,,Að láta kjósa sig"

Ég hef fullt af skoðunum. Sumar eru ígrundaðar en sumar eru tilfinningahlaðnar. Mér þætti mikil áreynsla að hafa skoðun á öllu sem snertir kjaramál, skattamál, innflutning, útflutning, eldi, verðtryggð lán, úthlutun starfsleyfa, verðlagningu mjólkur, persónuvernd, nethlutleysi, efnahagslögsögu, Evrópusambandið, eiturlyf, refsingar, snjallvæðingu, ábúð og ráðstöfun skrifstofa. Ég vil geta hringt úr farsímanum mínum hvar sem er á hringveginum, en hvað þarf til? Ég vil komast greiðlega á milli staða sem ég þarf að fara á milli. Ég vil ekki þurfa að anda að mér svifryki og öðru óheilnæmi. Ég vil búa einhvers staðar þar sem eru svalir og sól. Ég vil geta stundað íþróttir og vinnu. Ég er ekki spennt fyrir tónleikum en fer gjarnan í leikhús og stundum í bíó. Ég vil hafa það gott en ég vil kosta einhverju til. Og þar stendur hnífurinn í kúnni. Þrátt fyrir þessa upptalningu snýst heimur annarra ekki um mig. Við erum samfélag og verðum að finna samnefnara sem virkar. Og ég held að það sé hroðalega erfitt. Við þurfum að forgangsraða og reyna að velja það sem hentar best stærsta hópnum hverju sinni án þess að láta minni hlutann sitja í súpunni.

Hljómar ekki auðvelt.

Ég hef aldrei íhugað að fara í stjórnmál og núna, 27. maí, vorkenni ég óskaplega mikið mörgu fólki sem fór í framboð, bæði sumu fólki sem var kosið og líka öðru sem munaði litlu að næði inn og meira að segja því fólki sem er útilokað að taki sæti í sveitarstjórn á þessu kjörtímabili. Síðustu vikur hljóta að hafa verið skelfilegur rússibani þar sem sjónarmið og persónur eru teygð og toguð.

Ég tek ofan fyrir fólki sem tekur slaginn. Vel gert, frambjóðendur. Nú er bara að gera okkur öllum gagn. innocent


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband