Deild Q

Nú er ég orðin að æstum aðdáanda Jussis Adler-Olsens, deildar Q og starfsmanna hennar. Öll málin sem deildin fæst við eru gömul og óupplýst þannig að sá seki hefur komist upp með glæpinn í einhvern tíma. Að vísu finnst mér Carl Mørck fullstöðluð týpa, gnafinn án ástæðu, skammast út í sitt besta fólk og vanþakkar dugnað, og að sama skapi er þetta besta fólk helst til tryggt og iðið, en það er langstærsti ljóður bókanna þannig að ég á auðvelt með að horfa framhjá honum og njóta spennunnar.

Í bestu spennusögum er kafað ofan í samfélagið, steinum velt og andstyggilegheit krufin og það er svikalaust gert í Skýrslu 64

Útg. á Íslandi 2013

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég hef ekki annað út á þýðinguna að setja en hið sígilda „svo“ sem ég sé of oft í þýðingum úr skandinavískum tungumálum. „Svo hvað áttu við?“ Þar vildi ég hafa: „Hvað áttu þá við?“ Í dönsku er líka miklu oftar byrjað á andlaginu en í íslensku þar sem frumlagið er að jafnaði í upphafi setningar. Það er hin ómeðvitaða regla. Í íslensku er líka nafnið fyrst og svo persónufornafnið með vísun í nafnið: „Nete [eitthvað] þegar hún [eitthvað]“ en í erlendum málum er persónufornafnið oft á undan nafninu: „Hún [eitthvað] þegar Nete [eitthvað].“ Mér láðist að skrifa hjá mér hin raunverulegu dæmi í bókinni.

Fín þýðing hjá Jóni Stefáni heilt yfir.

En af því að ég lærði fyrr á árinu að „bólufreðinn“ væri vísun í fólk sem væri í fíkniefnum staldraði ég við á tveimur stöðum í bókinni:

bólufreðin

 

 

 

 

 

 

Hér eru Assad og Rose „bólufreðin“ eftir daginn vegna álags í vinnu.

Svo er augnaráð Rose „pólfreðið“ sem ég hef ekki heyrt áður. Gaman að því.

pólfreðið, bls. 199

 

 

 

 

 

 

Svo náttúrlega gladdi mig óumræðilega umræðan um hástaf (eða ekki) í seinna orði nafns sem sett er saman úr tveimur orðum. „Rétt“ er að skrifa Mál og menning, Póstur og sími, Almenna bókafélagið, Íslenskir aðalverktakar og Góð ráð.

Og í Skýrslu 64 er það útlendingurinn Assad sem bendir hinum hrokafulla Dana á það:

Hreinar línur (ekki Hreinar Línur)

 

 

 

 

 

 

Eftir það er nafnið á stjórnmálaaflinu skrifað eins og Assad vill:

Hreinar línur!

 

 

 

 

 

 

Jíei.

Reyndar er ein smáathugasemd enn. Ég vel sjálf að beygja bæði nöfn útlenskra karla með eignarfalls-s, Carls Mørcks, Tonys Blairs, Daniels Jonhnsons, en gútera aðrar reglur sem menn nota, sbr. að beygja bara annað tveggja. Þýðandinn velur hins vegar að beygja Assad í þágufalli, frá Assadi, sem mér finnst óþarfi, ekki síst þar sem hann beygir ekki Carl í þágufalli, skrifar ekki frá Carli, og gleymir stundum að beygja Assad. Algjört smáatriði.

Mæli eindregið með bókum Jussis! 


Bloggfærslur 10. ágúst 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband