1,2 milljónir á mánuði?

Hvað kostar að reka einstakling? Hvað kostar matur, lyf, húsnæði, rekstur þess og annað það sem veikburða fólk á efri árum þarf? Víglínan hefur eftir forstjóra Grundarheimilanna að það séu 1,2 milljónir króna. Á mánuði.

Ég hefði viljað sjá sundurliðun og kannski verður hún í boði ef einhver spyr Gísla Pál Pálsson.

Hvað kostar maturinn? Lyfin? Húsnæðið? Laun umönnunarfólksins? Launin hans Gísla? Laun annarra millistjórnenda? Er greiddur arður og þarf að fjármagna hann? Ég er ekkert að fullyrða, ég spyr bara.

Ef rekstur eins einstaklings er verðlagður á 1,2 milljónir ímynda ég mér að hægt sé að hagræða án þess að þjónustan skerðist. Á Hrafnistu var þvotturinn sendur i Fönn þótt fullbúið þvottahús væri á staðnum. Á Hrafnistu var sirka helmingi matarins hent þegar ég fylgdist þar með. Á Hrafnistu var umboðsmaður sjúklinga sem var ekkert nema elskulegheitin. Þá meina ég ekkert annað. Hvernig er það á Grund? Eru þar starfsmenn upp á punt?

Og í hvað fara skattarnir sem við borgum alla starfsævina? Velferðarkerfið, ekki satt? Erum við þá aldrei búin að leggja inn fyrir kostnaðinum af okkur þegar við verðum minna sjálfbjarga?

Ef þessi reikningur yrði að veruleika myndu flestir koma sér í skuldir til að þurfa ekki að borga reikninginn. Ég hef metnað til að vera skilvís en ég hef engan metnað til að láta arðræna mig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta eru áhugaverðar pælingar. Ég er sammála þér að mér finnst það heldur einkennileg pólitík ef þeir sem eiga einhvern pening borga þangað til peningurinn er búinn, aðrir borga ekki eða minna. En ég get sagt þér að rekstur hjúkrunarheimila er ekki sérlega ábatasamur. Það er engin tilvijun að fjölmörg sveitarfélög hafa á síðustu mánuðum hætt að reka hjúkrunarheimili, skilað skömminni aftur til ríkisins. Fyrir nokkrum árum varð Vigdísarholt sem rekur Sunnuhlíð, Seltjörn og nú Hornafjörð gjaldþrota og ríkið tók yfir reksturinn. Ég veit líka að þar er stöðugur skortur, sérstaklega á menntuðu starfsfólki, launin eru lág og það eru umtalsvert færri stjórnendur á hjúkrunarheimili en í venjulegum framhaldsskóla svo dæmi sem við þekkjum bæði sé nefnt. 1,2 milljónir mánaðarlega eru sannarlega miklir peningar. En þetta er dýrt húsnæði, það þarf mönnun allan sólarhringinn og lyfja- og lækningakostnaður er umtalsverður enda eru flestir heimilismenn orðnir ansi veikir. Greiðslur til hjúkrunarheimila fara í gegnum Sjúkratryggingar og þar nota menn kerfi sem gengur undir nafninu RAI til að meta "hjúkrunarlega þyngd" heimilismanna (https://www.sjukra.is/heilbrigdisstarfsfolk/oldrunarthjonusta/rai--rug/). Þú getur séð að þyngdarstuðlarnir hafa hækkað, sem þýðir erfiðari, dýrari sjúklingar en líka meiri peningur til heimilana. Heimilin eru algjörlega háð Sjúkratryggingum og þessu kerfi með fjármögnun og ég sé ekkert sem bendir til að SÍ veiti rausnarlega. En ég tek eftir, þegar maður skoðar þessa pappíra að fermetrafjöldi per pláss er frá ca 40 upp í yfir 60 (hæsta og lægsta tala sem ég reiknaði mér til gamans). Kannski er hægt að troða fleirum í sum hús. En nú vija allir sérherbergi, stór, rúmgóð og björt ... ó þessir tímar.

Björgvin Sigurðsson (IP-tala skráð) 9.3.2021 kl. 10:33

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ég tek náttúrlega fullt mark á því sem þú segir, Björgvin, en samt væri áhugavert að sjá sundurliðun á kostnaði. Hvað kostar að reka okkur sjálf? Ég hef ekki lagt í að reyna að reikna það út. Þá meina ég húsnæðishlut hvers í íbúðinni, allan mat, afþreyingu - allt.

Ég á mjög erfitt með að trúa að kostnaðurinn geti verið svona mikill nema einhverjar afskriftir séu reiknaðar inn í, þá tap vegna þeirra sem ekkert borga og þess háttar. Tryggingafélögin leika sér að þessu, rukka skrilljónir af því að þau þurfa að leggja svo mikið í afskriftasjóði.

Og ég ítreka að ég hef horft upp á óheyrilega sóun. Get bætt við heilu lyfjarúllunum sem er hent óopnuðum.

Berglind Steinsdóttir, 9.3.2021 kl. 17:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband