Bjarni Ármanns gæti einn og sér hækkað skattleysismörkin um 7.000 kr.

Ég er svo mikill talnaspekingur að ég sé glögglega að ef fráfarandi forstjóri Glitnis gæfi eftir kaupréttina sína og starfslokalaunin, samtals tæpa 7 milljarða eins og sagan hermir, væri hægt að hækka skattleysismörkin úr 90 þúsund kr. í 97 þúsund. Menn hafa keppst við að reikna það út að hver 10 þúsund kr. hækkun skattleysismarka nemi um 8-10 milljarða kostnaði fyrir ríkissjóð. Því þykir mér tíðindum sæta að einn maður geti gengið út úr einu fyrirtæki með þessa fjárhæð, 6-7 milljarða. Og hvaðan er hún aftur tekin? Jú, alveg rétt, HAGNAÐURINN VERÐUR TIL ERLENDIS. Undarlegt að þjónustugjöldin og vaxtamunurinn þurfi að vera svona mikil blóðtaka fyrir launamenn ef allur hagnaður bankans verður hvort eð er til ERLENDIS. 

Er ekki vitlaust gefið?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vinan

Þó hann hafi kauprétt upp á sjö milljarða, þá er það ekki það sem stendur eftir í vasa hans.  Eða viltu að hann standi eftir með skuldirnar sem verða til þegar hann nýtir samningana ca. 6,2 milljarða? Það verða ekki NEMA ca. 800 milljónir sem sitja eftir í vasa hans, þannig að þessi ótrúlegi reikningur þinn bara stenst ekki.  Lágmark að hafa þó ekki nema lágmarks kunnáttu á hlutunum áður en maður opinberar ...kunnáttu sína.

Gunnar (IP-tala skráð) 3.5.2007 kl. 00:04

2 identicon

Þetta myndi væntanlega bara duga í eitt ár. Hverja ætti að notast við næstu árin?

LeKjart (IP-tala skráð) 3.5.2007 kl. 00:21

3 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Og er þá kaupréttur Lárusar Weldings upp á 4 milljarða líka talnaleikur?

Berglind Steinsdóttir, 3.5.2007 kl. 00:56

4 Smámynd: Friðjón R. Friðjónsson

ARGH. Fréttin er :

Bjarni Ármannsson fráfarandi forstjóri Glitnis hefur selt alla hluti sína í bankanum fyrir 6,8 milljarða króna, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni.

Hann greiddi /greiðir líka fyrir þá þannig að hann er ekki að fá 7 milljarða í hagnað.

Að sama skapi er Lárus að kaupa fyrir 4 milljarða, hann er ekki að fá gefins hlut í Glitni fyrir 4 milljarða í sumargjöf! Til að gera þetta einfalt þá er Lárus að gera samning líkt og Bjarni gerði þannig að hann þarf að greiða þegar hann selur. Mismunurinn verður hagnaður stjórnandans og hvati hans til að auka verðmæti bankans.

Bjarni er að fá verulega góðan starfslokasamning en hvað hefur verðmæti Glitnis aukist á þessum 10 árum? Gengið á bréfum í Glitni hefur aukist um 689% sl. 10 ár. og 260% frá árinu 2000 þegar Íslandsbanki og FBA sameinuðust úr 7,5 kr. í 27 kr fyrir hlutinn. Eitthvað gerði maðurinn rétt.

Þetta er kolröng nálgun hjá þér en virkar örugglega vel ofaní VG-ista og annað öfundarlið.

Friðjón R. Friðjónsson, 3.5.2007 kl. 01:26

5 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

ARG, sjálfir, ég hélt að mér hefði tekist svo vel að sýna fram á afstæði talnanna.

En það er með engri sanngirni hægt að segja að menn kaupi eitthvað fyrir 4 milljarða. Í alvörunni, Friðjón, er nýráðinn bankastjóri bara ekki að lofa að sinna vinnunni sinni vel og fá fyrirfram (í sumargjöf ef þú vilt kalla það svo) kauprétt sem er mikils virði? Af því að Glitnir (eða Þorsteinn) hefur trú á því að hann skili öðru eins og ríflega það í kassann?

Og ég veit vel að hluti af þessari miklu veltu verður eftir sem skatttekjur.

Og mér finnst Bjarni hinn geðugasti að sjá og vafalaust nýtir hann peninginn sem hann keypti í eitthvað göfugt og þjóðhagkvæmt. Hann er á móti launaleynd.

Ég held að þú sért að nokkru leyti að gera mér upp skoðanir, Friðjón, en ég les oft síðuna þína og er núna mjög upp með mér að þú nennir að hafa skoðun á skoðun minni. Þú getur kannski bætt um betur og útskýrt fyrir mér hvernig samkeppni bankanna virkar því að hún á að koma kúnnanum vel. Hitt skil ég nú þegar, að Bjarni jók hagnað Glitnis.

Berglind Steinsdóttir, 3.5.2007 kl. 07:56

6 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Til hamingju Berglind. Þú ert orðin svo fræg að Egill Helga er farinn að vitna í þig: http://www.visir.is/article/20070502/SKODANIR02/70502128/-1/SKODANIR

Ég held þú hljótir að vera að nálgast toppinn. Ekki hlusta á þessa leiðindarpúka hér að ofan.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 3.5.2007 kl. 19:49

7 Smámynd: Eiríkur Ingvar Ingvarsson

Til hamingju Bjarni.

Ég óska Bjarna til hamingju með samninginn.  Ég þakka honum líka fyrir að hafa gert hundruði hluthafa ríka. Ég þakka honum líka fyrir að hafa ávaxtað pund lífeyrissjóði verkafólks með glæsilegum hætti og stuðlað þar með að meira öryggi þeim til handa. Það er ekkert til sem heitir að það sé vitlust gefið. það hafa allir tækifæri. Ég trúi því að þú hafir getað verið með í uppbyggingu Glitnirs. Þú valdir augljóslega að vera öfundar rödd og kvarta yfir spilunum.

Að sjálfsögðu eru lán á bakvið svona fjárfestingu. Það er ljóst, þetta er ekki eign

Vel gert Bjarni

Eiríkur Ingvar Ingvarsson, 3.5.2007 kl. 21:27

8 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Nohh, upphefð mín er að verða ómæld.

Úr því að hér skrifa ókunnugir menn og vilja blanda persónu minni inn í afstöðu mína til fjármagns er mér ljúft að lýsa því yfir að ég hef það fjandi fínt og er sjálf moldrík, eignast pening í hverjum einasta mánuði og á meira að segja aggalítinn hlut í Kaupþingi sem hét Búnaðarbankinn þegar ég keypti. Ég hef aldrei farið á fit, aldrei borgað yfirdráttarvexti, nota debetkortið mitt í hraðbankanum og skulda ekki nema lítilræði. Ég fæddist með silfurskeið í munninum, fordekruð af foreldrum mínum og fer í gegnum lífið í bómull. Og ekki öfunda ég Bjarna Ármannsson af öðru en því að hann getur hlaupið maraþon á góðum tíma í maraþonhlaupi Reykjavíkur og Glitnis. Ég skreiddist 10 km síðast og ætla að gera aftur í ár.

Það bara skiptir ekki neinu máli hér. Persóna mín er hégómi í lífi annarra en mín og minna.

Ég fer ekki ofan af því að ég get vel skilið tölur, ég hef hins vegar hvorki lesið ársskýrslu Glitnis (þó fest á henni hönd) né aðrar skýrslur bankans. Þess vegna mynda ég mér skoðun á því sem fjölmiðlar segja mér. Og ég man alveg að mörgum varð um þegar Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson fengu greidda út - og í annað skipti stóð til að greiða þeim út - kaupréttarsamninga sem hlupu á tugum milljóna.

Ég skal ítreka hvað ég taldi mig segja: Sá mæti maður Bjarni Ármannsson gerði hagstæðan samning fyrir sjálfan sig í ljósi þess hvað hann vann Glitni vel, eigendum bankans og hluthöfum. Talan sem rætt hefur verið um - og ekki hrakin - slagar upp í það að hækka skattleysismörk allra launamanna um helling. Þetta eru undarleg hlutföll, og þarf enga öfundarmenn til að segja það.

Ef ég ætti eina snemmborna jónsmessunæturósk myndi ég splæsa henni í að vita hvað Agli Helgasyni finnst sjálfum um málið. Það kom nefnilega ekki fram.

Berglind Steinsdóttir, 3.5.2007 kl. 22:28

9 identicon

Jei.

Að setja Berglist í öfundarflokk er jafn fjarstæðukennt og að hún prjóni peysu. Það er gott að fólk græðir og vissulega græða sumir meira en aðrir. Það er bara gott mál. Hitt er leiðinlegra þegar fólk hefur vart efni á bandi í peysu. Í því dæmi er BÁ hinsvegar eplið og bandið appelsínan.  

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 4.5.2007 kl. 09:32

10 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Það er alveg ótrúlegt hvað hægt er að leika með tölur fram og aftur. Þetta hættir einhvern veginn að vera raunverulegt þegar gróðinn er orðinn svona gígantískur. En er það ekki fáránlegt að einum manni séu skömmtuð þessi ósköp meðan ekki eru til peningar til að hýsa gamalt og veikt fólk við mannsæmandi aðstæður.

Steingerður Steinarsdóttir, 4.5.2007 kl. 15:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband