Gunnar Þórðarson

Guð minn góður, hvað þættirnir um Gunnar Þórðarson eru frábærir. Þeir voru sýndir á RÚV í gærkvöldi og fyrrakvöld. Ágúst Guðmundsson og Jón Þór Hannesson eru skrifaðir fyrir þeim og á einhverri spjallsíðu las ég að Ágúst hefði tekið viðtölin. Þótt ég hefði vel þegið að sjá Ágústi bregða fyrir er ég samt svo þakklát þegar stjórnandi og spyrill heldur sig til hlés.

Og þá að efni máls. Gunnar Þórðarson verður áttræður í byrjun næsta árs og þá verður örugglega eitthvert húllumhæ þannig að það er frábært að vera aðeins á undan skriðunni. Ég get ekki bætt neinu við afrekaskrána hans eða það sem viðmælendur sögðu um hann. Ég er sjálf mjög gefin fyrir talað mál og lítið fyrir að velja mér tónlist. Ég veit þó sannarlega að lífið væri litlausara án tónlistar og þekki auðvitað öll helstu lög Gunna en ekki öll þau 500 sem hann hefur samið. Það sem viðmælendur sögðu og hrósuðu Gunna fyrir var svo dásamlega efnisríkt og laust við mærð að ég varð raunverulega miklu nær um tónlist og manneskju.

Hattinn ofan fyrir þessu páskasjónvarpi.

 


Á ferð með mömmu - bíómynd

Ég er ódugleg að fara í bíó og sá Á ferð með mömmu ekki í bíó. Ég ætlaði að horfa á hana í flugi með Icelandair í ágúst í fyrra en þá var sjónvarpið bilað þannig að ég sá ekki myndina fyrr en á RÚV í kvöld.

Hún er stórkostleg og það var bara ágætt að ég skyldi sjá hana í rólegheitum í sófanum mínum. Hún er hæfilega súrrealísk og ég gengst alveg inn á það að líkið tali og að sonurinn, Jón Arnfirðingur, sé algjörlega skilningslaus durtur annað slagið en bæði málgefinn og flinkur að veita tilsögn hitt slagið. En samtölin, maður minn, og leikurinn, aðallega auðvitað hjá Þresti Leó Gunnarssyni og Kristbjörgu Kjeld - þetta var klárlega með því besta sem ég hef séð í bíó. Handritið sjálft sannfærandi og með gott flæði og tilsvörin svo vel flutt og leikin, alltaf eins og þau væru bara í þessum kringumstæðum.

Vendipunkturinn var óvæntur og það var reyndar annar massífur kostur, þ.e. hvað framvindan var óvænt.

Mæli svo mikið með myndinni.


Sveinsbakarí í Skipholti

Brauðmeti í bakaríum er dýrara en brauðmeti í stórmörkuðum. Ég hef af og til fengið stórgott brauð í Nettó á frekar góðu verði en ég geri mér grein fyrir að sérverslanir þurfa að verðleggja sig hærra.

Í morgun fór ég í Sveinsbakarí, sem er hvað næst því að vera hverfisbakaríið mitt, af því að ég hef stundum fengið þar normalbrauð sem mig langar stundum alveg óskaplega mikið í.

Normalbrauð var ekki til í morgun og sú sem var þarna að afgreiða sagði að það fengist aldrei. Hvorki brauð né sætabrauð var verðmerkt og engar lýsingar fylgdu heldur. Klukkan var ekki orðin margt þannig að ég lét kyrrt liggja. Verra var að sú sem afgreiddi mig var önug og var í símanum á meðan. Mér fannst ég vera að ónáða hana.

Ég hef ekki verið fastagestur í Sveinsbakaríi en nú er líka alveg ljóst að það verður löng bið á að ég fari þangað aftur að biðja um normalbrauð eða til vara annað þétt brauð vegna þess að páskabrauðið sem ég bar með mér heim var næstum óætt.

Einhverjum kynni að finnast eðlilegra að ég léti Sveinsbakarí vita en ekki bloggsíðuna mína en ég fékk nett á tilfinninguna að konan ætti bakaríið sjálf þannig að líklega er henni sama.


Svörtusandar

Ég kom fljúgandi heim frá Orlando í morgun. Áður en ég fór úr vélinni í Orlando fyrir rúmri viku var ég búin að ákveða að horfa á Svörtusanda á leiðinni heim. Ég hefði sjálfsagt sofnað ef ég hefði lokað augunum en ég ákvað að hámhorfa á þessa þáttaröð sem ég held að ég gæti ekki séð annars staðar. Og þeim tíma var ágætlega varið þótt lopinn væri teygður dálítið vel á köflum. Ég sá fyrsta þáttinn þegar ég flaug út og var spennt að sjá fleira meinafræðilegt sem ég heyrði meinafræðing segja í fyrra að væri bara nokkuð sannfærandi.

Nema bara hvað, endirinn kom alveg smávegis á óvart (nei, ég kjafta engu) en sérstaklega var ég ánægð með að hann byrjaði í þriðja síðasta þætti. Mér finnst leiðinlegra þegar allar þræðir rakna í sundur á síðasta korterinu.

Nema bara hvað, leikararnir stóðu sig að mínu mati vel þótt Aníta (Aldís Amah Hamilton) væri fullvanstillt fyrir minn smekk. Ævar Þór Benediktsson (Gústi) kom stórkostlega á óvart, ég vissi ekki að hann léki hlutverk, heldur bara vísindamann. Þór Tulinius (Raggi) þótti mér stjarnan, ég trúði öllu alltaf sem hann sagði. Burt séð frá því öllu samt sýna meðfylgjandi myndir setningar sem ég hef lengi haft dálæti á (eða ekki), nefnilega hugmyndinni um hina góða konu.

Góð kona

Góða konan

Nema bara hvað, sá sem segir að kona sé góð, eða hafi verið þegar hún er látin, getur ekki hrósað konunni fyrir neitt annað en að vera góð sem er meinlausasta, hlutlausasta, leiðinlegasta og e.t.v. rangasta hrósið sem hægt er að gefa manni. Grínið hjá mér hefur sum sé löngum verið að á mínum legsteini eigi að standa: Berglind var ekki góð kona, þá í þeirri von að ég geti kallast gáfuð, skemmtileg, frumleg eða vinsæl. Ekki að ég sé að leggja ykkur línurnar ...

Nema bara hvað, ég sá síðustu 10 mínúturnar á síðasta korteri flugsins og var orðin hrædd um að ég næði ekki að horfa til enda. En ég náði því!

Góðar stundir.


Iðnaðarmenn

Engir iðnaðarmenn standa að mér síðan pabbi féll frá. Hann var rafvirki og fagmaður fram í fingurgóma, kunni fagið, var sanngjarn, mætti á réttum tíma og almennt stóð við allt sitt.

Undanfarið hef ég verið með smið í vinnu við að laga hjá mér þröskuld. Þar eru sko ófá handtök, get ég sagt ykkur. Það þarf að ná þröskuldinum upp, smíða nýjan, máta, laga, lakka og koma svo aftur fyrir.

Við höfum aðeins spjallað og ég sagði honum m.a. að ég hefði alltaf verið heppin með iðnaðarmenn sem er eins gott þar sem ég er ekki handlagin og þarf að treysta á aðra með allt svona. Hann er sjálfur nánast hættur að vinna vegna aldurs og hefur sáralítilla hagsmuna að gæta. Hann sagði mér að iðnaðarmenn tvíbókuðu stundum suma daga vegna þess að kúnninn á það alveg til að hætta við verk sem búið er að semja um og það með stuttum fyrirvara. Þegar menn eru í harki og lausamennsku er vont að fá upphringingu á sunnudegi til að afpanta margra daga vinnu sem á að hefjast daginn eftir.

Ég þekki ekki þessa kúnna en eitthvað segir mér að það sé nokkuð til í þessu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband