Leiðsögn og ferðaþjónusta

Ég er ekki fróðasti og áttvísasti leiðsögumaðurinn. Ég veit það og þykist ekki neitt. En ég er alltaf glaður, þjónustulundaður og bóngóður leiðsögumaður sem veit helling og kem því ágætlega frá mér. Ég sat aldrei inni í rútu og sendi farþegana eina í göngu. Ég fór alltaf með bak við Seljalandsfoss. Ég gekk alltaf með niður að Dettifossi. Rigning eða sól, það skipti engu máli, ég gekk alltaf með niður Almannagjá. Eða upp. 

Mér fannst aldrei nein spurning heimskuleg. Ég sýndi alltaf áhuga þótt farþeginn segði mér sömu reynslusöguna þrisvar sinnum. Ef ég vissi ekki svarið reyndi ég að komast að því.

Ég hætti sem leiðsögumaður árið 2013. Mér finnst enn gaman að umgangast fólk, segja frá, hlusta, leiða fólk um svæði, vara það við hættum, sjá birtuna, finna vindinn á vanganum -- allt við leiðsögn finnst mér skemmtilegt nema launin og lélegu innviðirnir. Ástæðan fyrir því að ég lét gott heita árið 2013 var veðrið. Djók! Ástæðurnar voru þessar tvær sem ég nefndi, innviðirnir sprungnir og ég sá fram á að launin yrðu ekki ásættanleg í bráð.

Ég rifja þetta upp núna enn einu sinni vegna þess að við sjáum fram á enn fleiri ferðamenn í sumar og enn meiri vandkvæði við að manna allar stöður. Ef einhver alvörustefnumótun hefði verið unnin í ferðaþjónustunni -- og launin hækkuð upp í eitthvað samkeppnishæft -- væri ekkert vandamál að manna allt árið. Okkur finnst mörgum starfið skemmtilegt en alvöruláglaunastefna, alvörumetnaðarleysi í uppbyggingu og stutt alvöruvertíð rær allt í sömu átt.

Huggun mín er að ég get enn gengið um þær slóðir sem erlendir ferðamenn sækja ekki mikið í.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband