Vegur um Teigsskóg

Dálæti mitt á Vestfjörðum er ærið en dálítið nýtilkomið þannig að ég er enn að reyna að glöggva mig á ýmsu. Teigsskógur er þar á meðal. Ég er nýbúin að keyra Þorskafjörðinn fjórum sinumm og hef algjörlega látið undir höfuð leggjast að skyggnast um eftir Teigsskógi. Hvar er hann? Nálægt minnismerkinu um Matthías Jochumsson (frá Skógum!)? Hins vegar hef ég spjallað um hann við heimamenn á Patró og Tálknafirði sem og norðar á Vestfjörðum, svo sem í Bolungarvík, og ég fæ ekki betur heyrt en að menn þar séu á einu máli um að Teigsskógur sé eins og annað birki (endilega skiljið ekki orð mín sem beinar tilvitnanir) og það sé út í bláinn að nota ekki svo gott vegstæði fyrir láglendisveg. Staðkunnugir vilja sleppa við hálsana, ekki síst á veturna, og finnst óþarft að varðveita birkið í Teigsskógi sem er víða að finna hvort eð er.

Ég les aðsendan pistil á Reykhólavefnum. Hann er að megninu til afrit af frétt Stöðvar 2 og það litla sem Dýrfirðingarnir skrifa í eigin nafni er að mínu mati fullmiklar blammeringar af því að þeir leggja í raun ekki til neinn rökstuðning sjálfir. Kannski eru þeir búnir að tala af mikilli rökvísi oft og mörgum sinnum á öðrum vettvangi og nú farnir að reyna annars konar nálgun. Ég skal ekki segja.

Svo sé ég grein með skóginum frá árinu 2007 sem byggir á þeim tilfinningarökum að skógurinn sé fallegur og að hægt sé að leggja göng um Hjallaháls og jafnvel líka Gufudalsháls og þannig bæta samgönguæðarnar. Ég er hlynnt tilfinningarökum en samt hlynntari staðreyndum.

Er sams konar birki úti um alla Vestfirði?

Fyrir fjórum árum var lögð fram þingsályktunartillaga um þjóðgarð við Breiðafjörð norðanverðan. Hún varð ekki útrædd frekar en margar þingmannatillögur en af umræðunni má skilja að menn reyni að hugsa um hvernig megi samþætta vegabætur, náttúruvernd og atvinnulíf.

Og ég er auðvitað engu nær um hvað best er að gera, hvaða sjónarmið er „réttast“ en tilfinning mín er samt skýr ...

 


Bloggfærslur 9. ágúst 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband