Ferðasumarið ógurlega 2014

Frá 2002 til 2013 eyddi ég stórum hluta sumarleyfis frá annarri vinnu (nei, ég er ekki kennari) í að vera leiðsögumaður. Vá, hvað það var oft gaman. Veðrið hefur verið blítt obbann af öldinni (misminni?), ferðamennirnir áhugasamir og vingjarnlegir, samstarfsfólkið til fyrirmyndar, vinnuveitendur líka, allt staðið eins og stafur á bók og náttúran í miklu stuði.

Ókei, ég ýki eitthvað.

Í fyrrasumar rigndi á Suðurlandi í öllum ferðunum mínum (misminni?) og til viðbótar upplifði ég lélegasta skipulagið á allri minni löngu ævi. Ég gat ekki staðið við það sem kúnnanum hafði verið lofað, veitingastaðir í hádeginu voru yfirfullir, bílstjórarnir töldu mínúturnar og hótel hliðruðu ekki til um korter fyrir morgunmatinn svo hægt væri að dreifa álaginu í ferðinni. Farþegarnir komu snöktandi í náttstað. Kannski var það rigning sem lak úr augunum á þeim en mér sýndust tár á hvörmum.

Það reyndi á leiðsögumanninn og nú bar svo við að leiðsögumaðurinn ég hafði ekki lengur áhuga á að leggja sig fram fyrir 1.500 kr. á tímann. 

Samningar voru lausir í lok nóvember. Við flutum með stóru félögunum í jólasamningunum. Leiðsögumenn felldu þá og samið var upp á nýtt upp á túkall í viðbót.

Launin eru núna 272.000 fyrir heilan mánuð í dagvinnu. Ekkert atvinnuöryggi. Ekkert orlof. Hvernig á maður að skreppa til tannlæknis þegar maður er við Gullfoss, Dettifoss, Svartafoss eða Fagrafoss? Maður gerir það ekki. Við höfum ekki sjálfsögð réttindi sem launþegar hafa barist fyrir og sem betur fer uppskorið.

Núna hef ég sagt nei við öllum ferðum sem mér eru boðnar. Tími minn í ferðaþjónustunni kann að vera liðinn og ég er ekki einu sinni sorrí.

Mig grunar að svona sé komið fyrir fleiri leiðsögumönnum/bílstjórum -- og nú stendur enn einu sinni stærsta ferðasumarið á þröskuldinum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband