Aðskiljum ríki og meinta þjóðkirkju

Ég sagði mig úr þjóðkirkjunni fyrir mörgum árum þegar komst upp um siðleysi einhvers prestsins. Ég veit svo sem ekki hvort ég trúi á guð en ég held að ég trúi á framhaldslíf í einhverri mynd. Það hefur bara ekkert með presta eða þjóðkirkjuna að gera. Og þegar ég horfði á sr. Pálma í fréttunum í gær blöskraði mér óhemjulega. Ég hef því miður lengi haft illan bifur á honum og þarna sýndi hann síngirni sína.

Í þessu viðtali heldur hann því í rauninni fram að fólk sem hefur sagt sig úr meintri þjóðkirkju vilji samt eiga sitt fasta sæti í kirkjunni, t.d. á jólum. Eina þjónustan sem ég bið um er að láta brenna mig og jarða þegar ég dey og þar þarf engan séra til mín vegna.

Kirkjujarðasamningurinn virkar sem mikill afleikur af hálfu ríkisins þegar það borgar endalaust til að eignast eignir en á aldrei að eignast þær samkvæmt samkomulaginu! Ekkert fyrirtæki myndi semja upp á þau kjör, enginn íbúðarkaupandi myndi gangast inn á það að kaupa íbúð sem hann ætti aldrei að eignast, ekkert barn myndi gera svona lélegan samning: Hérna færðu 15.000-kall, elskan mín, og farðu svo út með ruslið í 40 ár.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Miðað við það að ríkið hefur verið að selja þessar jarðir og hirða ágóðan þá er ekki vafi á eignarhaldinu. Og það er ekki heldur neinn vafi á því að samningurinn, eins og aðrir kaupsamningar, er fullkomlega löglegur og héldi gildi sínu þó til aðskilnaðar kæmi. Aðskilnaður ríkis og kirkju hefur ekkert með þennan samning að gera.

Væri þér boðin 50 milljóna íbúð til eignar gegn greiðslu 500 kr á mánuði allt þitt líf. Þá tækir þú því. Síðan selur þú íbúðina og kaupir aðra eða drekkur andvirðið. Áfram þarft þú samt að greiða fimmhundruðkallinn. Og sjálfsagt þætti börnum þínum og öðrum ættingjum það ósanngjarnt og samningurinn lélegur. En þú gætir losnað með því að greiða 50 milljónirnar. Hvað þætti þér skynsamlegt að gera?

Vagn (IP-tala skráð) 26.12.2019 kl. 15:23

2 identicon

Í mínum huga leikur vafi á hvort þessar jarðir sem kirkjan seldi hafi verið alfarið eign hennar. Við siðaskipti hirti lútherska kirkjan þessar jarðir af kaþólsku kirkjunni. Þá var skylduaðild að kaþólsku kirkjunni sem færðist yfir á lúhersku kirkjuna. Síðan hefur átt sér stað frekari siðaskipti.Á næstsíðustu öld komu fram fríkirkjur og á seinni hluta síðustu aldar hvarf stór hluti þjóðarinnar úr hinum kristnu söfnuðum. Það hlýtur að gilda það sama við þessi siðaskipti og hin fyrstu að hluti eignarhalds þessara jarða færist yfir til nýrri trúfélaga og lífsskoðunarfélaga. Þessi samningur milli ríkis og þjóðkirkju hlýtur því að vera kolólöglegur.

Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 26.12.2019 kl. 15:39

3 identicon

Eignarhald miðast við lög og reglur hvers tíma en ekki óljósar hugmyndir seinni tíma fáfróðra söguskýrenda og bullukolla. Og efasemdir stranda á fyrningarreglum sem gera allar kröfur öldum of seinar. Og hvorki Vatíkanið né Norska Konungsdæmið (fyrri eigendur) hafa lagt fram kröfur.

Frá siðaskiptum og fram að samningnum við ríkið var hin evangelíska lúterska kirkja óskoraður og óumdeildur eigandi þessara jarða, án allra kvaða um að veita öðrum trúfélögum einhverja hlutdeild.

Vagn (IP-tala skráð) 26.12.2019 kl. 20:18

4 identicon

Eignarhald miðast við löggild skjöl sem eru afsöl og kaupsamningar, Vagn. Þjóðkirkjan er hvorki með afsöl eða kaupsamninga sem sannar eignarhald aá þessum jörðum. Þetta er einfaldlega stuldur frá þjóðinni .  Það þýðir ekkert fyrir þig og aðra rugludalla að koma með eigin lögskýringar. Þær gilda einfaldlega ekki.

Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 26.12.2019 kl. 20:28

5 identicon

Eignarhald var til löngu fyrir tíma afsala og kaupsamninga. Og margir bændur hafa hvorugt. Embættismenn konungsríkisins héldu jarðabækur um skráningu eignarhalds o.fl., sem síðar varð að þinglýsingu. Og það er þinglýsingin, og jarðabækur þar sem eigendaskipti urðu fyrir tíma þinglýsinga, sem gildir í nútímanum en ekki afsöl og kaupsamningar. Óþinglýstur kaupsamningur fasteignar er bara pappír, þinglýstur eigandi er eigandi. Og kirkjan hefur ætíð haft þá vottun stjórnvalda og laga sem hefur nægt til að sanna eignarhald. Krafa villuráfandi nútímamannsins um 300 ára útfyllta pappíra, stimplaða og vottaða samkvæmt núgildandi lögum og reglum er fáránleg.

Eignarhald kirkjunnar hefur verið skráð, vottað og við haldið af stjórnvöldum hvers tíma eftir þeim reglum sem giltu um skráningar eigna. Stjórnvöld hafa því engar forsendur til að efast um eignarhaldið. Hin evangelíska lúterska kirkja var óskoraður og óumdeildur eigandi þessara jarða.

Vagn (IP-tala skráð) 27.12.2019 kl. 04:44

6 identicon

Væri þá ekki gott að koma með eitthvað skjalfest um sölu jarða kaþólsku kirkjunnar til hinnar lúthersku kringum 1500 ? Varla gáfu kaþólskir þessar eignir?

Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 27.12.2019 kl. 07:26

7 identicon

Siðaskiptin á Íslandi eru miðuð við aftöku Jóns Arasonar biskups á Hólum 1550.

Kaþólska kirkjan sem slík eins og við þekkjum hana átti fáar jarðir. Páfinn í Vatíkaninu átti lítið á Íslandi og það rann til konungs og síðar Íslenska ríkisins. Það eru einu jarðirnar sem voru teknar með valdi.

Kirkjurnar sjálfar áttu flestar jarðirnar. Skálholt hélt til dæmis áfram að vera biskupssæti og hélt sínum jörðum við siðaskiptin. Hólar héldu áfram að vera Hólar og skráður eigandi 350 jarða þar var Hólar. Kirkjurnar voru ýmist í einkaeigu eða sjálfseignastofnanir og höfðu svipaða stöðu og fyrirtæki nútímans, trúskipti söfnuða breyttu ekki eignarhaldi. Og væri kirkjan á staðnum í eigu bónda þá breyttist ekkert nema trúarsannfæring bóndans. Næstu aldir á eftir voru ýmiskonar uppstokkanir á starfsemi kirkjunnar. Að endingu var eignarhaldið á einni hendi eftir sameiningu allra kirkna á landinu.

Vagn (IP-tala skráð) 27.12.2019 kl. 11:40

8 identicon

Kaþólska kirkjan átti 1/6 allra landeigna á landinu samkvæmt heimildum Vagn.

Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 28.12.2019 kl. 21:21

9 identicon

Kaþólska kirkjan, í Vatíkaninu, átti nálægt 15% allra jarða á landinu samkvæmt heimildum. Þetta voru klaustur og jarðir þeirra og voru teknar yfir af konungi við siðaskiptin, engin þeirra rann til kirkjunnar. Þær runnu síðan frá konungi til Íslenska ríkisins.

Aðrar jarðir í eigu biskupsdæma og kirkna, sem voru fjárhagslega og eignalega ótengd Vatíkaninu, voru um helmingur allra jarða á landinu. Þar var ekki um neina eignabreytingu að ræða bara breytingu á trúarsannfæringu.

Vagn (IP-tala skráð) 29.12.2019 kl. 15:03

10 identicon

Rangt Vagn. 15% er reyndar svolítið nálægt 1/6 hluta svo þar munar ekki miklu. En kóngurinn hirti reyndar hluta þessara jarða við siðaskiptin sem runnu síðan til ríkisins og þjóðkirkjunnar. Gott að þú viðurkennir að " þar var ekki um neina eignarbreytingu að ræða bara breytingu á trúarsannfæringu ( reyndar svolítið þröngvaðri). En breyting á trúarsannfæringu verður líka seinna í sögunni eins og ég sagði fyrst svo þar hljóta að gilda sömu reglur. 

Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 29.12.2019 kl. 22:23

11 identicon

Ég stend við það að Kaþólska kirkjan, í Vatíkaninu, átti nálægt 15% (sumar heimildir segja 14%  https://ritid.hi.is/index.php/ritid/article/view/18/14   bls.177) allra jarða á landinu. Þetta voru klaustur og jarðir þeirra og voru allar teknar yfir af konungi við siðaskiptin. Þær runnu síðan frá konungi til Íslenska ríkisins. Engin þeirra rann til kirkna landsins (kirkjan sem sú stofnun sem við þekkjum var ekki til).

Eignir Skálholts, Hóla og kirkna landsins fyrir siðaskipti héldu áfram að vera eignir þeirra eftir siðaskipti, þar til eignasafnið var sameinað á átjándu og nítjándu öld (og síðan flutt til ríkisins við samninginn 1907). Önnur trúfélög voru ekki í þeirri sameiningu og eiga ekkert tilkall til þessara eigna (enda tilvist þeirra flestra á Íslandi til komin eftir að kirkjan afsalaði sér þessum jörðum til ríkisins). Breyting á trúarsannfæringu kallaði ekki á neina eignabreytingu, hvorki þá né nú, þar gilda sömu reglur.

Vagn (IP-tala skráð) 30.12.2019 kl. 19:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband