Opið eða lokað um páska

Ég fór í bakarí á Laugaveginum í gær og mætti á leið minni einmana ferðalöngum. Fólkið leit út fyrir að vera útlenskt og í fríi í Reykjavík. Og hvað stendur því til boða á degi sem er í mörgum löndum ósköp venjulegur vinnudagur?

Ég gáði ekki að því en a.m.k. voru flestar verslanir lokaðar, fátt fólk á ferli og hálfeyðilegt yfir öllu. Það er reyndar annað vandamál við Laugaveginn þessa dagana hvað hann er dapurlegur, tómar verslanir og lítið um að vera. Hvernig dettur fólki líka í hug að sérverslun með baðsölt geti borið sig? Ég gerði dauðaleit að kápu á Laugaveginum fyrr í mánuðinum og í þeim tveimur tilfellum sem ég hefði getað orðið ánægð var önnur á 80.000 kr. og hin kom bara í tveimur eintökum í minni stærð - og voru bæði eintökin seld.

Rétt í þessu var frétt á Sky um það að í London geti menn nú gamblað á föstudaginn langa. Sumum finnst það fyrir neðan allar hellur en fólk hefur val um að fara ekki inn ef það vill ekki. Einhverjum er samt misboðið yfir því að aðrir vilji hafa þessa spennu í lífinu ...

Ég man þá hörmungartíma þegar allt var lokað um páska með lögum, líka um hvítasunnuna. Mér þykja þetta skárri tímar en er svo laus við einhvern páskaheilagleika að ég vildi hafa meira opið. Presturinn í fréttinni gagnrýndi 24/7-samfélagið sem við erum farin að lifa og vildi að fólk hefði tíma til að slaka á. Huhh, þurfa allir að slaka á samtímis?

Ég hef oft unnið um páska og átt í staðinn frí á öðrum tímum. Mér þótti það alltaf ágætt og er alveg áreiðanlega ekki ein um það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vá... ég ætlaði bara að segja þér að bloggið þitt var komið í leitarindexinn hjá Google klukkan ca. 12:05. Líklega örfáum mínútum eftir að þú skrifaðir það.  Ég leitaði á Google.com að 'opið um páska'... Sorry... ég er leitarvélanörd. Gleðilega Páska :)

Ólafur Kr. (IP-tala skráð) 21.3.2008 kl. 12:13

2 identicon

Heyrðu ofangreind uppgötvun var merkilegri en ég vissi... Þegar betur var að gáð sló ég nefnilega inn 'opið um páskana' en leitarstrenginn "páskana" er hvergi að finna í bloggfærslunni þinni. Þetta staðfestir það sem ég var búinn að sjá merki um að Google sé óðum að læra íslenskar beygingar. Ferfalt húrra Google! Og ég sem er nýbúinn að skammast opinberlega yfir stafsetningu hjá þér.

Þið hin, sem gææææææti ekki verið meira sama um þessa nördísku... Takk fyrir... Þessar 4 mínútur af ævi ykkar fáið þið víst aldrei aftur til baka :)

Nördinn aftur (IP-tala skráð) 21.3.2008 kl. 12:20

3 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ju, þetta útskýrir þessa brjáluðu traffík hjá mér ... En reyndar hef ég staðið Google að vandvirkni (ég veit ekki hvort nákvæmlega þetta dæmi flokkast undir það þar sem mig grunar að þú, Ólafur, hafir viljað vita hvar væri opið, hmm) og fljótum vinnubrögðum. Loks er eitthvað í þessum heimi sem maður getur treyst ... téhé.

Berglind Steinsdóttir, 21.3.2008 kl. 12:35

4 identicon

Tja það má nú alveg fylgja sögunni að ég fann nú ekki upplýsingarnar sem ég var að leita að. Þar er hins vegar ekki við leitarvélina að sakast. Þetta með málfræðina er hins vegar svo gríðarleg breyting fyrir íslenska netnotendur að ég gleymdi alveg upphaflega erindinu. Ég er hæstánægður með íslenskunám Google. Svo ánægður að ég gerði mitt eigið "blogg" um málið handa þeim sem eru áhugasamir um leitarvélar og markaðssetningu á Internetinu.

HVAÐA BÚÐIR ERU ANNARS OPNAR Í DAG? Google vill ekki segja mér það!

Bestu kv.

Ólafur Leitarvélanörd (IP-tala skráð) 21.3.2008 kl. 15:31

5 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ég man bara eftir 10-11 ...

Berglind Steinsdóttir, 21.3.2008 kl. 15:48

6 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ég hef aldrei skilið þennan heilagleika Íslendinga að það megi ekkert gera á föstudaginn langa. Sem betur fer hafa þeir slakað aðeins á þar. Ég hef nú reyndar ekki farið út hér ennþá svo ég veit ekki hvað er opið hjá mér en ég er viss um að það er hægt að gera helling, enda engin ríkiskirkja. Enginn fékk frí í gær og fæstir fá frí á mánudaginn. Dagurinn í dag er eini frídagurinn hjá fólki svona almennt, þó ekki öllum. Nú langar mig að fara og borða páskaeggið mitt.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 21.3.2008 kl. 18:27

7 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Hey, þú hefur alltaf mátt fara á SKÍÐI. Það starfsfólk mátti vinna og þurfti ekki að skammast sín fyrir að hlæja á þessum grátlega degi. Aðrir en skíðaiðkendur (tala hér helst um börn) urðu að þreyja alla þessa aukatíma. Það held ég nú.

Og málshátturinn þinn, Stína, var ...? Ég er búin að fá einn dularfullan: Allt sem þú þarft í lífinu er þekkingarskortur og sjálfstraust. - Ég er voða vitlaus og finnst ég frábær???

Berglind Steinsdóttir, 21.3.2008 kl. 18:58

8 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Yfir sjálfum sér, yfir líkama sínum og anda á hver maður einfaldsráð.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 23.3.2008 kl. 07:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband