Vegur um Teigsskóg

Dálæti mitt á Vestfjörðum er ærið en dálítið nýtilkomið þannig að ég er enn að reyna að glöggva mig á ýmsu. Teigsskógur er þar á meðal. Ég er nýbúin að keyra Þorskafjörðinn fjórum sinumm og hef algjörlega látið undir höfuð leggjast að skyggnast um eftir Teigsskógi. Hvar er hann? Nálægt minnismerkinu um Matthías Jochumsson (frá Skógum!)? Hins vegar hef ég spjallað um hann við heimamenn á Patró og Tálknafirði sem og norðar á Vestfjörðum, svo sem í Bolungarvík, og ég fæ ekki betur heyrt en að menn þar séu á einu máli um að Teigsskógur sé eins og annað birki (endilega skiljið ekki orð mín sem beinar tilvitnanir) og það sé út í bláinn að nota ekki svo gott vegstæði fyrir láglendisveg. Staðkunnugir vilja sleppa við hálsana, ekki síst á veturna, og finnst óþarft að varðveita birkið í Teigsskógi sem er víða að finna hvort eð er.

Ég les aðsendan pistil á Reykhólavefnum. Hann er að megninu til afrit af frétt Stöðvar 2 og það litla sem Dýrfirðingarnir skrifa í eigin nafni er að mínu mati fullmiklar blammeringar af því að þeir leggja í raun ekki til neinn rökstuðning sjálfir. Kannski eru þeir búnir að tala af mikilli rökvísi oft og mörgum sinnum á öðrum vettvangi og nú farnir að reyna annars konar nálgun. Ég skal ekki segja.

Svo sé ég grein með skóginum frá árinu 2007 sem byggir á þeim tilfinningarökum að skógurinn sé fallegur og að hægt sé að leggja göng um Hjallaháls og jafnvel líka Gufudalsháls og þannig bæta samgönguæðarnar. Ég er hlynnt tilfinningarökum en samt hlynntari staðreyndum.

Er sams konar birki úti um alla Vestfirði?

Fyrir fjórum árum var lögð fram þingsályktunartillaga um þjóðgarð við Breiðafjörð norðanverðan. Hún varð ekki útrædd frekar en margar þingmannatillögur en af umræðunni má skilja að menn reyni að hugsa um hvernig megi samþætta vegabætur, náttúruvernd og atvinnulíf.

Og ég er auðvitað engu nær um hvað best er að gera, hvaða sjónarmið er „réttast“ en tilfinning mín er samt skýr ...

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Teigskógur er ekki sérlega nálægt minnismerkinu um Matthías Jochumson, heldur í vestanverðum Þorskafirði. Beygt er útaf þjóðveginum í fyrstu beygjunni upp á Hjallahálsinn.

Sjálfur fór ég að líta þessa "dýrð" augum í sumar og þótti ekki neitt sérstaklega mikið til koma. Auðvitað er þetta fagur skógur (kjarr), eins og allir sjálfsprottnir skógar hér á landi. Þó má gera ráð fyrir að fegurðin sé öllu meiri í augum þeirra sem þar eiga sinn sumarbústað, kannski vegna þess að þetta er "þeirra" skógur, sem helst enginn annar má skoða. En í augum hinna, sem ferðast um landið og meta hverja fegurð í samburði við aðra fegurð af svipuðum toga, þá hefur þetta kjarr ekki neitt sérstakt fram að færa. Ekki þarf annað en að stoppa við Bjarkarlund, örlitið sunnan við Þorskafjörðinn og labba nokkra metra upp fyrir staðinn til að komast í fallegra kjarr og jafnvel hærra.

Það eru því engin efnisleg rök og tæplega fagurfræðileg, til að aftra því að vegur verði lagður út Þorskafjörð, að vestanverðu. Hins vegar er engin spurning að þjóðhagsleg rök liggja öll að slíkri vegagerð, ekki bara fyrir íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum, heldur alla íslendinga að maður tali ekki um allt erlenda ferðafólkið sem leggur leið sína þangað vestur.

Jarðgöng eru dýr og engar rannsóknir til um hvort yfir höfuð sé hægt að leggja göng undir Hjallahálsinn. Og jafnvel þó það sé gerlegt er annar fjallvegur eftir, Ódrjúgháls. Þegar hægt er að leggja láglendisveg sem sleppir þessum tveim fjallvegum, láglendisveg sem er til þess að gera ódýr framkvæmd, þarf sterk rök til að gera ekki slíkt.

Þau rök hafa ekki heyrst enn, einungis fagurfræðileg sjónarmið örfárra einstaklinga, studd af samtökum fólks sem fæst hefur litið þá "dýrð" augum.

Gunnar Heiðarsson, 9.8.2015 kl. 15:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband