Vinnumórall

Nýr formaður Samtaka iðnaðarins segir núna víða í viðtölum að hægt væri að auka framleiðni í vinnunni, stytta vinnutíma án þess að missa nein afköst. Hún heldur að hægt sé að klípa af kaffi- og matartímum og hleypa fólki fyrr heim af vinnustaðnum.

Það fyrsta sem ég heyrði á götunni var kvein. 

Ég held að það sé óþarfi að klípa af lög- og kjarasamningsbundnum hvíldartíma. Ég held að víða gæti fólk haldið betur áfram í vinnutímanum og klárað dagsverkið á skemmri tíma en átta tímum. Og þannig tek ég undir með Guðrúnu um að hægt væri að stytta vinnutímann eitthvað án þess að tapa í nokkru.

Hins vegar má ekki vanmeta félagslega þáttinn í vinnunni, einkum ef hún er tilbreytingarlaus og lítt krefjandi. Fólk þarf að líta upp úr verkunum, treygja úr sér, skiptast á skoðunum eða bröndurum og hlaða geymana. Sum vinna er þess eðlis að kaffitímarnir þjóna vinnunni, a.m.k. í og með, t.d. ef fólk þarf að sækja upplýsingar eða bera saman bækur sínar. Sum störf krefjast fyrst og fremst viðveru, símsvörun, afgreiðslustörf og önnur slík þjónusta. Það er ekki hægt að svara í símann fyrr en hann hringir eða afgreiða kúnnann sem er ókominn.

Ég veit ekkert hvort þetta er betra í öðrum löndum. Ég veit ekkert hvort meira gengur undan Dönum sem geta síðan byrjað helgina á hádegi á föstudögum. Ég hef heyrt að margir þeirra fái sér einn öl, eða tvo, með hádegismatnum alla daga. Er það satt? Ég hef heyrt að Íslendingar teljist hamhleypur til verka í útlöndum. Er það rétt?

Þetta er spennandi umræða og það veit sá sem allt veit að vinnutíma og vinnustaði er hægt að skipuleggja betur sums staðar -- en ekki með því að henda réttindum sem hafa náðst með áratugalangri baráttu fyrir bættum kjörum. 

Vill í alvörunni einhver standa við færibandið og pakka ís í 7,5 klukkustundir án hvíldar til þess eins að geta farið úrvinda heim í sófann (og hvæst á krakkana)?

Og þá rifjast upp fyrir mér aðbúnaður leiðsögumanna ... 


Bloggfærslur 6. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband