Stytting vinnuvikunnar

Ég hef mjög mikinn áhuga á að stytta vinnuvikuna og dreifa verkefnum jafnar meðal fólks. Ástæðan fyrir því að vinnudagurinn er 8 klukkutímar er einfaldlega sú að einhver náungi ákvað að þriðjungur sólarhringsins væri eðlilegur í vinnu, þriðjungur í hvíld og þriðjungur í félagslíf og skemmtanir. Þá var vinnudagurinn 10 eða 12 tímar og hann vantaði viðskipti á kránni sem voru í skötulíki hjá mönnum sem rétt höfðu sig heim til að leggjast í bælið. Ef hann sagði það ekki hefði hann getað sagt það, en væntanlega mundi hann ekki eftir ólaunuðum störfum nema maður ætti að elda, þrífa og kenna börnum til vikunnar bara um helgar.

En gott og vel, svona hugsaði þetta einhver árið 1817 (ég finn bara ekki hver það var) og við erum enn að bíta úr nálinni með það. Kjarasamningaviðræður skilst mér að strandi núna helst á því að starfsmenn vilja styttingu vinnuvikunnar og viðsemjendur vilja a) styttingu kaffi- og/eða matartíma b) engan aukakostnað.

Ókei, ef við gefum okkur að vinnutími fólks nýtist almennt vel er óhjákvæmilegt að það kosti að hleypa fólki fyrr af vinnustaðnum. Það á tvímælalaust við um sólarhringsvaktir. Það þarf hins vegar ekki að stytta hverja vakt um 9 mínútur og vera með marga lausa enda. Það er hægt að fækka vöktunum og svo væri hægt að fjölga millivöktum þegar álagið er mest. Margt af því sem er gert á hjúkrunarheimilum krefst hvorki líkamlegs styrks né hjúkrunarþekkingar heldur útsjónarsemi, félagslyndis og glaðværðar. Aðstandenum stendur auðvitað nærri að spjalla við sitt fólk og fara með í ísbíltúra en ná því ekki daglega og ekki marga klukkutíma í einu. Þá væri gott að hafa áhugasamt fólk að störfum.

En ég viðurkenni að ég er farin út fyrir efnið. Segum að vinnuvikan væri núna 40 tímar að lögum. Hún er það. Segjum að vinnuárið væri 1.740 klukkutímar á vinnustað (44 vikur x 40 tímar). Gæti verið að einhverjum fyndist fengur í því að stytta vinnuárið niður í 1.640 tíma og taka skorpur, annað hvort út frá sjálfum sér eða vinnustaðnum?

Já, þetta er snúið en ég veit ekki betur en að her manns sitji nú yfir útreikningum fyrir alls konar stéttir. Sjálfri finnst mér brýnt að stytta vinnuárið OG nýta virkan vinnutíma fólks vel. En verður hægt að kreista skutlið út ef íþrótta- og annað tómstundastarf barna fer fram á skilgreindum vinnutíma?

Hitt áhugamálið mitt sem er nátengt þessu varðar sjálfvirknivæðinguna. Mitt starf getur vel vélvæðst að hluta og ef ég missi vinnuna mæti ég því með æðruleysi. Ef hins vegar vélar geta leyst flest störf hlýtur fyrst og fremst að losna um tíma fólks. Af hverju ætti ekki vinnuvikan að geta orðið einn dagur ef það nægir til að gera allt sem fólk gerir núna? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband