*Skrifaðu flugvöll*

Allir vilja greiðar samgöngur. Allir vilja hámarka öryggi. Allir vilja hagkvæmni.

Ég vil flugvöllinn burt úr Vatnsmýrinni og tel, vissulega tilfinningalega, að hann færi mun betur annars staðar. Ég hef ekkert haft á móti því að færa hann til Keflavíkur, en Keflavík er samt ekki endilega besti staðurinn. En hlýtur það ekki að þjóna hagkvæmninni að hafa innanlands- og millilandaflugvöll á sama blettinum?

Niðurstaða Rögnunefndar hljómar eins og dýrðarinnar tónlist í mínum eyrum. Já, það er tilfinning mín að a) það sé óheppilegt að flugvélar fljúgi yfir þéttustu byggðina á leið til lendingar, b) það gæti þjónað stórum hópi fólks að fljúga utan af landi og geta gengið inn næsta gang til að komast til útlanda og c) sjúklingar þoli aukalega 12 mínútur sem bætast við 150 mínútna meðalferðatíma. Kannski þarf að bæta aðeins við heilsugæslu um borð.

Hingað til hafa aðallega heyrst tilfinningaleg rök með flugvellinum á sama stað, ekki síst að það ógni öryggi sjúklinga og slasaðra að hafa hann annars staðar. Í alvöru? En ef heilbrigðisþjónustan yrði færð, er þá áfram vegið að öryggi sjúklinga að lenda annars staðar, t.d. nálægt nýrri bráðadeild?

Fólk sem á erindi til Reykjavíkur á svo heldur ekki allt erindi í 101.

Fyrir launamann eru 22 milljarðar mjög há upphæð en ef við skoðum 700 milljarða kr. veltu þjóðarbúsins er þessi rosalega háa upphæð aðeins um 3%. Svo má reikna með að eitthvað fáist fyrir landið í Vatnsmýrinni þegar það verður selt, ekki satt? Og hvað með samlegðaráhrifin þegar innanlands- og millilandaflugið verður komið undir sama þak?

Að öllu samanlögðu lofar þessi niðurstaða góðu og nú hlakka ég til að heyra framhaldið. 


Bloggfærslur 26. júní 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband