Skert fæðuöryggi?

Ég skil ekki þessa meintu frétt. Ég held að formaður Bændasamtakanna sé að hugsa um smjörið sem endist heima hjá honum eða eitthvað álíka gáfulegt. Enda segir hann til viðbótar við spádóm um níu daga birgðir: 

Ég held að við séum með skilgreinda lagertölu upp á níu daga eða kannski níu vikur ef við náum því. 

Eins og níu sé hans heilaga tala.

Ég held sem sagt að hann sé að lobbíast og honum er það heimilt, en hvað er fréttamaðurinn að hugsa?


Verkfall flugumferðarstjóra

Mér kemur millilandaflugið mikið við. Ég á eftir að fljúga heim í janúar, túristar á mínum vegum eiga eftir að fljúga til Íslands í desember og fjölskyldumeðlimir að fljúga til mín í næstu viku. Ég held að flugumferðarstjórar séu vel settir og ættu að taka því sama og aðrir hafa fengið.

En útspil Samtaka atvinnulífsins fær mig næstum til að skipta um skoðun á kjörum flugumferðarstjóra. Ef tjónið er þegar farið að hlaupa á milljörðum skiptir greinilega mjög miklu máli það sem þau gera í vinnunni.

Ferðaþjónustan hefur einstakt lag á að skjóta sig í fótinn. Ég veit að Samtök atvinnulífsins eru ekki Samtök ferðaþjónustunnar en hvor tveggja samtökin þjóna atvinnulífinu. Og ferðaþjónustan kveinar undan lélegri afkomu en þegar eitthvað gerist, eins og brú brotnar og er ekki hífð upp á næsta klukkutímanum, kveinar ferðaþjónustan undan tjóni upp á milljarða.

Það er ekki hægt að kvarta undan lélegri afkomu og sturluðu tjóni vegna afkomubrests í sama orðinu, það er bara ótrúverðugt.

Og nú er Sigríður Margrét Oddsdóttir langt komin með að sannfæra mig um að flugumferðarstjórar eigi betra skilið en þeim hefur verið boðið.


653 kr.

Enn er ég í sparðatíningnum. Ég kaupi oft smátt á göngu minni um borgina. Nú keypti ég brauð og banana fyrir 4,32 evrur og borgaði með Indóinu mínu. Mér var boðið að velja á milli heimagjaldmiðils og staðargjaldmiðils. Ég vel alltaf erlenda gjaldmiðilinn skv. ráðleggingum. Í þetta skipti tók ég eftir íslensku upphæðinni. Hún var 666 kr. en ég greiddi 653 kr. af því að ég valdi evrurnar.

Alltaf að velja evrur en ekki krónur.

Nú er ég líka orðin langeyg eftir að losna við krónuna, algjörlega óháð mögulegri inngöngu í Evrópusambandið.

Hvers konar meint sjálfstæðishugsun er það að halda í gjaldmiðil sem enginn tekur við utan landsteinanna?


381 króna

Ég keypti 150 gramma snakkpoka (spænskan) og fimm mandarínur á 381 kr. (2,52 evrur) í Carrefour í Málaga. Mér finnst þetta ekki vandræðalega ódýrt. Það er ódýrara en í Bónus en hér eru líka launin langtum lægri en heima.

Og ég borgaði fyrir einn mánuð 250.000 kr. í leigu fyrir litla stúdíóíbúð á besta stað í miðbænum. Hún er auðvitað fullbúin öllu (nema bakarofni, kaffiuppáhellingarvél og lesljósi við rúmið). Sjúklega ódýrt? Nei, mér finnst það ekki. Sem betur fer. Ekki má gleyma svölunum sem voru ástæðan fyrir valinu.


Fyrrverandi kennari

Ég hætti að kenna í grunnskóla 1996 og framhaldsskóla 2001, ekki af því að ég væri komin á aldur heldur vegna þess að mér fannst vinnuumhverfið óboðlegt. Börnin komu ólesin í skólann og álagið var þannig að ég átti aldrei almennilega frí um helgar eða páska. Ég átti frí um jólin vegna þess að þá voru annaskil en um páska sat ég uppi með ritgerðir sem ég varð að lesa þá.

Ég hlustaði á Jón Pétur Ziemsen í síðdegisútvarpinu í gær og hreifst með ákafanum og ástríðunni. Ég veit ekki hvað á að gera til að snúa þróuninni við - ef ég hefði vitað hvað væri til ráða hefði ég sennilega ekki flúið fyrir rúmum 20 árum - en ég held að ráðamenn ættu að hlusta á fólkið í skólunum. Svo þurfum við öll að róa í sömu átt og ekki vera í stöðugum umkenningaleik.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband