Kappræður eða ekki

Ég er sjúklega spennt fyrir forsetakosningunum, er í hópi þeirra sem gera sér grein fyrir að kosningarréttur er ekki sjálfgefinn og finnst að allir eigi að nýta sér rétt sinn til að hafa áhrif, þótt þau séu vissulega óveruleg í einu atkvæði.

Mér liggur núna margt á hjarta. Þurfum við forseta? Ég hef alveg velt því fyrir mér. Er hann silkihúfa eða öryggisventill? Hvort tveggja? Ef ekki sérstakt forsetaembætti, hver tekur þá á móti þjóðhöfðingjum, flytur ávörp, vígir spítala og skóla? Handhafarnir? Eru þeir ekki (flokks)pólitískir? - Ég vil alls ekki flokkapólitíkus og hef aldrei viljað. Árið 1996 skilaði ég auðu, gat ekki einu sinni hugsað mér að kjósa Guðrúnu Agnars þótt mér þætti hún að mörgu leyti frambærileg og þótt ég væri sannarlega í markhópnum.

Í gær hefði ég sleppt afmælisveislu (það lá nærri) til að geta séð umræðuþáttinn á Stöð 2. Jebbs, væntingarnar voru uppi í þaki og vonbrigðin allnokkur. En líklega hefði ég átt að hafa vit á að spenna væntingabogann ekki svona hátt. Stjórnendur þurftu að spyrja almennra spurninga fyrir áhorfendur sem höfðu lítið kynnt sér sjónarmið þessara fjögurra sem var boðið í þáttinn. Engin svör komu mér á óvart. Sáralítið heyrði ég nýtt. Ég er búin að velja mér forsetaefni en ég er öruggt óvissuatkvæði í öllum almennum kosningum og útiloka ekki að skipta um skoðun. 

Já, mér þótti þátturinn dauflegur. Tilþrifalítill. Geldur. Allir feimnir, hlédrægir, óframfærnir, í biðstöðu. En almennt kvartar maður meira yfir því að allir grípi stöðugt fram í fyrir hinum. Líklega var þetta ágætt. En aðrir umræðuþættir verða vonandi samt líflegri.

Svo ætla ég að bera blak af Stöð 2 sem er einkarekin sjónvarpsstöð á auglýsingamarkaði. Ég hef aldrei verið með áskrift, ekki svo mikið sem í mánuð, ekki til prufu, aldrei. Stöð 2 hlýtur að vera í daglegri baráttu við að búa til sjónvarp og halda sjó. Ég þykist vita að JónsÁsgeirs-klanið eigi 365 miðla en á þessum miðlum vinnur fólk sem vill vanda sig. Ég hlusta mjög oft á Harmageddon, einhverja búta, og þeir félagar vaða í hvern sem er og láta örugglega ekki skikka sig í skotgrafir eða til að tala gegn skoðunum sínum. Stöð 2 ber engin skylda til að hugsa um almannahag, hún þarf bara að reyna að halda trúverðugleika og framleiða nógu gott stöff til að fólk horfi og auglýsendur borgi. Þannig samþykki ég alveg að hún velji fólk í settið. En vissulega hefði stuðið orðið meira með Elísabetu, Sturlu, Hildi og Ástþóri. Þrátt fyrir að hafa fylgst æst með frá 1. janúar hef ég ekki séð nógu mikið til Guðrúnar Margrétar til að trúa miklu stuði upp á hana.

Mánuður eftir og hjartslátturinn eykst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband