Löggilding löggjafans

Leiðsögumenn hafa barist fyrir löggildingu áratugum saman. Auðvitað lítum við svo á að kjör okkar myndu batna við að fá starfsheitið löggilt þannig að menntaðir leiðsögumenn hefðu ótvíræðan forgang að störfunum og að starfsöryggið myndi þar með aukast, en við erum líka með hag ferðaþjónustunnar og náttúrunnar í huga.

Samvinna í ferðaþjónustu skiptir máli. Ferðamönnum hefur fjölgað hratt síðustu árin og spár eru um framhald þar á. Ferðamenn koma margir á sumrin en þeim fjölgar hratt á veturna líka. Mér skilst að í fyrrakvöld hafi einir 30 leiðsögumenn verið í norðurljósaferð. Ég hef ekkert sérstakt dálæti á þeim sjálf, maður fer út í myrkri og oft kulda og svo er undir hælinn lagt hvort maður finnur einhver ljós. Ef þau sýna sig verða þeir glaðir sem komu til að sjá þau - en ef ekki þarf að útskýra fyrir mörgum hvers vegna þau héldu sig til hlés og skemmta þeim með einhverju öðru. Ferðirnar geta teygst upp í eina sex tíma og ég hef sossum heyrt um norðurljósaferð með ein hjón sem endaði á Akureyri. Þau lögðu af stað frá Reykjavík. Þetta var langtímadraumur hjóna á brúðkaupsafmælinu og leiðsögumaðurinn vissi hvar ljósin voru líkleg út frá norðurljósaspá og eigin reynslu og hann uppfyllti drauminn. Þau borguðu uppsett verð, það vantaði ekki í því tilfelli, en þetta er ekki alveg í boði þegar maður fer af stað með 60 manns í 70 sæta rútu.

Samvinna í ferðaþjónustu skiptir máli, sagði ég. Það reynir á starfsfólk á ferðaskrifstofunum sem hannar ferðirnar og selur þær, leiðsögumenn, bílstjóra, kokka, þjóna, þernur og miðasölufólk. En svo ég einbeiti mér að leiðsögumönnum þurfum við að kunna það tungumál sem við leiðsegjum á, þurfum að kunna skil á jarðfræði, jurtum, dýralífi, sögu, menningu, fréttum, líðandi stund, tónlistinni, fótboltanum, landinu þaðan sem fólkið kemur, lífeyriskerfinu, þjóðsögum og bröndurum. Við erum spurð um lyf sem eru unnin úr hrauni, verð á fræjum, flekakenninguna, Sigur rós, Of Monsters and Men, Evrópusambandið, hersetu - ha, enginn her? - almenningssamgöngur, verð í samanburði við hitt og þetta, uppskriftir, mosann, hraunið, hita sjávar, flóð og fjöru, elsta tréð, hæsta fjallstind, aðgengi að netinu, læsi - Hvað gerir fólk í þessum afskekktu sveitum eiginlega? - Hvernig getið þið átt svona marga stórmeistara í skák? - Af hverju flutti Bobby Fischer hingað og af hverju tókuð þið við honum? - Hvar á ég að borða í kvöld? - Hvernig er heilbrigðiskerfið/skattkerfið/skólakerfið? - Hvar er eiginlega kreppan? - Á ég að gefa þjórfé? - Hvar er verslun sem selur Nikita-vörur?

Ef einhver veikist þurfum við að veita lágmarkshjúkrun, skilning og samúð. Í kvöldmatnum á hótelunum í hringferðunum útskýrum við hvað er í matnum. Í morgunmatnum svörum við spurningum um hvað er framundan þótt við höfum tíundað það á leiðinni í náttstað deginum áður. Fólk er í sumarfríi og tekur ekki eftir öllu. Það er ekki í prófi og dettur út á mismunandi stöðum. - Á ég að hafa sunddótið uppi við í dag? Gönguskóna? Hvernig verður veðrið? - Sum þjóðerni skilja ekkert nema sitt eigið tungumál, t.d. Ítalir og Spánverjar, og þá vill það fólk hafa leiðsögumanninn með í hestaferðinni, siglingunni, jöklaferðinni á kvöldin - eftir kvöldmatinn ef því er að skipta.

Vondir dagar eru ekki í boði. Við verðum alltaf að vera í góðu skapi, taka öllum spurningum fagnandi og ekki svara í (of) löngu eða fræðilegu máli nema endrum og eins. Það er ekki gott að verða andvaka því að þá erum við illa upplögð daginn eftir, við megum ekki sofa yfir okkur því að þá er allt í voða. Við förum ekki til læknis í vinnutímanum - nei, þá tökum við frídag í það - við útréttum ekki í matartímanum því að þá erum við kannski að skoða eggin á Djúpavogi eða bryggjuna á Höfn í Hornafirði, að tygja okkur í göngu upp að Svartafossi eða erum í sjoppunni í Vík með farþega sem langar í heita súpu í hádeginu en kemst ekki að í annarri röð en þeirri sem selur íspinnana.

Ókei, ég skal láta gott heita.

Ef þú ert ekki  leiðsögumaður er eðlilegt að þú hugsir: Af hverju hættirðu ekki í þessu starfi? Af hverju fórstu í leiðsögunám? Og jafnvel: Geturðu þetta yfirleitt allt saman, veistu það sem þú telur upp?

Auðvitað eru leiðsögumenn mistækir og sumir verða aldrei góðir þótt þeir fari í skólann. En á góðum dögum er þetta svo skemmtilegt af því að veðrið er gott, ferðamennirnir glaðværir og áhugasamir og maður sjálfur sérlega í essinu sínu. Maður fær að miðla því sem manni finnst skemmtilegt, heldur við tungumálinu, fer úr bænum, gengur í fallegu náttúrunni með áhugasömu, fróðleiksfúsu, vel gefnu fólki og kynnist heimi annarra.

En fyrir 1.512 krónur á tímann í hæsta flokki í dagvinnu eru samt takmörk fyrir því hvað maður nýtur skemmtilegu daganna. Þess vegna er hröð velta í stéttinni, þess vegna stoppar margt fólk í eina viku eða eitt sumar, þess vegna tapast reynsla úr stéttinni, þess vegna eru svo margur nýútskrifaður leiðsögumaður á ferðinni á hverju sumri þangað til veruleikinn glottir við honum - hann lifir ekki af þessum launum á ársgrundvelli.

Við erum næstum öll lausráðin, réttara sagt verkefnaráðin, og án þeirra réttinda sem fastráðnir starfsmenn hafa. Og það kostar okkur mörg hundruð þúsund að læra til þessa starfs, 760.000 hjá Endurmenntun Háskóla Íslands en eitthvað minna hjá Leiðsöguskóla Íslands sem er hýstur í MK. Starfsöryggið er ekkert, (næstum) enginn er fastráðinn, veikindaréttur enginn.

En hey, félagið semur bara um lágmarkslaun og öllum leiðsögumönnum er guðvelkomið að semja um hærra kaup - ef ferðaskrifstofan vill borga meira.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær grein

petrina ros (IP-tala skráð) 19.11.2013 kl. 10:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband