Minn fyrrverandi bróðir

Ég held áfram að rekja úr mér garnirnar og hreinsa út úr sálartetrinu.

Nú sit ég á laugardagskvöldi yfir pabba mínum 98 ára og sofandi á Hrafnistu. Ég get ekki vakað yfir honum hverja stund en við Kolbrún og Trausti, systkini mín tvö, skiptumst á um að dekka sem flesta dagtíma svo hann viti af okkur þegar hann rumskar.

Í veikindum hans hafa vaknað upp alls konar hugsanir og minningar og sumt alveg glænýtt. Ég er t.d. nýbúin að átta mig á að pabba hefur verið mikið í mun að fólk deili ekki. Stundum hefur hann tekið rangar ákvarðanir, eins og t.d. með því að þinglýsa ekki skuld bróður míns, Gumma, við hann. Það hefur ekki komið í veg fyrir deilur eða illindi. Okkur datt aldrei annað í hug en að hann gengist við skuld sinni og greiddi hana þegar hann kæmist í færi til þess. Annað hefur aldeilis komið á daginn. Eftir að mamma dó í fyrra réð hann sér lögmann til þess að ganga hart að pabba og fyrir rúmri viku sáum við það svart á hvítu þegar hann lét lögmanninn senda okkur kröfu um arf þar sem hann hótar pabba sviptingu fjárræðis.

Mér liggur margt á hjarta og mun á næstu dögum létta af því ýmsum sögum og tilfinningum sem tengjast þeim. Ég legg mikið upp úr staðreyndunum og mun leggja mig í framkróka við að hafa rétt eftir. Ég veit að í heiminum er margur sótrafturinn og ekki sjálfgefið að mín fjölskylda slyppi en við lesendur vil ég segja að fjölskyldan er mikils virði en alls ekki hægt að ganga að vísu að sé öll vönduð. Fjármál sundra öllum ósköpunum og þótt allt virðist leika í lyndi er skynsamlegt að hafa allt skriflegt, vottað og -- ef nauðsyn krefur -- þinglýst.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband