Meðvirkur leiðsögumaður

Sá leiðsögumaður, eða hvaða láglaunaþegi sem er, sem rukkar ekki unninn tíma af því að hann „nennir því ekki“ er meðvirkur. Af hverju nennir hann því ekki? Af því að atvinnuöryggið er lítið og sumir leiðsögumenn sem hafa sagt: „Ég var ekki búin/n í vinnunni fyrr en kl. 23 af því að ég átti að fara með farþegana í siglingu / út að borða / í göngutúr eða þurfti að sinna veikum/slösuðum farþega og fer fram á að fá tímann greiddan“ hafa kannski fengið tímann greiddan eftir eitthvert nöldur - en svo er ekki hringt meir.

Obbinn af leiðsögumönnum er lausráðinn/verkefnaráðinn og þótt hann standi sig vel er ef til vill gengið framhjá honum ef hann fer fram á að fá greidd laun fyrir raununninn tíma. Í hringferðum erum við ekki á bakvakt alla nóttina þótt sumt starfsfólk ferðaskrifstofa líti svo á að það eigi að geta náð í leiðsögumanninn sinn hvenær sem er.

Ég heyrði alls kyns sögur á félagsfundi Félags leiðsögumanna í kvöld og hallast að því að við séum ansi meðvirk. Ég er sjálf að gefast upp á þessari skemmtilegu vinnu og leyfi mér að gera talsverðar launakröfur ef einhver vill ráða mig í verkefni. Sum ferðaþjónustufyrirtæki hafa metnað fyrir hönd fyrirtækja sinna og ráða skólagengna og vana leiðsögumenn og borga sanngjarnt en sum reyna endalaust að koma sér hjá því. Ég veit um fyrirtæki sem sprakk á limminu eftir að hafa ráðið ómögulega manneskju af því að það vildi ekki borga það sem þurfti og manneskjan sem tók hringferðina að sér kunni ekki almennilega tungumálið og klikkaði á ýmsu smálegu sem varð - 10 fingur upp til guðs - til þess að erlenda ferðaskrifstofan fann sér annan samstarfsaðila á Íslandi.

Vonandi tekst leiðsögumönnum og SAF að ná þannig lendingu í kjaraviðræðunum að ekki flýi fleiri leiðsögumenn.

1.512 krónur í efsta dagvinnuflokki er alltof lágt kaup. Það þýðir 262.075 krónur í mánaðarlaun. Lágmarkslaun hjá Eflingu eru 211.941 krónur á mánuði og þá verður starfsmaðurinn að vera orðinn 18 ára. Leiðsögumenn hafa verið í eitt til eitt og hálft ár í leiðsögunámi, þurfa að kunna skil á ýmsu, tala tungumál og vera minnst 21 árs - og leiðsögumenn sem eru í efsta flokki eru alla jafna bæði eldri og reyndari en svo. Og lausráðnir með sveiflukennd verkefni. Okkur telst að auki til að upp undir 80% leiðsögumanna séu með háskólagráðu í einhverju fagi.

Jamm, við erum meðvirk að sætta okkur við eina einustu klukkustund á 1.512 krónur á tímann, að ég tali ekki um tímana sem við sinnum farþegum án þess að fá greidda eina krónu. Og lausnin er ekki að þessi eða hinn leiðsögumaðurinn hætti, túristarnir halda áfram að koma og hver á að sinna þeim og skemmta ef allir forða sér bara úr stéttinni? 

Spurningin sem ég spyr mig er: Hvað er ásættanlegt?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband