,,Hag­kvæm­ast er lík­leg­ast að keyra rútu alla ævi."

Þórður Snær Júlíusson greinir þarfasta þjóninn í Kjarnanum fyrir helgi, ferðamanninn sem bjargar hagkerfinu á Íslandi. Ég skil hann þannig, og er sammála, að arður sé mikill af ferðaþjónustu en renni í fáa vasa og það held ég að sé risastórt vandamál í umræddu hagkerfi.

Ég bjó í 101 í dágóðan tíma einu sinni en nú eru komin býsna mörg ár síðan ég hrökklaðist þaðan undan skemmtistaðahávaða. Nú hafa menn áhyggjur af því að 101 Reykjavík sé að stimpla sig út sem íbúðahverfi. Já, það er þannig. Til viðbótar eru ýmsar húseiningar að gefa sig sem íbúðir af því að Airbnb er búið að að ryðja sér svo mikið til rúms að hinum venjulega Íslendingi finnst ekki lengur pláss fyrir sig. Og umbunin fyrir það? Engin. Óvenjulegu Íslendingarnir, þeir sem rorra ofan á ferðamannastraumnum, skara eld að eigin köku, kalla hana mögulega þjóðarköku en nýta hana í þágu sína og sinna.

Við þurfum að flytja inn fólk til að manna leiðinleg, óþrifaleg og illa borguð störf.

Á sama tíma fær fólk ekki almennilega borgað fyrir að gegna störfum sem krefjast menntunar, útsjónarsemi og fórna, t.d. að vera langdvölum frá fjölskyldu sinni. Leiðsögumenn, andlit þjóðarinnar, andlit ferðaþjónustunnar, hafa svo ömurlega kjarasamninga að menn láta sig hverfa, kannski einmitt þegar þeir eru komnir með ágæta reynslu á skítakaupi. Kannski var ég ömurlegur leiðsögumaður í 11 sumur og kannski var mér þess vegna boðin vinna aftur og aftur hjá sömu fyrirtækjunum - nei, þið sjáið það sjálf að það er varla ástæðan. Ég hætti 2013 vegna lélegra launa og hruninna innviða. Nú er þriðja sumarið frá þeim tíma að renna upp og við erum enn að tala um klósett hátt og í hljóði. Grunnþörfunum þarf að sinna til að fólk njóti alls þess sem við höfum upp á að bjóða í náttúru og menningu.

En menntun er ekki metin til launa og reynslan ekki heldur. Kannski er mestu ævitekjurnar að hafa sem rútubílstjóri - en aðallega eigendur ferðaþjónustufyrirtækja sem geta fleytt rjómann úr turninum sínum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband