900 kr. ofan í laugina - hvað með Nauthólsvíkina?

Þegar ég heyrði af hækkuðu verði á stökum sundferðum i Reykjavík varð mér ekki um, já, mér blöskraði ekki og hélt rétt til að byrja með að ég væri ein um þá skoðun. 38% hækkun er mikil hækkun og fólki verður eðlilega um. Á samfélagsmiðlunum sá ég þó ýmsa sem eru sömu skoðunar og ég. Í útvarpinu voru hins vegar fleiri að býsnast, þar á meðal þáttastjórnendur.

En ég er að velta fyrir mér hvort ég hafi skipt um skoðun. Ég man nefnilega að í ársbyrjun 2007 var verðið hækkað (man ekki hversu mikið) með þeim rökum að útlendingum þætti verðið hlægilega lágt. Þá var ég talsvert mikið starfandi í ferðaþjónustunni og sá og heyrði að það gekk langar leiðir fram af útlendingunum hvað vínglasið, sem er sambærilegt milli landa, kostaði mikið. Menn þurfa alltaf að vanda rökin.

Árum saman átti ég árskort í sund. Nú hefur íþróttaiðkun mín breyst þannig að ég á alltaf bara klippikort, afsláttarkort þar sem ferðin kostar 390 kr. Ég á líka svoleiðis kort í Mosfellsbæ og finnst dálitið sársaukafullt að þeir miðar geta runnið út hjá mér því að þeir fyrnast á tveimur árum. Ég er minna þar á ferðinni en ég reiknaði með þegar ég keypti kortið. Ó, og ég vildi óska þess að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu væru færri ...

Fyrstu viðbrögð mín þegar ég heyrði af hækkuninni í sund í Reykjavík voru að það væri verið að umbuna þeim sem kaupa kort, gefa þeim meiri afslátt. (Mér finnst hins vegar út í bláinn að kalla þetta fyrsta lið í tiltekt í peningamálum í borginni, hvernig sem það var orðað.) 

Ég er búin að vaða úr einu í annað, ég veit, þannig að nú hnýti ég lausu endana með því að segja að mér finnst sanngjarnt að stakar ferðir séu hlutfallslega mun dýrari en þegar maður kaupir kort. Mætti ekki meira að segja hafa dýrara í Laugardalslaugina en hinar laugarnar? Og að lokum finnst mér að það ætti að rukka fyrir aðstöðuna í Nauthólsvík Á SUMRIN frekar en á veturna en selja/leigja fastagestum armböndin á mjög hagstæðu verði. Það er eðlilegt að lausatraffíkin borgi hlutfallslega meira. Og hafa sturturnar heitar ...


Bloggfærslur 10. október 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband