,,Hann gekk að minnsta kosti aldrei"

Ég var að klára 10 ára gamla bók eftir Haruki Murakami sem kom út á íslensku í fyrra. Bóksalar voru ánægðir með hana sem þýtt skáldverk en mér var bent á hana sem reynslusögu langhlaupara. Hún er sléttar 200 síður í litlu broti og mér fannst hún svo sem fjórðungi of löng. Kannski er það táknrænt því að höfundurinn er skáldsagnahöfundur og langhlaupari sem lætur viljandi reyna á þolið hjá sjálfum sér. Vissulega voru forvitnilegar uppgötvanir sem hann gerði sem áhugahlaupari. Ég læt mér detta í hug að hlaupa mitt fyrsta heila maraþon eftir nokkur hálf og veit að ég er kannski að reisa mér hurðarás um öxl. Vöðvarnir eru verkfæri sem maður verður að beygja undir vilja sinn - minn!

Höfundurinn var tæplega sextugur á ritunartíma bókarinnar og hafði þá hlaupið ríflega 20 maraþon og í hvert skipti virtist hann verða undrandi á því að það væri erfitt, það krefðist úthalds og skýrrar hugsunar. Er þetta leikaraskapur hjá honum eða er hann svona einfaldur? Vonandi stílbragð, ég er ekki nógu vel lesin í Murakami þótt hann sé langhlaupinn höfundur.

Og nú veit ég að það er ekki sjálfsagt að ég geti klárað heilt maraþon í ágúst 2017. En það eru svo sem ekki nýjar fréttir ... en ég get reynt að setja mér sama markmið og hann: að skokka eða hlaupa alla leiðina.


Grútskýring

Nei, ég hugsaði það ekki upp sjálf en djö hvað tungumálið er undursamlega frjótt og sveigjanlegt. Eftir hrútskýringu sem allir skilja núna er komið orðið grútskýring sem hlýtur að vera andheiti við raunverulega útskýringu, skýring sem gengur ekki upp, skýring sem enginn trúir á, skýring sem er bara grútur ...


Hrútskýring

Það sagði sig næstum sjálft að hrútskýring yrði valið sem orð ársins 2016, svo ótrúlega snjallt að manni finnst einmitt, eins og málfarsráðunautur sagði, það alltaf hafa verið til.


Flugeldasala + björgunarsveitir

Björgunarsveitirnar voru valdar maður ársins á Rás 2. Mér finnst það undarlegt val þar sem margt fólk er í björgunarsveitunum. Hins vegar vinna björgunarsveitirnar óeigingjarnt og dýrmætt starf. Mér skilst að þær fjármagni sig aðallega með flugeldasölu og nú hefur ár eftir ár fólk argað yfir því að aðrir vilji líka selja flugelda.

Ég veit ekki hvað flugeldar kosta, hvorki hjá björgunarsveitunum né öðrum. Er það sama verð fyrir sömu vöru? Þá skil ég alls ekki af hverju fólk verslar ekki við björgunarsveitirnar. Ef það munar hins vegar t.d. 20% og hleypur á tugum þúsunda hjá áhugasömum um flugelda er skiljanlegt að fólk horfi í budduna.

Ég spyr: Er ekki tímabært að huga að annarri fjáröflun fyrir björgunarsveitirnar? Er endilega hollt og heilbrigt að sprengja svona mikið á hverju ári?

Slökkviliðsmenn byrjuðu líka sem sjálfboðaliðar en eru nú launamenn, sem betur fer. Er hugsanlegt að það þurfi að nálgast flugeldasölu, björgunarsveitir og lífsbjargir á annan hátt en með rifrildi og hástöfum á hverju ári?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband