Moska eða kirkja

Ég er hvorki sérlega trúrækin né kirkjurækin. Ég finn ekki lögin þar sem segir að öllum trúfélögum beri að gera jafn hátt undir höfði með (meðal annars) úthlutun ókeypis lóða undir bænahúsin sín. Það hefur samt mikið verið í umræðunni þannig að ég geng út frá að það sé rétt.

Þá má ekki mismuna.

Annað hvort eru þá fundnar lóðir handa þeim trúfélögum (og jafnvel lífsskoðunarfélögum) sem óska þess eða lögunum er breytt. Það er úrlausnarefni þingsins. 

Í umræðunni hef ég hvergi séð gagnrýni á fjölmargar kirkjubyggingar og bjölluspilið þaðan á sunnudagsmorgnum. Ég veit hins vegar að það er ekki öllum að skapi. Einhver íhaldssamasta manneskja sem ég þekki segir: Nú þarf að fara að gera við kirkjubyggingu í hverfinu mínu fyrir offjár (og lítil aðsókn), væri ekki nær að samnýta einhverjar af þessum mörgu kirkjum á þessum litla bletti?

Í Grindavík var kirkju breytt í leikskóla. Er það ekki góð nýting?

Þegar ég var á ferð um Írland fyrir nokkrum árum sá ég kirkju sem var búið að breyta í farfuglaheimili. Þar eru margir kaþólikkar. Eða voru. Skriftastólnum hafði verið breytt í símaklefa. Já, þetta var víst fyrir daga farsímanna. Ég er ánægð með umskiptin.

Mér finnst tímabært að þétta byggðina í kringum kirkjurnar. Að auki legg ég til aðskilnað ríkis og kirkju.


Bloggfærslur 30. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband