Hvar er Sogamýri?

Hér kemur játning. Ég hélt að Sogamýri væri á móti Kringlunni, lítill afleggjari við Safamýri. Sú mýri heitir hins vegar Starmýri.

Í gær ætlaði ég í leiðangur til að leita að moskulóðinni en hafði rænu á að fletta upp í símaskránni áður en ég lét vaða út í óvissuna (sem ég var samt frekar viss um).

Þá er þessi játning frá.

Fór moskubyggingin ekki í grenndarkynningu? Ég veit það ekki. Hlýtur hún ekki að hafa gert það? Að minnsta kosti man ég að Dagur sagði í leiðtogaþættinum daginn fyrir kjördag að engar athugasemdir hefðu borist.

Er þetta byggingarmál/skipulagsmál ekki búið að velkjast í stjórnkerfinu árum saman? Hafa nágrönnum og öðrum áhugasömum þá ekki gefist tækifæri til að tjá skoðanir sínar skýrt og skorinort? Ég veit það ekki.

Þegar ég skoðaði Sogamýrina á kortinu í gær sá ég að Kirkja Jesú Krists er handan við Miklubraut, í Rauðagerði, reyndar bara 219 fermetrar. Það er mormónakirkja sem ég held að hafi aldrei verið fyrir neinum.

Langholtskirkja er við enda Sólheima. Er hún fyrir? 

Kristniboðskirkjan Omega er við Grensásveg, 103 fermetra samkomusalur trúfélags.

Grensáskirkja er við Háaleitisbraut 66, 370 fermetra safnaðarheimili samkvæmt fasteignamati.

Kirkja sjöunda dags aðventista er í Suðurhlíðum, rúmlega 1.350 fermetrar samkvæmt fasteignamati.

Ég hafði ekki áttað mig á öllum þessum guðshúsum allt í kringum Sogamýrina. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ dásamlega

Moskubyggingin fór ekki í grenndarkynningu. Grenndarkynning á sér einungis stað þegar fara á í framkvæmdir á reitum þar sem ekkert deiliskipulag er í gildi. Núna eru "flest" hverfi borgarinnar deiliskipulögð og þeir sem framkvæma halda sig innan þess sem deiliskipulagið heimilar. Þá þarf enga grenndarkynningu vegna þess að deiliskipulagið hefur farið í gegn um kynningar og samráðsferli.

Upplýsingar um deiliskipulag í Sogamýri má finna hér http://lukrskjol.reykjavik.is/skipulagssja/upplysingar/DSK_PDF/Sogamyri_04_07_2013.pdf

Ég held að lóðin sem var úthlutað fyrir mosku sé merkt S3. Á þessu svæði frá Suðurlandsbraut 70 og að enda reitins eru þrjár lóðir. Moskan á að koma á eina af þeim. Hvað kemur á hinum veit ég ekki.

Þegar Dagur talar um að engar athugsemdir hafi borist, þá á hann örugglega við þegar deiliskipulagið var auglýst.

Það er algengur misskilningur að allar framkvæmdir þurfi að grenndarkynna - til að mynda þurfa íbúar í minni götu ekki að grenndarkynna þegar þeir hækka húsin sín af því að það er deiliskipulag í gildi.

Það sama sýnist mér ekki við um þína götu því þar er ekkert deiliskipulag í gildi. Ef þú færir í að byggja við húsið þitt eða ofan á það þá þyrfti að grenndarkynna þá framkvæmd.

Með kveðju frá skipulagsfræðingnum sem býr að ríkulegu trúarumhverfi í Sundunum og missti af því þegar þú hjólaðir fram hjá.

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 10.6.2014 kl. 14:25

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Þetta var upplýsandi. Lóðirnar eru 1.600 fermetrar og leyfilegt byggingarmagn 800 fermetrar, væntanlega á tveimur hæðum. Ef S3 er um að ræða lóðina gegnt Steinahlíð.

Ég kem einhvern tímann hjólandi í E79 og tek chiafræjakúlur með mér þótt ég fái ekki kaffi, bara te.

Berglind Steinsdóttir, 10.6.2014 kl. 19:09

3 identicon

:o)

Komdu fagnandi og á góðum degi helli ég örugglega upp á kaffi fyrir þig, nema þú viljir heldur te.

Med venlig hilsen

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 12.6.2014 kl. 21:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband