Hvað ef fólk hefur fengið afskrifað og á svo eignir á Tortólu?

Þá sjaldan ég skrifa hér í mesta meinleysi um eitthvað sem mér finnst í ólagi í samfélaginu hefur einhver óþekktur vænt mig hér á þessum vettvangi um öfund. Þess vegna ætla ég strax að játa að mér blöskrar að stór kotasæludós skuli kosta 438 kr. og askja af kirsuberjatómötum 369 kr. Að sama skapi finnst mér undarlegt að 2 l af pepsíi skuli einungis kosta 198 kr. Ég held að það sé pólitík að hafa hollari vörur á lægra verði og ég veit að ég er ekki alveg ein um þá skoðun. Hvernig verðpólitík er þetta?

Nú er kominn hálfur mánuður síðan afhjúpunarþátturinn var sýndur á RÚV og okkur var brugðið. Við vitum að þetta er lítið brot af alheimsspillingunni og misskiptingunni. Okkur skilst að nöfn allt að 600 Íslendinga séu i Panama-skjölunum og nú dettur mér í hug hvort það sé sama fólkið og fékk afskrifaðar skuldir í niðurfellingunni stóru. Og af því að ég, meinleysinginn, er vænd um öfund þegar ég voga mér að segja svona á bloggsíðunni minni tek ég fram að ég sótti ekki einu sinni um afskrift eða niðurfellingu eða afslátt af húsnæðisskuldum þannig að ef ég öfunda einhvern eru það útlendingar sem geta keypt flunkunýtt, safaríkt mangó heima hjá sér án þess að borga offjár. Og geta þar að auki borðað það.

Ég held að við þyrftum að þræða okkur marga áratugi aftur til að finna upphafið að spillingunni. Fólksfæðin er eitt svarið. 

Ég viðurkenni að þetta er heldur ruglingsleg færsla. Samantekin er hún svona: Það þarf að skera samfélagið upp og fjarlægja meinið sem er misskipting gæða landsins. Framseljum ekki óveiddan fiskinn, seljum þeim ekki rafmagn gegn lágu verði sem geta borgað markaðsverð, reynum að styðja íslenska framleiðslu, t.d. framleiðslu grænmetis, til að spara innflutning (þ.m.t. gjaldeyrisnotkun) og í guðanna bænum, látum ekki heilbrigðiskerfið deyja drottni sínum.

Svo öfunda ég aðallega þá sem geta hlaupið hraðar en ég.


Bloggfærslur 17. apríl 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband