Vonbrigði með HM

Eftir að þýska liðið vann það brasilíska 7-1 (sem ég sá ekki) og eftir að hollenska liðið vann það brasilíska 3-0 (sem ég sá ekki) gerði ég mér mjög eindregnar vonir um að Argentína ynni Þýskaland í úrslitaleiknum. Ég sá rangstöðumark Argentínu áðan (og sýndist það vera réttstöðumark) og fagnaði svo ógurlega að ég heyrði ekki sjálf þegar það var dæmt af. Það varð að stafa það ofan í mig þegar staðan breyttist ekkert á skjánum.

Mér fannst svo gott á Brasilíu að annað lið úr sömu heimsálfu ynni keppnina þegar það brasilíska endaði í 4. sæti. Fruss, 4. sæti. Ömurlegt. Lið í 4. sæti tapar tapleiknum.

Nei, frómt frá sagt er mér slétt sama hvaða landslið vinnur og tapar í keppninni. Það er bara rosalega auðvelt að gera sér upp skoðanir á þessu hitamáli. Ég gæti meira að segja grátið smá eins og brasilísku börnin ef ég fengi beiðni um það, ég er svolítið súr í augunum eftir miklar fjallgöngur og þráláta súrefnisinntöku undanfarna daga.

Búhú. Þýskaland vann eins og flestir spáðu.


Bloggfærslur 13. júlí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband