Haghafar - aftur

Ég ætlaði að fara að skrifa pistil um vondu tryggingafélögin en fannst ég vera nýbúin að því og skoðaði síðustu færslurnar mínar. Já, nei, ég bloggaði um arðgreiðslur úr BÖNKUNUM. 

Já, ég skil ekki frekar en margir aðrir hvernig hægt er að borga sér 10 milljarða í ár þegar hagnaðurinn var 5 milljarðar. Já, nei, já, 5 milljarðar voru hagnaður ÁRSINS. Nei, ég skil samt ekki hvernig arðgreiðslur geta verið hlutfallslega svo há tala af arðinum.

En það sem ég vildi samt vita er hverjir fá arðgreiðslurnar. Er það ríkið? Lækka þessar greiðslur skattana okkar? Okkar allra kannski? Eða fá lífeyrissjóðirnir arðgreiðslur? Einstakir einstaklingar? Ríka fólkið? Já, kannski er ég að eltast við hégóma en ég vildi samt vita einhver nöfn, einhverjar stofnanir, einhver fyrirtæki.

Fólk talar um gjaldþol tryggingafélaganna. Ef tryggingartaki verður fyrir tjóni getur tryggingafélagið bætt tjónið ef það hefur gjaldþol. Ég spyr: Hafa menn lesið smáa letrið? Tjón og tjón er ekki það sama þótt tjónþoli verði fyrir fjárhagslegu tapi. Útgreiðslan er skilyrt. Ég hef verið heppin og ekki lent í tjóni og aldrei þurft að sækja bætur þannig að áratugum saman hef ég verið styrkveitandi. Jú, ég hef fengið eitthvert hlutfall endurgreitt en eðlilega ekkert í líkingu við það hlutfall sem ég fæ EKKI endurgreitt.

Má lækka iðgjöldin? JÁ. Auðvitað Á að lækka iðgjöldin ef hagnaðurinn er svona mikill. Þá væru fyrirtækin að sýna í verki að þeim væri annt um viðskiptavinina. Þá tryði maður kannski á samkeppni í fákeppnisþjóðfélaginu. Þá væri ég kannski ekki að hugsa: Það þarf andskotakornið að ríkisvæða tryggingafélög, bensínsölu og sölu á ýmsum varningi. Markaðurinn nær ekki að lækka vöruverð og bæta þjónustu eins og er sérstakt áhugamál markaðssinna.

Ég bið um samkeppni og metnað í fyrirtækjunum. Við Íslendingar erum svo seinþreytt til vandræða að þegar við búum til lúður með höndunum og ergjum okkur yfir að ekkert tryggingafélag skari fram úr er ansi langt gengið. Og, já, ég held ekki að litla tryggingafélagið sé neitt skárra. Ég er búin að sjá svo marga segja upp á síðkastið: Ég er ánægð/ur hjá Verði. Rukkunin var of há en strax og ég benti á það var hún lækkuð. Finnst fólki í lagi að kúnninn þurfi sí og æ að benda fyrirtækinu á að það hafi gert meinleg mistök sem það græðir formúur á ef þau eru ekki leiðrétt?

Og endilega minnið mig á hvað Samkeppniseftirlitið hefur gert til að skakka leikinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband