Hvatalaunakerfi Skattsins

Ég hlustaði á mjög merkilegt viðtal við ríkisskattstjóra í gær. Hann var spurður út í það sem þáttastjórnendur kölluðu bónuskerfi í launum og hann fór allur í vörn. Yfir fjögurra ára tímabil hafa verið greiddar út 260 milljónir, en hversu margir milljarðar hafa innheimst? Ég er búin að lesa marga dóma þar sem menn hafa verið sakfelldir fyrir að hafa innheimt virðisaukaskatt og ekki staðið skil á honum og ef starfsmenn Skattsins þurfa hvatakerfi til að finna skattsvikara, þá það. Kannski eru grunnlaunin lág og kannski þýðir þetta mikla aukavinnu.

En, guð minn góður, hvað póstarnir frá starfsmönnum Skattsins eru langir og vitlausir. Ef ég sem ponsulítill verktaki skil ekki eina blaðsíðu á íslensku fullyrði ég að eitthvað sé vitlaust í þeim bréfum. Og þau eru send með landgöngupóstinum frá Vestmannaeyjum, að því er virðist, sem eykur ekki skilvirknina. Ég hef svarað með tölvupósti en aftur fengið löturpóst til baka. Og mistökin sem Skatturinn var að leiðrétta stöfuðu frá fyrrum vinnuveitanda mínum en ekki mér! 

Kannski var ríkisskattstjóri í vörn af því að hann veit að kerfið er lélegt en hann var ekki spurður um það. 


Hvar er snjallvæðing umferðarljósanna?

Í mörg ár hefur verið talað um að tímabært sé að stýra umferðarljósum eftir umferð, þ.e. ef umferð er lítil fylgi ljósin henni en ekki öfugt. Þingmaður spurði ráðherra um þetta í vikunni og sagðist orðin leið á að bíða í bílnum sínum á rauðu ljósi þótt engin umferð væri. Ég lendi hins vegar ítrekað í þessu á hjólinu mínu og sums staðar þarf ég meira að segja að ýta á gönguhnappinn til að fá grænt þótt ljósið breytist sjálfkrafa fyrir bílana.

Ég tek því undir með þingmanninum og óska mjög eindregið eftir snjallvæðingu umferðarljósanna. Er það ekki bæði einfalt og fljótlegt á tækniöld?


Líffræði falls

Ég sá mynd í Bíó Paradís sem heitir á ensku ANATOMY OF A FALL, magnaða mynd um mann sem finnst látinn fyrir utan heimili sitt eftir fall af svölum. Spurningin er: Fleygði hann sér fram af eða var honum hrint? Það er úrlausnarefni myndarinnar.

Sandra Hüller leikur aðalkvenhlutverkið, eiginlega aðalhlutverkið þá, og er víst rómuð þótt ég hafi ekki þekkt hana. Hún var frábær. Myndin er löng, næstum tveir og hálfur tími, þannig að leikarar höfðu tóm til að dvelja í augnablikunum og það gerði hún svikalaust. Táningssonurinn var ekki síðri en reyndar er óþarfi að taka neinn út úr, allir leikarar skiluðu sínu með sóma þannig að væntanlega á Justine Triet eitthvað í frammistöðunni.

Myndin er sem sagt um hjón, franskan karl og þýska konu, sem kynnast í London en ákveða að flytja saman út í franska snjóþunga auðn. Þótt þau séu sálufélagar - eða kannski þess vegna - kastast stundum í kekki á milli þeirra og þegar hann er sviplega látinn fer ákærandi að grufla í ýmsu og púslið tekur á sig mynd. Áhorfandinn sér æ meira af lífshlaupi þeirra og getur glöggvað sig á því hver gerði hverjum hvað og hver ekki.

Bónus er síðan að sjá inn í franskan réttarsal og þær skrýtnu vitnaleiðslur sem þar fóru fram. Ég þekki marga sem hafa séð myndina en ekkert okkar veit hvort frönsk réttarhöld fara svona fram. Ég væri til í að vita meira vegna þess að ég þekki til hvernig svona er gert á Íslandi.

En ég get ekki lokið umsögn minni án þess að geta þýðingar og textafrágangs. Ég sá myndina með íslenskum texta Oddnýjar Sen. Sjálfsagt var þýðingin mestmegnis rétt, ég skil ekki frönsku þannig að ég er ekki til frásagnar þar, en einu sinni var always þýtt sem aldrei (eða öfugt, never þýtt sem alltaf) en bæði kommusetning og gæsalappir voru afleitar og hreinlega trufluðu lesturinn. Í beinni ræðu byrjaði hver einasti skjátexti á fremri gæsalöppum, rétt eins og fólk væri ekki að horfa á myndina eða ég veit ekki hvernig ég á að útskýra það. Og hún afmarkaði allar aukasetningar með kommum sem er mælt gegn í ritreglum Árnastofnunar. Það truflaði mig en ég hafði lagt mikla áherslu á að fara á myndina þegar íslensk þýðing fylgdi frekar en enskur skjátexti. Næst mun ég hringja í Bíó Paradís og spyrja hver þýddi myndina sem mig langar að sjá.


Orð gegn orði

Mér finnst ...

Ég fullyrði að Ebba Katrín á stjörnuleik í Orði gegn orði sem ég sá í gærkvöldi í Kassanum. Hún fór með textann af fullkomnu öryggi. Með styrkri leikstjórn sýndi hún ólíkar persónur, aðalpersónuna auðvitað og svo kennarann með því að halda ímynduðum penna undir hökunni og mömmu sína með sígarettuna. Hún fór í og úr lögmannsskikkjunni, úr dragtinni og í kjól sem þjónaði því að sýna hana sjálfa á ólíkum stundum. Þegar hún var orðin fórnarlamb hafði framkoman gjörbreyst, hún geislaði ekki lengur af sjálfsöryggi þeirrar sem hefur yfirhöndina vegna yfirburðaþekkingar á málefnasviðinu heldur var Tessa miður sín og algjörlega sannfærð um að hún gæti ekki unnið eigið mál.

Þið vitið um hvað ég er að tala, þið þekkið efni þessa leikrits sem hefur mikið verið rætt.

Það er alltaf erfitt að standa undir væntingum sem hafa verið blásnar upp. Ég fullyrði aftur að leikkonan er framúrskarandi en MÉR FANNST ekkert nýtt í leikritinu. Við vitum öll að sönnunarbyrðin í kynferðisbrotamálum er erfið vegna þess að það er ORÐ GEGN ORÐI, vegna þess að oft eru þau bara tvö (já, yfirleitt karl og kona) til frásagnar, vegna þess að fórnarlambið efast um eigin upplifun, eigið minni, bæði vegna þess að viðkomandi brýtur sig sjálf niður og vegna þess að krafan um lögræðilegan sannleika er svo afgerandi.

Tölfræðin sýnir þetta.

Sýningin var að því leyti vonbrigði að hún kom mér hvergi á óvart og varpaði engu nýju ljósi á veruleika brotaþola. Að auki hefði ég viljað fá staðfærslu. Tessa, Julian og Richard urðu mér fjarlæg vegna nafnanna. Endalausar leigubílaferðir stungu í stúf. Og loks ætla ég að lýsa yfir að sýningin er 20 mínútum of löng. Tæpir tveir tímar með engu hléi á leikhússtólum eru of margar mínútur í þessu samhengi. Langdregna kynninguna í upphafi hefði auðveldlega má stytta til muna.

En leikkonan var frábær og öll sviðsmyndin sömuleiðis.


Einbirni hverfur í skuggann

Góðar danskar bíómyndir eru svo yfirgengilega frábærar. Ég var að horfa á Metra á sekúndu sem var sýnd á RÚV í nóvember en þá var ég ekki á landinu. Hún er í spilaranum í tæpan mánuð enn. Ég er með þennan inngang vegna þess að ég hef einhvern veginn ekki haft mig í að kaupa aðgang að streymisveitum eins og Netflix og Disney+. Flesta mánuði dugir mér RÚV.

Nema hvað, þessi danska mynd er um hjónaleysi sem söðla um og fara úr höfuðborginni í eitthvert fámenni úti á landi þar sem honum býðst kennarastaða. Þar með er fótunum kippt undan extróvertinum, kærustunni hans til 10 ára og barnsmóður til eins árs.

Bæði eru ástríðufullir áhugamenn um tungumál og tilgang lífsins og passa saman eins og flís við rass en fámennið og skugginn af honum eru að ræna hana allri lífsgleði. Og þetta ferðalag þeirra tveggja og samferðafólksins er óslitin veisla fyrir áhugamenn um tungumál og tilgang lífsins. Og ekki spillti húmorinn fyrir.

Mæli sem sagt með ef þið létuð hana fara framhjá ykkkur.


Spánn: leiðarlokin nálgast

Nei, nei, Spánn er ekkert að niðurlotum kominn, dvöl minni fer bara að ljúka eftir þá tveggja og hálfs mánaðar dvöl hér í suðrinu. Í dag tók ég rútu frá Málaga til Alicante og mig rak í rogastans að verða vitni að því að ótrúlega margir farþegar töluðu hátt í símann og viðmælandinn líka!

Rútubílstjórinn varð að vanda um við einn sem sat nálægt mér. Og þegar betur var að gáð var ein af reglunum að það ætti ekki að trufla aðra farþega með hávaða. Er það sem sagt þannig að menn óttast bylgjur frá símanum?


Áramótaskaupið

Ég er búin að horfa tvisvar og fannst það betra í seinna skiptið. Ég er í útlöndum og á öðrum tíma en heima þannig að kannski var ég bara of sybbin þegar ég horfði á það í beinni útsendingu. Ég veit að mér finnst það alltaf betra þegar leikarar eru margir og eru valdir í hlutverk sem hæfir þeim og það var sannarlega núna. 

Ég hló samt ekki mikið. Er það kannski ofmetið?

Ég heyrði viðtal við Sveppa í gær og hann sagði að hann hefði viljað hafa brandara um Grindvíkinga alls staðar. Sumum þætti það kannski samt ekki mega. Ég tek undir með Sveppa, ég hefði viljað sjá fleiri brandara um Grindvíkinga. Það var t.d. frábær lokapunktur í atriðinu um fjölfóníuna. Og hvaða fína leikkona lék aðalhlutverkið þar á móti Nínu Dögg (sem var alveg frábær líka)?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband