Þjóðareign

Gísli sem var fæddur 29. október 1907

Ég fór í síðustu viku á fyrirlestraröð um menningararf á Íslandi. Meðal annarra fróðlegra og fyndinna fyrirlestra var hungurvaki um þjóðardýrlinginn Guðríði Þorbjarnardóttur. Eða er hún það ekki? Ég man ekki öll skilgreiningaratriðin um þjóðardýrlinga og ef ég á að segja alveg eins og er finnst mér dýrlingur ekki neitt sérstaklega gæfulegt hugtak en Guðríður var mikill töffari, frumkvöðull og djarfhugi. Lítur maður þá upp til hennar? Já, ég, full aðdáunar. Er til stytta af henni? Já, aldeilis. Hefur verið skrifað um hana? Já, heldur betur.

Ég ætla ekki að bera Guðríði saman við Gísla á Uppsölum en mér datt hann samt í hug í sama orðinu. Ég fór tvisvar í Selárdal við Arnarfjörð í sumar þar sem Gísli ól allan sinn aldur, öll sín 79 ár eða svo gott sem. Ég man eftir þættinum sem skók sjónvarpsáhorfendur um árið, 1981 var það víst þótt ég muni það ekki, og það á jólunum. Gísli var einbúi, ekki aðeins maður sem hélt einn heimili heldur lengi vel einn í dal sem að öðru leyti var sem sagt mannlaus. Þar var lengst af ekki rafmagn, ekki rennandi vatn, ekki hægt að kæla mat eða frysta nema að frumkvæði náttúrunnar, þegar jafn kalt var úti og inni. Hann létti sér ekki vinnuna með tækjum þegar þau urðu fáanleg, hann var þrjóskur en talsvert útsjónarsamur á sinn þvergirðingslega hátt, frámunalega vinnusamur náttúrlega en líka listelskandi, bókhneigður pælari sem naut ekki sannmælis fyrr en kominn á alefstu árin.

Og þar sem mér þótti hann allt í einu sérlega spennandi athugunarefni sótti ég mér bók Ingibjargar Reynisdóttur sem kom út 2012. Hún er fljótlesin en þrátt fyrir að sumu leyti forvitnilega nálgun er hún fyrst og fremst samantekt úr öðrum heimildum. Ómar Ragnarsson heimsótti hann, Árni Johnsen líka en Ingibjörg Reynisdóttir fór bara á söguslóðir eins og ég gerði í sumar, þefaði af andrúmsloftinu, nýtti sér annarra manna vinnu en tók að vísu fínar myndir sem eru í bókinni. Og með þeim nær hún að fanga fínlega stemningu en ég lét fara dálítið í taugarnar á mér hvernig hún eignaði Gísla alls konar hugsanir og tilfinningar.

Ég er alltént ekki sannfærð um sögu hennar. Hins vegar er Gísli núna þjóðareign og lifir meira meðal manna en hann gerði á langri ævi í Selárdal. Þjóðardýrlingur? Neih, en gersemi. Ég finn óskaplega til þegar ég hugsa um það sem hann mátti þola í æsku og líka þegar ég hugsa um það líf sem hann „valdi“ sér. Hann bjó í algjörri einangrun, skalf sér til hita, var lítið upp á aðra kominn en lifði af.

Já, gersemi á sinn hátt.


Bloggfærslur 5. október 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband