Dagur mömmu

Mamma mín dó fyrir einu ári og fjórum mánuðum. Í dag er að auki brúðkaupsdagur mömmu og pabba og skírnardagur okkar allra systkinanna þótt systkini mín þrjú séu fædd í júlí en ég í október. Þau voru fyrir vikið orðin fjörgömul þegar þau voru skírð hátt í ársgömul. Kannski var ástæðan sú að mamma og pabbi voru ekki viss um að þau vildu eigast, ég veit það ekki. En þau gengu að eiga hvort annað og lifðu svo súrt og sætt í 66 ár og átta mánuði.

Ég sakna mömmu alla daga og í dag óhemjumikið. Hún átti það til að vera skaphundur og okkur varð sannarlega stundum sundurorða en við jöfnuðum málin alltaf fljótt og vel (nema eitt langt skipti þegar ég var 17 ára kjáni). Og nú er ástandið þannig í fjölskyldunni að ég sit hér flóandi í tárum og finnst hlutskipti mitt ömurlegt. En ég samgleðst henni að hafa fengið sitt friðsæla andlát 90 ára gömul umkringd sínu besta fólki og treysti því að hún leiki við hvern sinn fingur í græna landinu.

Mér finnst þessi færsla alltof persónuleg til að fara út á netið en ég á svo fáa lesendur hér hvort eð er að ég læt slag standa. Stundum er gagnlegt að hugsa upphátt og ég sé að ég hef hvort eð er notað hálfgert dulmál.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Berglind,

Já, stundum er gott að hugsa upphátt og skrifa um reynsluna. Ég samhryggist þér við fráfall móður þinnar. Það getur tekið mörg ár að vinna úr sorg við fráfall nákomins. Þú átt bara að leyfa þér að láta tárin streyma þegar þú hefur þörf fyrir það. Það er ekkert athugavert við það. Og þú ert ekki ein í þessu, og hver hefur ekki átt mömmu sem er "skaphundur" enda hefur verð er enn ennþá alltaf mikið álag á mæðrum þessa lands. Gangi þér vel og haldu endilega áfram að blogga hér. Kveðja, Inga.

Ingibjörg Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 13.5.2019 kl. 01:12

2 identicon

Falleg skrif Berglind - vinkonukveðja

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 16.5.2019 kl. 16:30

3 identicon

Mamma þín var mikill karakter eins og þú elsku vinkona. Skil vel að þú saknir hennar og mömmur eru mikið þarfaþing svona yfirleitt.

Marín Hrafnsdóttir (IP-tala skráð) 16.5.2019 kl. 17:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband