Með norður-kóreska lífið að veði

Ég hef tilhneigingu til að efast, ég viðurkenni það. Fyrstu 40 eða 60 blaðsíðurnar af bókinni Með lífið að veði geispaði ég af leiðindum. Yeonmi lýsir því hvernig norður-kóreska stjórnin heilaþvær allt fólk og telur því trú um að leiðtoginn, sem er pattaralegur hvar og hvernig sem á er litið, hafi fórnað öllu til að tryggja þegnum sínum gott líf, sem í raun felur í sér baráttu upp á líf og dauða hvern einasta dag.

Mér fannst frásögnin svo þversagnakennd, svo fráleitt að hægt væri að innræta 25 milljóna þjóð þá ímyndun að lífið gæti ekki orðið betra þótt fólk vakni með hungurverki og sofni frá hungurverkjum, hafi hvorki hita né ljós, fái ekki menntun, tileinki sér ekki gagnrýna hugsun, myndi sér ekki skoðanir o.s.frv. 

Nú er ég búin með bókina og finnst frásögnin trúlegri. Lýsingin er mjög átakanleg og ég þykist vita að Norður-Kórea sé í alvörunni svarthol á svæðinu. Hún er samt næstum ofvaxin skilningi mínum, þessi skoðanakúgun á 21. öld, ótti fólks við yfirvöld, baráttan um brauðið.

Það sem þvældist hvað mest fyrir mér var að Yeonmi sem er fædd 1993 skyldi vera búin að skrifa bók og búið að þýða hana á mitt tungumál árið sem hún varð 24 ára. Fæstir sem búa við kjöraðstæður hafa sent frá sér bók á þeim aldri. Á hitt ber auðvitað að líta að hún hafði frá miklu að segja, hún er augljóslega góðum gáfum gædd, flóttinn gekk upp og framhaldið varð henni hagfellt.

Ég á greinilega bara óskaplega erfitt með að tengja við alla þessa skoðanakúgun. Þrátt fyrir alls konar sjálfseftirlit og innri ritskoðun í íslenskri pólitík er þessi hugsun svo yfirmáta fjarstæðukennd.

En erindið sem hún flutti í Dublin 2014 kom út á mér tárunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Samfélag Norður Kóreu er einmitt ótrúlega fjarstæðukennt. Erindi Yeonmi hér á Íslandi var algjörlega frábært. Hef lesið meira um Norður Kóreu og horft. Þetta samfélag er brjálæði á okkar tímum. 

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 2.1.2019 kl. 12:03

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Já, ég vildi að ég hefði verið búin að lesa bókina áður en hún kom hingað með erindi sitt. Þá hefði ég farið eða reynt að komast, ég man ekki hvernig stóð á hjá mér.

Berglind Steinsdóttir, 3.1.2019 kl. 20:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband