Sjálfstæði þorskastríðanna

Ég vil vera sjálfrar mín ráðandi. Mér finnst ég vera það en kannski er ég bara blind og kannski hugsa ég eins og stóri bróðir ætlast til. Ég veit ekki hvort ég vil ganga í Evrópusambandið, mér hefur aldrei verið boðið upp á að velja fyrir mína parta.

Ég vil ekki skulda, ég vil ekki vera upp á aðra komin. Þannig er mörgum farið, flestum líklega. Við viljum taka eigin ákvarðanir um eigin hag og framtíð. Þegar um framtíð heillar þjóðar er að ræða er hverjum og einum ókleift að velja út frá eigin hag. Þess vegna höfum við fulltrúalýðræði og þótt aðeins 51% hafi valið okkur öllum stjórnvöld tekur kjörinn meiri hluti flestar ákvarðanir fyrir okkur öll.

Ef gæðum landsins væri jafnar skipt þyrfti enginn að líða skort. Auðvitað er eðlilegt að þeir sem leggja meira af mörkum, axla meiri ábyrgð, afla sér meiri menntunar og taka áhættu uppskeri meira en þeir sem gera það ekki. En enginn ætti að þurfa að lepja dauðann úr skel eða óttast morgundaginn vegna hungurverkja. Er það þannig? Ég þekki engan við hungurmörk en ég þekki ekki alla landsmenn.

Ekki aðeins horfum við til framtíðar, við eigum líka fortíð. Ég var í leiðsöguskólanum fyrir rúmum áratug. Þar er mér minnisstæður einn fyrirlestur um söguna, fortíðina. Þorskastríðin voru rædd. Mér finnst kjánalegt að segja að okkur hafi verið „kennt“ um þorskastríðin, fyrirlesari talaði um þau og túlkaði söguna eins og sagnfræðingar gera, lærðir og ólærðir. Okkur var „kennt“ að þorskastríðunum hefði lokið með samningi. Hann var ekki ræddur í þaula en í þessum tíma fór ekki á milli mála sá skilningur að þorskastríðin hefðu verið mikilfengleg, endurtekin, árangursrík fyrir Íslendinga -- og að þeim hefði lokið með samningum. Ég hefði getað lesið þetta og túlkað fyrr eða síðar en þetta var veturinn 2001-2002. Mér finnst kjánalegt að halda því fram að litla Ísland með öflugu klippurnar sínar hefði haft sigur á herveldi Breta ef Bretar hefðu kosið að beita sér.

Ég er sjálfstæður Íslendingur þótt ég gúteri samningsvilja tveggja þjóðríkja. Og þorsksýnin hans Andra er til fyrirmyndar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband