Ég er >lean

Ég gæti alveg eins sagst vera skipulögð, skilvirk, straumlínulöguð eða ástunda skynsamleg vinnubrögð. „Lean“ hefur mikið verið í umræðunni síðustu árin eins og þessi hugmyndafræði sé glæný. Hún er það ekki. Hún á uppruna sinn í bílaverksmiðjunni Toyota sem vildi hámarka framleiðsluna og væntanlega gróða sinn. Japaninn Toyoda taldi sig ekki geta bruðlað með hráefni og landnýtingu eins og Ford gerði.

Fólk vill innleiða svona skipulag í vinnu, gera hana skilvirkari, fara betur með hráefni og tíma, lágmarka bið og flutninga. Þar er ég innilega sammála og tel mig hafa staðið fyrir því á mínum vinnustað undir öðru nafni, sem sagt hagkvæmni til að spara tvíverknað.

Ókosturinn við að vera svona lean er að eiga bágt með þegar aðrir bruðla með tíma eða hráefni. Mér var t.d. bætt á síðu á Facebook um að samnýta far milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Frábært. Frá því að síðan var stofnuð hef ég tvisvar farið til Keflavíkur, einu sinni til að skutla og einu sinni að sækja. Ég hefði getað tekið einhvern með en flestir sem auglýsa eftir fari segja varla hvort þá vanti far eða séu að bjóða og varla nokkur hvar í bænum. Ef ég ætla að fara úr Hlíðunum snemma á sunnudagsmorgni nenni ég ekki að sækja einhvern upp í Grafarholt í leiðinni. Það er nefnilega ekki í leiðinni. Mér finnst að fólk þyrfti að tilgreina hverfið og þann hálftíma sem það vill leggja af stað, já, og helst brottfarartíma flugvélarinnar svo fólk sé á sömu blaðsíðu.

Annað dæmi sem ég næ ekki sambandi við er ef átta manna hópur ætlar að mæla sér mót og einhver stingur upp á stað og tíma en fyrsti maður svarar: Kemst ekki. Ef það er mikilvægt að allir komist verður hann að segja hvenær hann kemst eða þau búa til skjal með mögulegum fundartímum og merkja við dagana sem koma til greina. Svo augljóst! En fólk gerir það ekki alltaf ...

Ég heyrði að bjór væri framleiddur á Akureyri, fluttur til Reykjavíkur og dreift þaðan, m.a. til Akureyrar. Ég heyrði að matur væri eldaður á Hvolsvelli og fluttur til Reykjavíkur. Ég heyri að bréf sem er sent frá Bolungarvík til Ísafjarðar millilendi í Reykjavík. Ef þetta er satt, eitt, tvennt eða allt, finnst mér það til marks um fáránlega sóun.

#égerlean


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband