Líffræði falls

Ég sá mynd í Bíó Paradís sem heitir á ensku ANATOMY OF A FALL, magnaða mynd um mann sem finnst látinn fyrir utan heimili sitt eftir fall af svölum. Spurningin er: Fleygði hann sér fram af eða var honum hrint? Það er úrlausnarefni myndarinnar.

Sandra Hüller leikur aðalkvenhlutverkið, eiginlega aðalhlutverkið þá, og er víst rómuð þótt ég hafi ekki þekkt hana. Hún var frábær. Myndin er löng, næstum tveir og hálfur tími, þannig að leikarar höfðu tóm til að dvelja í augnablikunum og það gerði hún svikalaust. Táningssonurinn var ekki síðri en reyndar er óþarfi að taka neinn út úr, allir leikarar skiluðu sínu með sóma þannig að væntanlega á Justine Triet eitthvað í frammistöðunni.

Myndin er sem sagt um hjón, franskan karl og þýska konu, sem kynnast í London en ákveða að flytja saman út í franska snjóþunga auðn. Þótt þau séu sálufélagar - eða kannski þess vegna - kastast stundum í kekki á milli þeirra og þegar hann er sviplega látinn fer ákærandi að grufla í ýmsu og púslið tekur á sig mynd. Áhorfandinn sér æ meira af lífshlaupi þeirra og getur glöggvað sig á því hver gerði hverjum hvað og hver ekki.

Bónus er síðan að sjá inn í franskan réttarsal og þær skrýtnu vitnaleiðslur sem þar fóru fram. Ég þekki marga sem hafa séð myndina en ekkert okkar veit hvort frönsk réttarhöld fara svona fram. Ég væri til í að vita meira vegna þess að ég þekki til hvernig svona er gert á Íslandi.

En ég get ekki lokið umsögn minni án þess að geta þýðingar og textafrágangs. Ég sá myndina með íslenskum texta Oddnýjar Sen. Sjálfsagt var þýðingin mestmegnis rétt, ég skil ekki frönsku þannig að ég er ekki til frásagnar þar, en einu sinni var always þýtt sem aldrei (eða öfugt, never þýtt sem alltaf) en bæði kommusetning og gæsalappir voru afleitar og hreinlega trufluðu lesturinn. Í beinni ræðu byrjaði hver einasti skjátexti á fremri gæsalöppum, rétt eins og fólk væri ekki að horfa á myndina eða ég veit ekki hvernig ég á að útskýra það. Og hún afmarkaði allar aukasetningar með kommum sem er mælt gegn í ritreglum Árnastofnunar. Það truflaði mig en ég hafði lagt mikla áherslu á að fara á myndina þegar íslensk þýðing fylgdi frekar en enskur skjátexti. Næst mun ég hringja í Bíó Paradís og spyrja hver þýddi myndina sem mig langar að sjá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband