Staðreynd er staðreynd er staðreynd

Maður velur sér vini en ekki fjölskyldu. Ég hef verið frekar heppin en nú er samt orðið fullreynt með annan bróður minn. Þessi færsla er mjög persónuleg en mér finnst hún eiga erindi í opnu dagbókina mína.

Gummi er orðinn 58 ára gamall og skilur eftir sig skuldaslóð. Það er staðreynd. Hann reyndi að reka fyrirtæki í nokkur ár og þau féllu öll á bruðli hans og kunnáttuleysi. Hann fékk lánaðan pening hjá mömmu og pabba, 10,5 milljónir á verðlagi ársins 2008, sem hann veit af og samþykkir en kallar fyrnda skuld af því að henni var ekki þinglýst. Ég var líka meðvirk og lánaði honum pening þótt honum fyndist ég fífl að leggja fyrir og taka t.d. lítil námslán þegar ég var í námi. Skuld hans við mig er nú útistandandi og þegar hann greiðir mér þann pening get ég boðið 40 manns í lúxusferð til Egyptalands. Það gæti orðið mikið stuð í hlaupahópnum mínum.

Í dag er eitt ár og sjö mánuðir síðan mamma dó. Hún var orðin níræð en var alltaf spræk og á sprettinum þangað til 2014, þegar hún varð 87 ára, en þá fékk hún blóðtappa í hálsinn og átti eftir það erfitt með að kyngja. Síðustu þrjú árin nærðist hún of lítið þrátt fyrir viðleitni okkar til að finna upp á einhverju sem færi vel í hálsinn. Fleira var svo farið að gefa sig, eins og fínhreyfingar í höndunum, en kollurinn alltaf skýr. En svo lá hún eina viku á spítala, klukkutímum saman sofandi en þess á milli í roknastuði í sjúkrarúminu að taka á móti gestum. Ég verð ævarandi þakklát fyrir þá viku úr því að svo fór sem fór en sakna hennar óbærilega á köflum.

Ég hélt að þeim Gumma hefði samið vel þrátt fyrir allt en í gær las ég bréf sem hún skrifaði honum 1998 og sagði aldeilis til syndanna. Hún sendi honum það aldrei. Hann er óvirkur alkóhólisti til 30 ára. Það er staðreynd. Gisk mitt er að hún hafi alltaf óttast að hann félli og þess vegna hliðrað til, gefið eftir, sýnt umburðarlyndi og fyrirgefið, fyrirgefið, fyrirgefið, með öðrum orðum verið meðvirk.

Pabbi er 98 ára og rúmliggjandi á Hrafnistu. Það er staðreynd. Í nóvember verða komin tvö ár síðan hann flutti þangað inn, einum og hálfum mánuði áður en mamma dó. Á síðasta ári var Gummi um eina klukkustund í heimsókn hjá honum og obbann af þeim tíma notaði hann til að telja hann á að fá mig til að lána sér pening eða fá pening út af reikningi hans sem systir mín er með umboð fyrir. ÞAÐ ER STAÐREYND.

Við systkinin höfum skirrst við að borga honum móðurarfinn fyrr en hann hefur greitt skuldir sínar við dánarbú mömmu og bú pabba. Í stað þess að hafa sanngirni og heiðarleika að leiðarljósi ræður hann sér lögmann sem ætlar í hart við – ekki okkur systkinin. NEI, PABBA. Bróðir minn og lögmaður hans hóta pabba fjárræðissviptingu og tala í sama umboði um dánarbú pabba. Hann er lifandi. Þetta eru staðreyndir og ég á umboðið í tölvupósti.

Í meira en eitt og hálft ár hef ég burðast með sívaxandi vitneskju um hvern mann bróðir minn hefur að geyma. Steininn tók auðvitað úr þegar lögmaður tók að sér að reka svona mál og af slíku offorsi sem nú er að koma á daginn.

Pabbi er lifandi og hann er skýr í höfðinu en rúmliggjandi. Við getum ekki lagt á hann að ræða þetta við hann, bæði vegna elli hans og ástands og svo er nú komið í ljós – ég sá það í bréfinu sem mamma skrifaði Gumma fyrir 21 ári – að hann er mesta friðardúfan og vill bara að fólk elski og virði friðinn. En gleymum því ekki að Gummi sat á rúmstokknum hans í fyrra og suðaði í honum um peninga. Pabbi sagði mér það sjálfur með sorg í augunum og þegar ég sagði, líka með sorg í mínum augum, að ég myndi ekki lána Gumma meiri peninga kinkaði hann bara kolli og við höfum ekki rætt það meir.

Ég gæti haft langtum fleiri orð um samskipti okkar í fjölskyldunni en nú langar mig að létta þessu af mér þótt ég eigi ekki marga lesendur hér.

Einhver sem þekkir mig ekki gæti spurt: Hefurðu ekki unnið til þessa með einhverjum hætti? – Ég er sannarlega búin að horfa inn á við og hef spurt mig hvar ég hafi misstigið mig. Og ég veit að fjölskylduerjur eru glettilega algengar þannig að sjálfsagt kannast margir við svona lýsingar. Og svar mitt er: Ég er heiðarleg, ég er greiðvikin, ég er smámunasöm, ég er gagnrýnin, ég geri kröfur, ég er vinnusöm – og ég hef verið bullandi meðvirk með alkóhólískum manni. Öllum sem þekkja mig er velkomið að tíunda galla mína.

Á sextugsaldri rennur upp fyrir mér það ljós að líf mitt hefur á ýmsan hátt verið litað af fíkn bróður míns. Ég tiplaði í kringum hann og mamma og pabbi svo sannarlega. Ástæðan? Klassísk; fjölskyldubundin væntumþykja. Svo er hann auðvitað ekki laus við kosti. Hann virkar alltaf glaður og kátur, hann er gestrisinn (en betra að gestirnir taki veitingarnar með) og hann er bóngóður (en hefur svo ekkert úthald). Hann er hugmyndaríkur og drífandi þegar hann er í stuði. Hann hefur lesið mikla heimspeki og hreykir sér af því að hann sé svo vel lesinn, ómenntaður maðurinn. Á samfélagsmiðlum deilir hann oft í viku heilræðum og kærleiksorðum. Gagnvart Hrafnistu setur hann upp heilaga svipinn ef hann sér eða veit um hjúkrunarfræðing og talar um fjölskyldufundi. Honum dettur hins vegar ekki í hug að mæta á þá, ekki frekar en systkinafundi sem við höfum haldið og hann stundum beðið um að fyrra bragði. Í síðustu viku gat hann ekki mætt í 10 ára afmæli dóttursonar síns af því að hann óttaðist að rekast á mig þar. Fyrir nokkrum árum gat hann ekki mætt í stúdentsveislu dóttur sinnar af því að hann óttaðist að rekast á einhvern þar sem hann vildi ekki feisa. Þetta eru staðreyndir eins og það líka að hann borgaði ekki meðlag með dætrum sínum í einhver ár og tók engan þátt í ýmsum kostnaði, svo sem vegna tannréttinga.

Ótrúlegt kannski að segja það en mér líður betur að vera búin að skrifa þetta niður. Maður á alltaf að standa með sínu fólki, hugsar kannski einhver, en Gummi er ekki mitt fólk lengur og auðvitað á maður ekki að standa með mönnum sem svífast einskis til að hámarka gróða sinn á kostnað annarra.

Nú tygja ég mig á Hrafnistu af því að pabbi er orðinn lítilfjörlegur eins og hann orðar það sjálfur og mig langar að standa með honum eins og undanfarin ár. Hann studdi mig til manns og var alltaf boðinn og búinn. Bróðir minn situr hins vegar eins og ugla á prikinu sínu og les góða heimspekibók og sáldrar svo einhverju gullkorninu á samfélagsmiðil. Og auðvitað er svo komið að ég vona að hann komi ekki og trufli pabba framar.

Ég hef haldið mig við staðreyndir og lagt út af þeim. Ég veit að í heildarsamhengi fjölskyldna er ekki um stærstu fjárhæðirnar að ræða og að margir hafa tapað meiri fjármunum. Núna svíður mér sárast hvað hann er ófyrirleitinn gagnvart pabba og mér blöskrar náttúrlega alla leið upp í Kringlu og til baka að lögmaður skuli leggja nafn sitt við svona verknað. Svo virka vinnubrögðin flausturskennd af því að hann notar staðlaðan texta sem hann viðurkenndi að ætti ekki alveg við, umboðið er skráð sem drög og er ódagsett.

Ég læt máli mínu lokið að sinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eg er bæði óskaplega glöð og stolt af því að vera vinkona þín. Kærleikskveðjur

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 14.8.2019 kl. 10:52

2 identicon

❤ 

Marín Guðrún Hrafnsdóttir (IP-tala skráð) 14.8.2019 kl. 11:24

3 identicon

Var að reyna að setja hjarta elsku vinkona.

Marín Guðrún Hrafnsdóttir (IP-tala skráð) 14.8.2019 kl. 11:58

4 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Takk, elsku báðar.

Berglind Steinsdóttir, 14.8.2019 kl. 13:12

5 identicon

Skelfilegt að heyra elsku Berglind.

Guðrún (IP-tala skráð) 14.8.2019 kl. 13:16

6 identicon

Hjartans kveðja!

Ólöf Jónsdóttir (IP-tala skráð) 15.8.2019 kl. 09:32

7 identicon

Ömurlegt að heyra . Hugsa til þín

Árdís Árnadóttir (IP-tala skráð) 15.8.2019 kl. 09:48

8 identicon

Æ, ömurlegt að heyra, elsku Berglind. Gangi ykkur vel.

Laufey Einarsdóttir (IP-tala skráð) 15.8.2019 kl. 09:55

9 identicon

Takk fyrir að deila elsku Berglind. Þú ert sterk að gera þetta. 

Ég óska þér alls hins besta og hugsa til þín.

Jóhanna Fríða Dalkvist (IP-tala skráð) 15.8.2019 kl. 09:55

10 identicon

Risaknúz og kramm mín kæra xxx

Erla (IP-tala skráð) 15.8.2019 kl. 10:40

11 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Takk, elsku bestu. Ég er orðlaus yfir hlýjunni og flóandi í tárum. Knús til ykkar.

Berglind Steinsdóttir, 15.8.2019 kl. 12:49

12 identicon

Elsku Berglind. <3 Ég get rétt ímyndað mér þrautagönguna og hjartasárin sem fylgja svona átökum við þann sem ætti að standa þétt við þig og þína. Sagan þín á erindi út í cosmosið, ég trúi því að sögurnar okkar rati einmit þangað sem þær gagnast best, hvort sem það er bara í kjarna okkar sjálfra eða finni stað í hjarta sem þráir að komast úr einangrun sinna aðstæðna. Gangi þér, og ykkur þremur systkinunum, vel að standa vörð um sjálf ykkur og pabba ykkar <3 

Jana Guðlaugsdóttir (IP-tala skráð) 15.8.2019 kl. 17:48

13 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Takk, elsku Jana. Það munar aldeilis um hlýjuna og allt hefst þetta að lokum.

Berglind Steinsdóttir, 16.8.2019 kl. 16:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband