Fljúgum burt

Ég veit að Reykjavíkurflugvöllur er ekki og verður ekki mál málanna í kosningabaráttunni í vor en ég er orðin svo óskaplega þreytt á staglinu um öryggissjónarmið. „Ef þú vilt að flugvöllurinn fari ertu um leið að segja að þér sé sama um líf sjúklinga og slasaðra.“

Nei, mér er ekki sama um líf fólks. Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni er bara engin forsenda fyrir lengra lífi eða betri umönnun fólks sem veikist eða slasast. Læknar eru það, lækningatæki, aðstaða og aðbúnaður. Það er mikilvægt að fólk komist til læknis en læknirinn þarf ekki að vera við Hringbraut. Í ljósi atvinnuástandsins á Suðurnesjum þætti mér ekkert úr vegi að fleiri atvinnutækifæri litu þar dagsins ljós. Mér skilst að sjúkrahúsið sé vel búið og því skyldi ekki vera hægt að byggja upp úrvalsaðstöðu þar ef innanlandsflug yrði fært til Keflavíkur? Það er samt ekki eini möguleikinn. Það væri líka hægt að dubba upp á Borgarspítalann. Þyrlur eru vel til þess fallnar að lenda á þökum spítala.

Og ég held að það sé algjörlega tímaspursmál hvenær flugvél missir flugið ofan í þéttustu byggðina í að- eða fráflugi.

Kynslóðirnar sem eru að fá kosningarrétt í Reykjavík munu í hrönnum greiða atkvæði gegn flugvellinum á besta byggingarlandinu í höfuðborginni. Þess vegna er líka tímaspursmál hvenær hann verður fluttur þangað sem hann á betur heima. 


Bloggfærslur 2. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband