Strætó í áskrift

Eftir að strætó fór að leika rútu hefur verðskráin verið algjörlega út úr kortinu. Að sönnu er eitthvað ódýrara að fara núna staka ferð til Sauðárkróks en var með Sternu en bæði eru vagnarnir lægri og þar með hættulegri úti á vegum og svo er galið að láta eins og nokkur maður fari akandi daglega milli landshluta. Afsláttarkjörin eru því tómt húmbúkk.

Nú hefur blaðamanni Vísis dottið í huga að spyrja strætó út í verðskrána og svarið er vitaskuld lélegur brandari. Reiknivélin er mannanna verk og er mötuð á ótækum forsendum.

Almenningssamgöngur hvað? 


Ætlað samþykki

Í framhaldi af umræðu um líffæragjöf ungs manns sem lést af slysförum gróf ég ofan í seðlaveskið mitt eftir líffæragjafakortinu mínu. Ég man að ég fór fyrir tæpum 10 árum út á Austurströnd, þar sem skrifstofa landlæknis var, til að fá kort. Það var enginn í afgreiðslunni en ég horfði gaumgæfilega í kringum mig þangað til ég fann renning með þremur kortum sem þurfti að rífa eða klippa úr. Ég man að mér þótti aðeins vanta upp á þjónustuna og leiðinlega mikið upp á að ég ætti auðvelt með að gefa skýrt og skorinort til kynna að ég vildi að líffærin úr mér yrðu nýtileg öðrum ef á reyndi.

Nú er enn einu sinni búið að leggja fram frumvarp um ætlað samþykki sem þýðir að fólk þarf að ákveða að vilja ekki gefa líffærin ef það deyr til dæmis af slysförum. Núna er „ætluð neitun“, þ.e. ef fólk hefur ekkert skráð er gert ráð fyrir að það vilji ekki gefa. Málið er þó trúlega að margir vilja ekki gera ráð fyrir að deyja í blóma lífsins en hafa kannski – vonandi – ekkert á móti því að gefa líffærin sín ef svo slysalega fer.

Það hefur verið talað um að skrá ætlað samþykki (eða ætlaða neitun) í ökuskírteini en það mætti allt eins vera rafrænt í kerfinu. Aðalatriðið er að fólk ákveði þetta og láti vita svo við getum aukið lífslíkur annarra ef okkar hverfa.

Það er þverpólitískur vilji allra sex flokkanna samkvæmt frumvarpinu. Komaso!


Kjarabarátta

Ég er í kjarabaráttu fyrir hönd leiðsögumanna sem felldu jólasamninginn í síðustu viku. Það að vera leiðsögumaður er algjör aukageta hjá mér, eins og mörgum þar sem háönnin er enn á sumrin, og nú hef ég ákveðið að selja mig ekki fyrir minna en 40% hærri laun en taxtinn kveður á um.

Það þýðir að dagvinnutaxti minn sem launþega verður með öllum undirbúningstíma (sem er annars ekki greiddur), orlofi, desemberuppbót og fata- plús bókakostnaði kr. 2.700 í dagvinnu. Þá veikist ég á eigin kostnað, tek áfram frí heilan launalausan dag ef ég þarf að fara til tannlæknis, fæ ekkert launað orlof eins og aðrir launþegar og er til staðar á kvöldin í hringferðum af því að ég hef ekkert val um að fara heim til mín, knúsa mína nánustu, setja í þvottavél eða hringja úr heimasímanum.

Þetta eru hóflegar launakröfur af því að ég vorkenni svolítið ferðarekendum sem eru búnir að verðleggja ferðirnar í ár. Samt er viðbúið að þeir vilji ekki kaupa af mér þjónustu af því að enn eru í umferð eftirlaunaþegar og húsmæður með fyrirvinnu.

Þetta hljómar kannski beiskt en ég veit að ég stend þrátt fyrir allt bara næstum jafnfætis körlum í launum af því að forverar mínir í kjarabaráttu unnu fyrir mig. Ég ætla að reyna að tryggja næstu kynslóð leiðsögumanna boðleg laun. Það kemur enginn með jafnréttið og sanngirnina á silfurfati og réttir okkur.


Er bíll nauðsyn eða munaður?

Sumir þurfa nauðsynlega að vera á bíl. Eða næstum því að minnsta kosti. Ég hef skilning á því þegar fólk er með mjög mörg börn eða býr langt frá strætóumferð eða á erfitt með gang eða þarf raunverulega að vera víða sama daginn og hefur ekki tíma til að koma sér öðruvísi á milli. En ég veit líka að margir eru háðir bíl af því að þeim finnst þægilegt að geta sest upp í bílinn sinn og keyrt sína leið.

Og já, það er eins og mörgum finnist minnkun að því að nota almenningssamgöngur. Eftir málefnalega ræðu þingmanns í gær er ég sannfærð:

Þetta kemur best fram þegar kemur að strætó, það er reyndar Reykjavíkurlúxus. Fólk kvartar og kvartar undan háu bensínverði og ef maður spyr hvort það hafi hvarflað að einhverjum að hætta að kaupa bensín og fara frekar að nota strætó er svarið: Nei. Þá kemur í ljós að fólk er í skóla, það er í vinnu, það á börn. Er fólk ekki í skóla erlendis? Er fólk ekki í vinnu erlendis? Á fólk ekki börn erlendis? Í strætó? Ég hef búið erlendis, í tveimur löndum. Svarið er: Jú, fólk notar strætó þrátt fyrir það. 

Við kvörtum undan háu verði en verslum engu að síður. Við kvörtum undan lélegum kjarasamningum en gerum ekkert til að hækka þá eða vinna gegn litlum kaupmætti.

Ég veit ekki hvort þetta er séríslenskt en stundum held ég það. Allt fyrir lúkkið.


Leiðsögumenn felldu kjarasamning

Ég get ekki sagt að ég sé hissa á að samningur Félags leiðsögumanna við Samtök atvinnulífsins hafi verið felldur.

223 voru á kjörskrá og 51 greiddi atkvæði, það þýðir 22,9% kjörsókn. Atkvæðagreiðslan var rafræn, fólk þurfti ekki að gera annað en að opna tölvuna sína, sækja seðilinn – og gera upp hug sinn.

17 sögðu já, 31 sagði nei, þrír skiluðu auðu. Allt þetta má lesa á heimasíðu Félags leiðsögumanna. 

33% sögðu já, rétt rúm 60% nei og þar með er samningurinn felldur. Kjaranefnd sest að borðinu með Samtökum atvinnulífsins með kröfugerðina og reynir að gera betur. Ef það tekst ekki verður hóað í ríkissáttasemjara. Ef ekki tekst að semja með hans hjálp er ferðaþjónustan hugsanlega í uppnámi strax næsta sumar.

Og ég finn mikla ólgu í samfélaginu í alls konar stéttum sem felldu sambærilega samninga. 

Því miður held ég að verkföll skili engum neinu í alvörunni en ég held að leiðsögumenn séu ekki lengur til í að vinna fyrir 1500 krónur á tímann.  


Atkvæðagreiðsla kynnt í dag

Verkalýðsfélög með beina aðild að ASÍ eiga að tilkynna niðurstöðu úr atkvæðagreiðslu um kjarasamninga í dag. Það er búin að vera heilmikil umræða um jólasamningana upp á 2,8% og hvernig eigi að tryggja kaupmáttinn þannig að túkallinn fari ekki strax allur – og meira til – í verðhækkanir af ýmsum toga. Mér fannst hún reyndar meiri allra fyrst en ég hef fram á þennan dag heyrt spádóma um báðar niðurstöður.

En nú les ég að Blaðamannafélagið sé búið að vísa kjaradeilu sinni til ríkissáttasemjara. Trú þess á samninga og viðræður er þannig lítil og ég spyr:

Í hvað stefnir með vorinu? 


Pólitísk partí

Ég held að Ólafur Stefánsson hafi hitt naglann lóðbeint á höfuðið í Sunnudagsmorgni Gísla Marteins. Flokkarnir þykjast vera hver með sínu mótinu á daginn en á kvöldin eru þeir allir saman í sama partíinu.

Um leið og menn taka málefnalega afstöðu í atkvæðagreiðslu og fylgja sannfæringu sínu er það gagnrýnt og menn hengdir út sem svikarar.

Við kjósendur eigum þannig stóran hlut að máli með því að heimta þrátt fyrir allt að stjórnmálamenn séu í kössum.

Óli orðaði þetta eitthvað öðruvísi ...

Er þetta svolítið þversagnakennt að sjá hjá mér? Aðalatriðið er að menn fá ekki að fara eftir sannfæringu sinni af því að bæði að innan og utan koma fyrirmæli um samtryggingu. Og nýir kjósendur sjá engan tilgang í að nýta atkvæðið sitt. ÞAÐ er sorglegt.


Fangelsisstarfsemi eftirsóknarverð?

Ég er að lesa Fimbulkaldan eftir Lee Child (skáldanafn). Reacher lendir í afviknum bæ sem er fullur af frosti og hann hélt að væri steinsofandi. Þegar á vettvang er komið reynist hann fullur af fólki sem hefur lífsviðurværi sitt af fangelsi sem var sjanghæjað á staðinn. Fangelsinu fylgja mikil umsvif, endalaus röð gesta sem þurfa að borða og sofa á staðnum til að geta heimsótt fangana, sína nánustu. Bisniss. Peningar. Umsvif. Gróði.

Vandræði.

Getur verið að fólk selji einkalíf sitt og öryggi fyrir nokkra upphækkaða jeppa og hús svo stór að það er ógjörningur að halda þeim hreinum? 


vertuaverdi.is

Vonandi hef ég rangt fyrir mér en mikið skelfilega er ég hrædd um að átakið til að fylgjast með birgjum og fyrirtækjum sem hækka eða lækka verð renni út í sandinn, í síðasta lagi fljótlega eftir að kjarasamningar hafa verið samþykktir. Og ég held að þeir verði yfir línuna samþykktir af því að við erum sáttfús, veikburða, samstöðulaus og gleymin þjóð. Þetta síðasta er samt einföldun vegna þess að ekki geta allir menn öllum stundum borist á banaspjót(um).

Lægstu laun eru of lág og svo langt sem augað eygir er engin kaupmáttaraukning sjáanleg. Verkföll skila samt oft engu en það sorglega er að rök, staðreyndir og málefnalegur rökstuðningur virðist ekki heldur gera það.

Hvað virkar? 


2,8% inn, 3,5% út?

Kjarasamningurinn frá 21. desember var kynntur fyrir leiðsögumönnum í gærkvöldi. Hann var gerður í samfloti með fjölmörgum öðrum innan vébanda ASÍ, er alveg kylliflatur upp á 2,8% handa öllum, ekki hlustað á sérkröfur, ekki litið við rökum, það hunsað að ferðaþjónustan er orðin burðarstoð undir efnahagnum í landinu og skilar fúlgum fjár.

Hvað gera menn þegar ekki er hlustað á rök og staðreyndir virtar að vettugi? 


Gylfi og Vilhjálmur í Kastljósinu

Kastljós kvöldsins er ekki komið í Sarpinn en Sigmar spurði Gylfa Arnbjörnsson hjá ASÍ hvort hann gæti lifað af 191.000 kr.

Okkur heyrðist hann segja: Alveg eins.

Það fólk sem er með 191.000 kr. í heildarlaun á mánuði gerir ekki meira en að lifa af. Og ef eitthvað fer úrskeiðis, veikindi eða biluð þvottavél, eða ferming stendur fyrir dyrum, að maður tali ekki um þvílíkan munað sem skíðaferð til Akureyrar er eina helgi, er fjandinn laus.

Á Íslandi er ekki hægt að lifa samanburðarlífi ef launin eru 191.000 á mánuði. Það eru 2.292.000 á ári. Hvað kostar skikkanleg þriggja herbergja íbúð í Reykjavík? Hvað kostar hveitipokinn? Hvað kostar að kynda? Hvað kostar að hringja? Guð minn góður, hvað kostar að keyra milli hverfa?!

Kjarasamningarnir eru ekki boðlegir. 

Eini raunhæfi samanburðurinn er það líf sem meðalmaðurinn á Íslandi lifir. Sjálf veit ég ekki til þess að ég þekki neinn sem getur ekki leyft sér að hafa netið heima hjá sér.


Walter Mitty eða Marilyn Monroe - þar er efinn

Svo mikið var íslenski hlutinn í myndinni um Walter Mitty hæpaður upp að ég varð bara að sjá myndina við fyrsta tækifæri. Og fyrsta tækifæri gafst um helgina á Akureyri. Sannarlega var bíóferðin skemmtileg í skemmtilegum félagsskap en samt varð ég fyrir talsverðum vonbrigðum með söguna. Ísland birtist ekki fyrr en 40 mínútur voru liðnar af myndinni og svo var náttúrlega margt ótrúverðugt. Það er hluti af sögunni, ég er búin að ná því, hún var um draumaveröld gaursins.

Samt. 

Ekki nógu hrifin án þess að sjá vitund eftir að hafa farið.

Á leiðinni heim sá ég aðra mynd í bílnum, svarthvíta mynd sem ég hef ekki fyrr séð þótt hún sé frá árinu 1959, mynd sem skartar stjörnunum Marilyn Monroe, Tony Curtis og Jack Lemon, mun frjálslegri mynd en ég hefði veðjað á. Auðvitað var eltingarleikurinn, búningaskiptin, lygarnar og allt mögulegt ósannfærandi.

En samt.

„Some like it hot.“

Svo hef ég aldrei alveg kunnað að meta Ben Stiller. Stundum ræður maður bara ekki við smekk sinn.


Áramótaskaupið > opinmynntur broskall

Áramótaskaupið er mér yfirleitt að skapi. Að sumu leyti hef ég skilning á að það er erfitt að gera öllum til hæfis, að sumu leyti er ég nógu vel að mér til að skilja brandarana og að sumu leyti er ég almennt til í að hlæja og hafa gaman. En að miklu leyti er skaupið bara gott þótt auðvitað höfði einstök atriði mismikið til fólks.

Ég hló ekki mikið í gærkvöldi, ég var meira í að kinka kolli af því að ég var að einbeita mér að bröndurunum. Þess vegna finnst mér frábært að geta horft aftur. Og aftur og aftur ef því er að skipta.

Í fyrsta lagi er ég kát með að hafa marga leikara, mér finnst það alltaf skemmtilegra en að hafa fáa leikara í mörgum hlutverum. Mér fannst byrjunaratriðið alveg fyndið eins og það var þótt ég skildi ekki nektina. Nú er búið að benda mér á „frummyndina“, myndband með Miley Cyrus – ég skil að vísu ekki af hverju hún situr allsnakin á niðurrifsbolta en nú veit ég að minnsta kosti hvaðan hugmyndin kom. Eins og gefur að skilja þarf að endurnýta tónlistarmyndbönd í öllum þessum niðurskurði. HÍ, RÚV og þróunaraðstoðin verða fyrir kúlunni, Bjarni stoppaði hana við LÍÚ en Vigdís „RÚV-rústar þér“.

Google-bíllinn > fyndið atriði. Koma hans hingað í sumar fór framhjá mér en ég er búin að heyra skemmtilegar sögur af meðvitund fólks. Atriðið endurspeglar þá upplifun (fyrirgefðu, Baggalútur, að ég skuli nota það forsmáða orð) og vilja fólks til að sviðsetja.

Stóra gallabuxnamálið > ég man eftir því. 

Siggi Hlö > jamm (þreytandi síbylja).

Ferðamenn arðrændir með hvalaskoðun/hvalveiðum, norðurljósum > tékk. Það er alveg munur á skefjalausri þjónkun við ferðamenn (sbr. að fella niður gistináttagjaldið) og því að veiða þá í gildrur og selja þeim óseljanlega hluti. Þetta er grein sem skiptir alla Íslendinga máli og mig meira en suma þar sem ég hef starfað við ferðaþjónustu á sumrin. Í ljósi samninganna sem við skrifuðum undir 21. desember er ég kannski hætt en ferðaþjónustan heldur áfram að skipta mig máli.

Hannes Óli Ágústsson > sláandi líkur forsætisráðherra.

Gaurarnir fjórir sem borðuðu þurrt kál á veitingastað, þrír þeirra sjálfstætt starfandi og svo Guðmundur Pálsson sem átti að breyta Hofsvallagötu > kannski getur einhver hjálpað mér að skilja brandarann. Mér fannst sketsinn samt skemmtilegur.

Frárennslisatriðið undir söng við lag Ásgeirs Trausta > eina atriðið sem ég horfði ekki á aftur ...

Kosningarnar. Þar var margur naglinn sleginn í höfuðið (gengur ekki að segja: hittur í höfuðið).

Flugdólgsmálið > ókei, það var svolítið júní eða eitthvað og fulllangt. Nei, alltof langt. Er þar mögulega verið að gera grín að Kastljósi og óspennandi viðmælendum?

Klippan af Eiði Smára > dálítið billeg blekking en fimmaurar mega koma með. 

Balti og áhættuleikurinn í Esjunni > fulllangt. Samt fyndið, og bullandi góð ádeila á niðurskurð til lista og menningar.

Keflavík Music Festival > man eftir því.

Veðurfræðingurinn fyrir utan húsið > massafyndið. „Við fáum okkur bara ís næsta sumar.“

Fylgistap VG og Samfylkingar sem raunveruleikaþáttur > vel gert. Ég veit ekki einu sinni hver léku þau. Ég er ánægð með það. The Biggest Loser Ísland > er þar ekki verið að draga dár að Ísland Got Talent?

Mountain Dew (á Laugarvatni?) > sú sena er hreinn unaður. Frábærir leikarar.

Ikea-glæpurinn > fyndið atriði.

Króatíu-leikurinn > misheyrnin, hahaha.

NR1DAD sem lagði í þyrlustæði og lét sér á sama standa hvað fólki fannst > frábært atriði.

Sögustundin með barninu þegar „góðu kallarnir“ voru komnir að stjórnvelinum > frábærlega fyndið atriði.

Laddi > ;( ekki mér að skapi, ekki einu sinni þótt hann snúi út úr Eurovision-framlagi okkar.

Litadýrðin á Hofsvallagötu > á toppnum. 

Graham-gaurinn > gott atriði. Ari sérlega góður.

Flugvöllurinn > toppatriði. Albesta atriðið. Framan af hvarflaði ekki annað að mér en að Maríanna Clara og Björn tækjumst á um barn. Tilfinningarnar ultu um allt. Sennilega besta leikatriði ársins.

Handarlausi maðurinn á bráðadeildinni > hárbeitt atriði með Steinda og Maríu Hebu.

Bakarameistarinn > slapp.

Sjálfstætt fólk > það grín var allt á kostnað Jóns Ársæls (nema náttúrlega „til mín kveða“ og „Á morgun sefur sá lati“).

WOW > ég hef heyrt að flugfélagið sé dálítið til í að glensast. #djók 

Á karla vörum > launfyndið. Ég hló meira núna en í gær.

Essasú, Vodafone > æði!

Meistaramánuður > áður notaður brandari um „heilsufríkin“, samt góður.

Kynningin á lokalaginu fannst mér fyndin.

Áramótaheit Ilmar og Steinda > fyndin.

Lokalagið var gott.

Baggalútur og Saga Garðars rúla. Og auðvitað fleiri.

- Þessi skoðun var í boði Be Stones.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband