetta væri búið. Bróðir minn spurði: „Kemst hún þá ekki framar til meðvitundar?“ „Nei,“ sagði önnur. Við skildum að hafin væri líknandi meðferð. Ég lét vita í vinnunni að ég yrði hjá mömmu eins og þyrfti, skrapp svo heim um kvöldið til að fara í sturtu þegar systir mín kom með alla fjölskylduna. Sem ég gekk upp Eiríksgötuna á leið til baka fékk ég skilaboð frá systurdóttur minni um að mamma væri vakandi og að reyna að tala.

Næstu þrjá dagana, þriðjudag, miðvikudag, fimmtudag og fram yfir hádegi á föstudeginum, vakti mamma á daginn, ræðin og skemmtileg, enn mildari og yfirvegaðri en venjulega og kvaddi okkur af mikilli rósemi og glaðværð. Við stefndum til hennar ættingjum og vinum og mér leið eins og ég væri á minni háttar ættarmóti. Hún hafði ætlað að halda upp á níræðisafmælið sitt á gamlaársdag en var þá farin að kröftum.

Hún lognaðist út af á hádegi föstudaginn 12. janúar og dó svo seinni partinn á laugardegi þegar við vorum farin að reikna með að lífið myndi fjara út á viku. Ég var hjá henni og hún skildi fallega við. 

Um kvöldið vorum við öll börnin og flest barnabörnin í kringum dánarbeðið, skælandi og að bollaleggja framhaldið. Starfsfólkið var elskulegt og gaf okkur allan þann tíma sem við þurftum. Og ég þurfti hann ærinn. Ég á engin börn eins og systkini mín og kannski var ég þess vegna tengdust mömmu, ég veit það ekki, en alltént var ég næstum nótt sem nýtan dag við rúmið hennar þessa viku. Meðan hún vakti gaf ég henni að borða og drekka eins og hún gat. Dýrmætir dagar enda náðum við líka að spjalla og skoða myndir, fá gesti og horfast í augu. Það er nefnilega ekki sársauakalaust að missa mömmu sína þótt hún sé orðin níræð og tilbúin að fara.

Eftir að hún dó var okkur sagt að við þyrftum að sækja dánarvottorðið á spítalann en að hringt yrði í okkur. Við hugleiddum ekkert í hvert okkar yrði hringt. Sunnudaginn 21. janúar rankaði ég við mér og mánudaginn 22. janúar fór ég á kvennadeildina og spurði um vottorðið. Þá lá það eins og ómerkilegt krot í móttökubásnum og mér leið eins og mamma mín hefði verið vanrækt í tæpa viku. Af mér. Mér fannst líka votta fyrir samviskubiti hjá starfsfólkinu. Maður þarf að fara með vottorðið til sýslumanns og án þess skilst mér að jarðarför geti ekki farið fram.

Ég er raunsæ og skil að dauðinn er það eina örugga sem lífið býður upp á en ég sakna mömmu samt og mér finnst skömm að heilbrigðiskerfi í meintu velferðarríki sem stíar gömlu fólki í sundur, fólki sem var gift í 66 ár og 8 mánuði, með því að leyfa mömmu ekki að flytja með pabba á Hrafnistu í nóvember. Þau vildu bæði fara á elliheimili og vera þar saman en vistunarmatið stóð í veginum. Flest starfsfólk „á gólfinu“ er almennilegt en ég mun alltaf minnast tveggja lækna með óbragði í munninum sem afskrifuðu mömmu ótímabært af því að þær „vildu ekki vekja með okkur vonir“ og sögðu svo inni á stofunni hjá henni að hún „væri búin að ákveða fyrir okkur“ að þetta væri búið.

Gamalt fólk er fólk, ekki tölfræði, og aðstandendur eru líka fólk. Ég hugsa með hryllingi til þess ef mamma og pabbi ættu ekki okkur systkinin að, fjögur talsins, því að við höfum þó náð að stýra og afstýra ýmsu.

Að lokum vil ég segja það að eftir viku á spítalanum var ég komin með hrúður á augnlokin. Mér skilst að það hafi verið mygla á vinnustaðnum mínum sem ég hef þá ekki kippt mér upp við en á Landspítalanum við Hringbraut er fjandakornið eitthvað í loftinu og mögulega veggjunum sem veldur vanlíðan.

Og núna iðrast ég þess í fyrsta skipti á ævinni að hafa aldrei eignast eigið barn.

Þótt ég birti þessa færslu er hún fyrst og fremst til minnis fyrir mig. Ég finn að hún er ruglingsleg af því að efnið stendur mér svo nærri en ég ætla að láta mig hafa það að birta hana. Ef einhver bætir við reynslusögum í athugasemdum þætti mér það forvitnilegt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Áhrifamikill orð. Er búin að lesa nokkrum sinnum og mun senda þér mín viðbrögð á öðrum vettvangi. Knús.

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 15.2.2018 kl. 16:02

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Takk, Habbý mín. Mér þykir vænt um viðbrögðin.

Berglind Steinsdóttir, 15.2.2018 kl. 19:56

3 identicon

Áhrifaríkur pistill. Ég missti föður minn 2002 og móður mína 2007. Hann var 69 ára, hún 73 ára. Þegar pabbi dó fengum við líka nægan tíma á Landspítalanum til að kveðja hann og vera með honum, veitti enda ekki af því fjölskyldan er stór. Okkur var sagt eins og ykkur að dánarvottorð þyrfti til að geta jarðsungið. En ekki var boðist til að hringja í neinn, enda sýnist mér það ekki hafa gerst hjá ykkur. Hins vegar hagaði þannig til að presturinn sem við vildum láta jarðsyngja var háður ströngum tímaramma og því kom í raun bara einn dagur til greina. Maðurinn minn tók að sér að sækja dánarvottorðið á spítalann, 2 dögum eftir andlátið. Það var ekki tilbúið. Hann spurði hverju það sætti, það þyrfti að fara með líkið austur fyrir fjall og leggja vottorðið inn hjá sýslumanni á Selfossi. "Ja, læknirinn er bara farinn í frí til útlanda", var svarið. Og hvenær er von á honum? "Eftir viku". Takk fyrir það. Minn maður er ákveðinn og sagði: Ég bíð þá bara hér þar til einhver annar skrifar þetta vottorð, því ég fer ekki án þess. Það tók korter. 

En það er skítt og sárt að þurfa að standa í svona strögli og þrefi og leiðindum við aðstæður sem þessar. Nóg er nú samt. Góðar samúðarkveðjur.

Nanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 15.3.2018 kl. 12:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband