... en sá sem gætti hagsmuna hans í fyrstu sagði sig frá því í gær

Ég man eftir viðtali við formann Lögmannafélagsins í vor þar sem hún sagði að fólk mætti ekki samsama lögmanninn þeim verkefnum sem hann tæki að sér. Ég hjó sérstaklega eftir þessu vegna þess að mér mislíkaði það að bróðir minn, fjárglæpamaðurinn sem er að reyna að hafa af mér fé, réð sér lögmann sem veit alveg hvernig í pottinn er búið en tekur samt að sér það skítaverkefni að ganga erinda hans, semja fyrir hann bréf og hringja erfiðu símtölin. En, nei, ég ætla ekki að samsama lögmanninn verkefninu. Ég tek fram að ég veit ekki til þess að bróðir minn, Guðmundur Steinsson, garðyrkjumaður á Sólheimum, hafi beitt líkamlegu ofbeldi, aldrei. Sem óvirkur alkóhólisti með fíknina í blóðinu beitti hann auðvitað mömmu og pabba andlegu ofbeldi því að þau voru alla ævi logandi hrædd um að hann dytti í það, yrði þungur og leiður og færi sér að voða. Þess vegna greiddu þau fjárhagslega götu hans og þess vegna gerði ég þá fjárhagslegu gloríu að lána honum pening til að hlífa þeim stöku sinnum.

Í máli lögmannsins á Aragötu er sagt að lögmaðurinn sem hafi gætt hagsmuna hans í fyrstu hafi sagt sig frá því á föstudaginn. Mig langar að vita af hverju það er. Varla er það vegna persónulegra tengsla þótt þeir (þau?) kannist sjálfsagt hvor við annan vegna þess að þá hefði viðkomandi væntanlega aldrei tekið verkefnið að sér. Bauð viðkomandi við verkefninu þegar á hólminn var komið? Vildi viðkomandi ekki samsama sig verkefninu en óttaðist það ef hann/hún segði sig ekki frá því?

Verkefni er ekki bara verkefni. Sem þýðandi myndi ég ekki taka að mér alls konar verkefni sem ég hefði ekki áhuga á að væru vel gerð þótt ég myndi vafalaust þýða leiðbeiningar um hundafóður ef ég teldi mig geta gert það almennilega og launin væru ásættanleg þótt mig langi meira til að þýða skáldsögur. Allir geta sett sig í þessi spor. Sumt gerir maður einfaldlega ekki, sama hvaða peningur er í boði.

Að svo mæltu tek ég fram að ég vil leyfa fólki að njóta vafans þegar ég veit ekki nóg um málið. Ég veit ekki nóg um Aragötumálið en mig langar að vita hvers vegna einn lögmaður hætti við. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband