Tímasóun eins er afþreying annars

Sumt fólk talar um Facebook sem tímaþjóf. Ég var frekar sein til að skrá mig á Facebook, það fannst a.m.k. fólkinu í kringum mig, en samt eru núna að verða komin átta ár. Ég á það alveg til að detta ofan í Facebook í sófanum yfir sjónvarpinu en aðallega finnst mér Facebook mjög góður utanumhaldari, þar sé ég viðburði sem mig langar að mæta á, þar er mér boðið á alls kyns persónulega viðburði, svo sem í matarboð og afmæli, og sumt skóla- og íþróttastarf er að hluta rekið í gegnum Facebook. Kannski obbinn.

Nú ætla ég að reyna að nefna samfélagsmiðilinn ekki frekar á nafn en ég held að fólk sói tíma sínum í ólíka hluti. Sumum finnst lestur skáldsagna tímasóun, öðrum sjónvarpsáhorf, grúsk yfir mataruppskriftum, innihaldslaus símtöl, spjall í sófanum, að mæta á kappleiki, að hlusta á tónlist -- ekki svo að skilja að ég hafi heyrt fólk segja allt þetta, en tímasóun eins er afþreying annars. Og ein besta uppfinning samtíma míns er internetið sem sést m.a. á því að fólk notar símana sína æ minna til að tala í þá. Ég hringi samt sjálf nokkuð reglulega.

Og þar sem ég á nú rígfullorðinn föður á elliheimili þar sem hvorki er haft net alls staðar né leyfð dýr er ég með það verkefni á vormánuðum að tala við yfirmenn og fá svör. Ég get svo eiðsvarið það að ef ég fæ ekki að hafa netið með mér um allar trissur á mínu elliheimili og helst einn malandi kött verð ég með uppistand sem orð verður á gerandi.

Mun hins vegar sniðganga messurnar ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Við erum á sömu blaðsíðu - segi það og skrifa. 

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 13.3.2018 kl. 13:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband