Extróvertinn lifir

Í þá gömlu góðu daga þegar ég var í háskólanámi fór ég einu sinni í vitlausa stofu. Ja, sennilega oftar, en eitt skipti er mér minnisstætt. Ég var að byrja annað árið í íslensku og átti eftir áfanga frá fyrsta ári, áfanga sem vinir mínir höfðu tekið árið á undan. Ég mætti í Árnagarð og fór beina leið í stofu 201, var mætt skömmu áður en tíminn átti að byrja. Ég leit aðeins í kringum mig, furðaði mig á því að þekkja ekki kjaft þarnan inni en hugsaði að „allir“ hefðu greinilega klárað áfangann árið áður.

En svo mætti kennarinn og ég þekkti hann ekki heldur. Það stóðst ekki enda vissi ég vel hver kennarinn var þannig að ég spurði hátt og snjallt: Er þetta ekki Íslenskt nútímamál? (Íslenskt, ekki íslenskt, af því að þetta var heitið á áfanganum.) Nei, sagði kennarinn, sem ég kannaðist ekkert við, þetta eru Sálfræðileg próf (S, þið vitið). Ég hugsaði að atarna væri skrýtinn kennari sem byrjaði fyrsta tíma á prófi, snautaði á fætur, las mér betur til og fann áfangann, kennarann og slatta af kunnuglegum nemendum í stofu 301, á hæðinni fyrir ofan.

Svo leið einhver tími, ég gleymdi þessu auðvitað en mörgum árum síðar kynntist ég sálfræðinema sem hafði verið í þessum tíma. Sálfræðingurinn, ekki lengur nemi, sagði mér að þegar ég hefði verið farin út hefði kennarinn beðið nemendur sína að leggja þetta á minnið, ég hefði verið skýrt dæmi um extróvert. Alveg útvortis.

Gaman að segja frá því að ég er enn að heyra þetta. Og ég vil bæta því við að þótt ég verði endrum og eins dálítið leið á málgefni minni leiðist mér meira að umgangast fólk sem talar of lítið. Ég vil heilbrigða samkeppni!


Bloggfærslur 2. desember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband