Stytting vinnuvikunnar

Ég skil ekki af hverju menn eru ekki í óðaönn um allt samfélag að tala um styttingu vinnuvikunnar. Ég átta mig á því að það er alls ekki einfalt alls staðar, síst þar sem starfið felst í viðveru, að vera til taks, svo sem við símsvörun og afgreiðslu. Ég er heldur ekki að biðja sisona um að öllu launafólki verði gefnir 4-6 klukkutímar á viku heldur að menn ræði kosti og galla.

Svona horfir þetta við mér: Í mörgum skrifstofustörfum vinnur fólk ekki meira en 30 tíma á viku þótt uppgefinn vinnutímafjöldi sé 40. Fólk tekur matar- og kaffitímahlé og ég geri ekki athugasemdir við það. Fólk fer úr vinnunni til að mæta á foreldrafundi, til læknis og í jarðarfarir. Ég geri heldur ekki athugasemd við það. En fólk fer líka á vinnutíma í klippingu, með bílinn á verkstæði, með bílinn í skoðun, skreppur í búðina og kaupir inn, leitar að árshátíðarfötum, kennir einn og einn tíma fyrir laun, skreppur heim að opna fyrir píparanum, tryggingasalanum og þvottavélaviðgerðamanninum.

Við lengjum stundum mataratímana af því að margt af því sem við þurfum að gera stendur bara til boða þegar við erum í vinnunni. Ég segi „við“ af því að ég er skrifstofufólk og ég hef vissulega sinnt persónulegum erindum í vinnutímanum en ég hef líka sinnt vinnuerindum í frítíma mínum. Það er alveg hægt að jafnvægisstilla en ég held alveg eindregið að það sé gáfulegast í upptakti að fjórðu iðnbyltingunni að stytta vinnuvikuna.

Ég hef stungið upp á því við kaffivélina (við samstarfsfólk þegar ég sæki mér kaffi) að fólk sem vinnur almennt kl. 9-17 fái fjóra tíma á viku til ráðstöfunar, mæti t.d. einn dag kl. 13 í stað þess að mæta kl. 9. Þá er hægt að skipuleggja strípur, útréttingar eða „helgarþrif“ á þeim tíma ef fólk nýtur þess ekki einfaldlega að sofa út og vera lengi að drekka morgunkaffið yfir samfélagsmiðlunum.

Í sumum fyrirtækjum eru tímar fólks beinlínis verðlagðir og seldir viðskiptavinunum. Á móti styttingu vinnuvikunnar þarf auðvitað að vera skýrt að vinnutíminn nýtist atvinnurekandanum þannig að nóg gangi undan starfsmanninum. Ég segi enn og aftur að auðvitað er þetta ekki einfalt alls staðar, sum störf mælast illa, eru misseinleg og skiljanlega getur fólk átt misgóða daga, en ef fólk finnur að starf þess er metið og því umbunað, það fær næga hvíld og getur sinnt fjölskylduskyldum ætti maður að geta reiknað með meiri orku þann tíma sem það er í vinnunni.

Berglind hefur talað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Berglind hefur talað og það viturlega, að vanda. Umönnunarstéttirnar sem sjá meðal annars um gæslu barna, hafa komist að því að þeirra vinnuviku ætti fyrst að stytta. Hvað gerist þá hjá öllum "40" vinnustundaforeldrunum, sem í vinnutímanum taka af og til á móti pípara eða þvottavélaviðgerðarmanni?

 Hvenær á þá eiginlega að gefast tími til að vera á feisbúk í vinnutímanum?

 Ertu galin Berglind, eða ég?

 Sennilega ég.

 Flottur pistill.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 15.3.2018 kl. 02:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband