Ég ... er sjúklega heppin með heilsuna

Ég held áfram að opna inn í kviku á mér. Ég hef það gott, ég er lukkunnar pamfíll. Ég er í skemmtilegri vinnu og fæ borgað fyrir að gera það sem mér finnst skemmtilegast af öllu, að grúska í texta, setja mig inn í máltækni, hitta fólk, tala við fólk og hlusta á fólk.

Mér er eiginlegt að fara vel með og þess vegna hef ég aldrei á ævi minni verið blönk. Ég naut foreldrahúsa meðan ég var í námi sem er ómetanlegt en ég vann líka með náminu. Það var lítið mál en félagslífið galt aðeins fyrir það.

Ég hef aldrei misst úr í skóla eða vinnu vegna kvíða eða þunglyndis sem ég heyri að sé algengt. Á 18 árum á sama vinnustað hef ég misst úr 10 daga vegna eigin veikinda. Ég er sjúklega heppin með heilsuna og þakka oft fyrir það.

Ég á marga góða vinnufélaga og skemmtilega vini. Ég á áhugamál sem ég næ að sinna og njóta.

Ég átti kærleiksríka foreldra sem dóu á þessu ári og því síðasta og þótt þau séu farin á ég áfram góðar minningar um þau, dýrmætt fólk sem vildi mér alltaf það besta.

Ég er heppin. Hins vegar á ég bróður sem hefur komið illa fram við mig og aðra í fjölskyldunni og þessi misserin rænir það mig svolítilli orku að reyna að hindra hann í að beinlínis hafa af mér og systkinum mínum peninga. Það er miklu algengara en ég hafði áttað mig á. Eðlilega vill margt fólk ekki opna inn í kvikuna á sér. Það er sársaukafullt og það verður alltaf einhver hópur sem finnst hinn opinskái vera að röfla, vorkenna sér, snapa athygli eða einfaldlega fara með rangt mál. Það er áhættan sem maður tekur.

Þegar ég skrifa færslurnar sem ég hef skrifað nokkrar í sumar er ég með 100% athygli á málinu en þess utan lifi ég bara lífinu. 

Ég hef ekki undan miklu að kvarta en ég vinn alveg fyrir mínu góða lífi, sit ekki með hendur í skauti og bíð eftir að tækifærin og ævintýrin komi af sjálfu sér. Ekki einu sinni réttlætið. En mjög margt fólk býr við miklu krappari kjör þannig að mér finnst stundum að ég geti ekki leyft mér að standa upp og verja mig. En þá væri ég meðvirk ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband