Risinn með títuprjónshausinn

Ég skil ekkert í því að ég finn varla nokkurn ritdóm um þríleik Ólafs Jóhanns Sigurðssonar, Gangvirkið, Seið og hélog og Dreka og smáfugla. Ég dró Pálssögu út úr bókahillunni um páskana, hef væntanlega keypt hana á bókamarkaði fyrir nokkrum árum en ekki komið mér í lesturinn því að fyrirsögnin hefur einhvern veginn tekið sér bólfestu í kollinum á mér, risinn með títuprjónshausinn. En ég finn engan dóm í þá veru. Ég finn mat einhvers í Pressunni 29. ágúst 1991 um að þessi þríleikur sé eitt ofmetnasta og leiðinlegasta verk íslenskrar bókmenntasögu. Þar segir um Pálssögu Ólafs Jóhanns:

Trílógía Ólafs Jóhanns var af Ólafi Jónssyni krítíker talin siðasta islenska skáldverkið, síðasti sprotinn á miklum og merkum meið íslenska realismans, en auðvitað er þetta ótrúleg langloka um ótrúlegt gauð þar sem persónulýsingarnar ná engri átt.

Ég byrja umfjöllun mína hér á alröngum enda því að ég er greinilega dálítið sammála Ólafi Jónssyni, Pálssaga er stórkostlega skemmtileg bók. Ég er reyndar bara enn að lesa Seið og hélog en meðan ég las Gangvirkið sem gerist í upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar hló ég margsinnis upphátt. Já, blaðamaðurinn vinnur við prófarkalestur og hnýtur um semíkommur þar sem síst skyldi og klórar sér í hausnum yfir stafavillum -- og ég tengi allan daginn -- en hann hefur líka svo heilbrigðar efasemdir um tilgang lífsins; tilgang starfsins, frítímans, ástarinnar, dauðans, ömmu sinnar og Djúpafjarðar. Úti í heimi geisar stríð og hann leyfir sér að gleyma sér við ástarsorgina og svo finnst honum hann fyrir neðan allar hellur.

Mér finnst magnað hvað ÓJS nær að fjalla skemmtilega og á áhugaverðan hátt um hversdaginn. Það gerist sannarlega ekki mikið á kontórnum og enn minna utan hans en það er líf flestra. Við lifum ekki ævintýri alla daga, við erum ekki í upphöfnu málskrúði stundunum saman. Og hinar litlu búksorgir Páls Jónssonar eru svo drepfyndnar að ég skelli iðulega upp úr.

En hvar eru umsagnirnar? Hvar eru bollaleggingarnar? Hvar eru útleggingarnar?

Ég er ekki búin með þríleikinn allan ...

Og þegar ég klára þennan doðrant hlakka ég til að lesa um Árna Þórarinsson eftir Þórberg Þórðarson. Íslenskan lifi. Íslenskan lifir. Íslenskar bókmenntir lifa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband