Verkó

Ekki man ég allt það forvitnilega sem ég heyrði í fróðleiksgöngu Borgarbókasafnsins um verkamannabústaðina í gærkvöldi. Þær HelgaDrífa og Kristín höfðu frá mörgu að segja og ekki bara einhverju sem þær höfðu lesið sér til um, heldur bjuggu þær yfir reynslusögum og eigin minningum um hverfið.

Ég vissi ekki að verkamannabústaðirnir hefðu verið byggðir á fjórða áratugnum þótt ég hefði sjálfsagt giskað á það. Ég þóttist vita að áherslan væri á hið sameiginlega, sbr. garðinn á milli húsalengjanna, en ég vissi ekki að þetta hefði verið munaður þess tíma. Íbúarnir höfðu rafmagnseldavélar (og gas líka til öryggis), fólk kom úr öðrum hverfum til að fá að fara í bað og í öðrum endanum er enn kolakjallari sem vilji stendur til að halda við þótt einhverjir utan hverfis vildu helst moka kjallarann fullan og læsa svo allt inni.

Ég vissi ekki að Gvendur Jaki hefði búið þarna, ég vissi ekki um verslanirnar við Bræðraborgarstíg 47 og ég hafði sannarlega ekki hugmynd um að Héðinn Valdimarsson, formaður Dagsbrúnar, hefði flutt fyrstu 1. maí-ræðuna sína á svölunum þarna, þar sem kolakjallarinn er undir, þar sem Dagsbrúnarhjartað slær. Ég vissi ekki að ljósmynd sem tekin hefði verið af Héðni á svölunum væri fyrirmynd styttunnar við Hringbraut -- þar sem hann er einmitt lappalaus.

Þessum eina og hálfa klukkutíma fannst mér vel varið í göngu með góðu fólki.

 Svalirnar sem Héðinn Valdimarsson stóð á

Göngunni lauk ekki fyrr en aðeins var farið að rökkva og þess vegna er dimmt yfir myndinni af reykháfnum, þessum alhæsta á þessum slóðum. Þó sjást glöggt svalirnar sem Héðinn stóð á þegar hann flutti ræðu 1. maí [hvaða ár?] en ég finn engan veginn hina frægu mynd sem á að hafa verið tekin við það tækifæri. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband