Hverjum hjálpar AA?

Í vikunni opnaði ég mig með það gagnvart hinum stóra heimi að í fjölskyldunni væri vandamál. Á langri ævi er eðlilegt að lenda í áföllum og árekstrum, stórum og smáum. Manni þarf ekki að líka við allt fólk og ekki þarf öllu fólki að líka við mann. En við förum að lögum, virðum óskráðar reglur samfélagsins, við erum siðleg og við komum vel fram við fólk. Á öllu þessu er auðvitað misbrestur og stundum varðar hann við lög og fólk er svipt frelsi sínu.

Ég veit ekki til þess að við í fjölskyldunni höfum gert neitt sem gæti kostað okkur frelsissviptingu. Allt þetta stóra og nú til langs tíma íþyngjandi mál með bróður minn varðar í sjálfu sér eingöngu peninga og hvernig hann hefur sölsað undir sig fjármuni foreldra okkar og gengið á lagið gagnvart nytsama sakleysingjanum mér, en bara til ársins 2008. Hann skuldar mér sem sagt 7 milljónir króna á verðlagi ársins 2008. Hann veit það, hann viðurkennir það en kallar skuldina fyrnda. Ég var ekki í áhætturekstri, ekki frekar en mamma og pabbi, og ég ætlaði aldrei að gefa honum sem samsvaraði tveggja ára vinnu. En hann ákveður, og hefur lærðan lögmann í liði með sér, lögmann sem sérhæfir sig í dánarbúum, að skuldin við mig sé fyrnd. Ég á það skriflegt frá lögmanninum. Ég er ítrekað búin að skora á Gumma að greiða skuldina en hann mætir kröfunni með þögninni einni. Ég geri ráð fyrir að það sé ráð frá lögmanninum sem hefur svarað mér með þjósti.

Ég veit að margir töpuðu fjárhæðum í hruninu og um leið framfærslu, húsnæði og gleðinni þannig að það er ekki hægt að segja að peningar séu bara peningar. Peningar eru hreyfiafl og færa fólki ákveðin gæði. Og þótt ég hafi ekki þurft að fórna lífshamingju minni út af þessum peningum gaf ég honum þá aldrei og nú á hann peninga til að endurgreiða mér.

Ég á ofsalega margt ósagt í þessum efnum en í fyrrakvöld dreif ég mig á kynningarfund fyrir fullorðna aðstandendur alkóhólista. Ég fór frekar tilbúin að heyra eitthvað nýtt og gagnlegt en varð fyrir vonbrigðum, fannst kynningin vera meira eins og áróður fyrir félagsskapnum, en ég ætla að gefa Al Anon sénsana sex sem talað var um og mæta á ólíka staði og á ólíkum tímum þar sem er ólík samsetning fólks. Margir hafa sagt mér frá uppáhaldstímunum sínum og margir hafa líka talað um AA og Al Anon sem trúboð og húmbúkk. Ég ætla að meta sjálf.

En ég er með spurningu sem hefur ásótt mig síðan í gær: Hvernig stendur á því að maður sem hefur verið í 20+ ár í bataferli hjá AA, bróðir minn, svindlar á foreldrum sínum og systur sinni, vanrækir gamlan föður sinn á Hrafnistu algjörlega þótt hann sé nálægur landfræðilega, þ.e. býr ekki í útlöndum heldur hefur mýmörg tækifæri til að heimsækja hann, hunsar systkini sín og treystir sér ekki til að mæta í boð hjá dóttur sinni vegna þess að hann gæti þurft að tala við einhvern sem hann hefur komið illa fram við? Kannski er hann siðblindur, kannski er hann bara gráðugur, kannski er hann á hugbreytandi efnum, ég veit bara að í mínum augum er hann sótraftur og hann hefur stundað fundi hjá AA. Eiga þeir ekki að hjálpa svona manni meira?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband