,,Engin smálán lengur í Króatíu"

Aldrei fór það svo að Mogginn næði ekki augum mínum á ný. Hann er borinn til mín endrum og eins, kannski einu sinni í mánuði, og nú um helgina bárust auglýsingavafin helgarblöðin inn um lúguna. Fyrir utan ágæta úttekt á nýárssundinu í Nauthólsvíkinni las ég grein um smálán. Það er margt sem maður vildi breyta í hverju samfélagi en það tvennt sem mig langar/langaði allra helst að breyta er annars vegar ætluð líffæragjöf, og nú er búið að auðvelda fólki það, og hins vegar smálánafyrirgreiðsla sem kemur þráðbeint í bakið á lánþegum. Kannski er þessi áhugi minn undarlegur því að ég veit ekki til þess að ég þekki fólk sem hefur þurft á líffærum að halda og ekki heldur tekið skyndilán með okurvöxtum (þótt bankarnir séu sannarlega ekki hvítskúraðir).

Einhverra hluta vegna er enn ekki orðið ólöglegt að rukka okurvexti þótt ýmsir hafi þóst vilja breyta því á síðustu fimm árum eða svo. Fimm árum! Það er langur tími í lífi unga fólksins sem ég held að sé útsettast fyrir þessari starfsemi. Í frumvarpi til laga um neytendalán 2012-2013 er langur texti um smálán sem er horfinn út úr samþykktum lögum um neytendalán nr. 33/2013. Vissulega eru athugasemdir í frumvörpum ekki höfð með í lögunum sjálfum en gilda einhver lög um smálán? Er eitthvert lagaákvæði með eftirfarandi tilvitnun?

... smálánafyrirtæki sem í dag innheimtir 11.700 kr. í kostnað vegna 60.000 kr. láns til tveggja vikna verður aðeins heimilt að innheimta 1.101 kr. vegna sams konar láns. Með nokkurri einföldun má tala um nafnvexti í stað árlegrar hlutfallstölu kostnaðar og þá má segja miðað við fyrrgreint dæmi að nafnvextir séu að lækka úr 468% í 44,05%.

Í alvöru?

Ég leita og finn tæplega tveggja ára frétt úr Vísi um að það sé ólöglegt að rukka okurvexti - en af hverju er þá verið að birta þessa grein í Mogganum?

Má eða má ekki rukka 468% vexti af skyndilánum?


Bloggfærslur 4. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband