Eru menn búnir að gleyma ferðaþjónustunni?

Þótt ég sé ferðaþjónn til margra ára og hafi flækst um með ferðamenn er ég greinilega andvaralaus á stundum og flýt um sofandi eins og margir. Athygli mín var vakin á síðunni hengill.nu sem minna sofandi ferðaþjónar hafa stofnað. Þau hafa safnað upplýsingum um virkjun sem stendur fyrir dyrum, virkjun sem Orkuveita Reykjavíkur, sú sem fræg er orðin að endemum, ætlar að beita sér fyrir. Ég sem hélt að OR ætlaði að leggja upp í jákvæða ímyndarsköpun, jafnvel hafa fyrir því að vanda sig við að gera hið rétta.
Sjálf hef ég ekki flandrað um þessi firnindi með ferðamenn, þvert á móti flandrað þar um undir leiðsögn starfsmanna Orkuveitunnar, grasafræðings og jarðfræðings, gott ef ekki líka verkfræðings, og margir vina minna í stéttinni hafa lagt þarna litrík lönd undir fót. Ég hef hins vegar þeyst um þúsundvatnaleiðina sem jeppakörlum hefur þótt þrengt að undanfarið. Ekki skánar hagur strympu ef þetta verður að veruleika.
Ferðaþjónustan er orðin annar mest gjaldeyrisskapandi atvinnuvegurinn. Er ekki meiri ástæða til að hlúa að greininni en reyna að þjarma svo að henni að við hrekjumst út í horn? Nærumhverfi Reykjavíkur er kjörlendi tímabundinna göngugarpa.
Á síðunni er áskorun til yfirvalda sem ég ætla að skirrast við að skrifa undir og senda. Ég ætla hins vegar að lesa hana á síðunni minni meðan ég undrast hátternið.
________________________________________________________________________


Skipulagsstofnun
Laugavegi 166
150 Reykjavík

og

Sveitarfélagið Ölfus
Hafnarbergi 1
815 Þorlákshöfn

21. október 2007

Efni: Athugasemd við fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir - Bitruvirkjun, allt að 135 MW jarðvarmavirkjun í Sveitarfélaginu Ölfusi og Grímsnes- og Grafningshreppi.

Ég undirritaður/undirrituð mótmæli fyrirhuguðum virkjunarframkvæmdum Orkuveitu Reykjavíkur á svokölluðu Hengilssvæði með eftirfarandi atriði í huga:

  1. Hengilssvæðið og dalirnir austan, vestan og sunnan þess hafa lengi verið ein helsta útivistarparadís íbúa höfuðborgarsvæðisins og er skilgreint sem útivistarsvæði, staðfest af umhverfisráðherra í janúar 2005. Nú, þegar verið er að þétta byggð á höfuðborgarsvæðinu svo gríðarlega sem raun ber vitni, byggja á öllum auðum blettum og fækka útivistarsvæðum í þéttbýli, er brýnna en nokkru sinni að íbúar höfuðborgarsvæðisins eigi kost á að njóta óspilltrar náttúru í hæfilegri dagsferðarfjarlægð frá heimilum sínum. Þetta svæði er eitt örfárra í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem hægt er að ganga um í friði og ró, njóta ótrúlega fjölbreyttrar náttúrufegurðar fjarri amstri dagsins og síaukinni bílaumferð á höfuðborgarsvæðinu.

    Ég mótmæli því harðlega að stórfyrirtæki verði heimilað að svipta íbúa höfuðborgarsvæðisins og afkomendur þeirra þessum lífsgæðum til þess eins að þjóna hagsmunum erlendra auðhringa í áliðnaði eða annarri stóriðju. Þar af leiðandi mótmæli ég einnig að hluta svæðisins verði breytt í iðnaðarsvæði skv. fyrirhugaðri breytingu á aðalskipulagi Ölfuss.

  2. Ein helsta tekjulind íslensku þjóðarinnar nú er ferðaþjónusta. Erlendir ferðamenn koma fyrst og fremst til Íslands til að njóta þeirrar náttúrufegurðar sem landið hefur upp á að bjóða. Við auglýsum landið sem óspillta náttúruperlu og á þeim svæðum sem það loforð stenst standa ferðamenn á öndinni yfir þeirri fegurð sem við þeim blasir. Hengilssvæðið er einn þessara staða og vinsælt að fara þangað í dagsferðir með erlenda ferðamenn, ýmist gangandi eða á hestbaki. Margir ferðamenn gera stuttan stans á landinu og þá er nauðsynlegt að geta sýnt þeim óspillta náttúru sem næst höfuðborgarsvæðinu.

    Ég mótmæli því harðlega að stórfyrirtæki verði heimilað að svipta ferðaþjónustuna tækifæri til að sýna erlendum ferðamönnum óspillta náttúru í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og legg til að svæðið verði friðað til frambúðar.

  3. Framkvæmdaraðili virkjana á Hengilssvæðinu er Orkuveita Reykjavíkur, en hún er einnig sá aðili sem lét gera umhverfismat og ber kostnað af því. Þetta eru ámælisverð vinnubrögð þar sem stór hagsmunaaðili er í raun dómari í eigin máli. Ég mótmæli slíkum vinnubrögðum harðlega og geri þá kröfu að óvilhallir aðilar sjái alfarið um mat á umhverfisáhrifum og íslenska ríkið beri kostnaðinn. Umhverfismat sem framkvæmt er og kostað af hagsmunaaðila framkvæmdar getur aldrei verið marktækt.

  4. Einnig geri ég alvarlega athugasemd við kynningu og tímalengd hennar þegar svo stórar framkvæmdir eru annars vegar sem snerta nánasta umhverfi og lífsgæði ríflega helmings íslensku þjóðarinnar. Sex vikna frestur til athugasemda er allt of skammur og allt kynningarferlið til þess gert að sem fæstir veiti málinu athygli og hafi skoðanir á því.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Dreif í því að senda póstinn þegar ég sá færsluna hjá þér - var bara búin að lesa það sem stendur á síðunni og kynna mér málið aðeins en átti þetta eina skref eftir ...

... sem ég vona að þú stígir líka, Berglind! hnuss!

Ásinn (IP-tala skráð) 1.11.2007 kl. 08:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband