Stolin ritgerð

Í mínu fyrra lífi kenndi ég ritgerðasmíð, textameðferð, heimildanotkun og tilvísanir, að vísu ekki í háskóla. Þegar ég hætti framhaldsskólakennslu var internetið rétt að byrja að ryðja sér til rúms þannig að bíræfnustu nemendur mínir afrituðu texta úr bókum, jafnvel fræðibókum sem við notuðum í tímum, án þess að geta heimildar. Það heitir ritstuldur og ég brást ókvæða við þegar ég stóð nemendur að honum. Ég veit auðvitað bara um dæmin sem ég uppgötvaði en þegar maður þekkir nemendur sína veit maður nokk til hvers þeir eru líklegir, maður þekkir orðanotkun og áferð texta úr prófum.

Því er síður til að dreifa þegar háskólakennarar taka að sér að leiðbeina útskriftarnemendum. Engu að síður verð ég að lýsa undrun minni ef rétt er farið með upplýsingar um nemandann sem skáldaði viðtöl við fólk í ferðaþjónustu. Ritgerðin hefur verið fjarlægð úr Skemmunni enda eitthvert ferli farið í gang, vonum seinna ef eitthvað er að marka fréttaflutning.

Ef ég hefði verið beðin að prófarkalesa ritgerðina hefði ég hnotið um misræmið í orðalagi rannsóknarspurningarinnar fremst og aftast. Ég sver það. Hvernig viðskiptafræðingur verður maður sem vandar sig ekki við neitt í lokaritgerðinni sinni? Hvað má segja um deild í HÍ sem lætur svona líðast? Hversu mikil brögð eru að svona nokkru? Hversu mörg dæmi uppgötvast ekki?

Ég er dálítið bit þótt ég geti tekið undir þau orð rektors að ekki megi dæma heila stofnun þótt einn nemandi af 14.000 gerist brotlegur. Þetta er samt spurning um verklag ...


Bloggfærslur 7. júní 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband